Fréttir

Birting álagningarskráa

8.8.2005

Í tilefni af umfjöllun fjölmiðla að undanförnu um birtingu upplýsinga úr álagningarskrá og heilsíðuauglýsingu Frjálsrar verslunar í Fréttablaðinu, dags. 3. ágúst 2005, þar sem fullyrt er að Persónuvernd hafi tekið ákvörðun um að tekjublað Frjálsrar verslunar skuli einungis selt í 11 daga, eftirfarandi tekið fram:

Í tilefni af umfjöllun fjölmiðla að undanförnu um birtingu upplýsinga úr álagningarskrá og heilsíðuauglýsingu Frjálsrar verslunar í Fréttablaðinu, dags. 3. ágúst 2005, þar sem fullyrt er að Persónuvernd hafi tekið ákvörðun um að tekjublað Frjálsrar verslunar skuli einungis selt í 11 daga, eftirfarandi tekið fram:

Persónuvernd hefur ekki tekið slíka ákvörðun.

Forveri Persónuverndar, tölvunefnd, tók hins vegar á sínum tíma afstöðu til birtingar fjölmiðla á áætluðum tekjum tiltekinna einstaklinga og komst að þeirri niðurstöðu að ákvæði skattalaga gengju framar hinum almennu ákvæðum þágildandi laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, en þau heimiluðu tímabundinn aðgang almennings að upplýsingum um álagða skatta. Nefndin taldi það ekki á sínu valdi að takmarka aðgang fréttamanna að framangreindum skrám, eða notkun þeirra eða birtingu á þeim upplýsingum sem þar koma fram. (Mál nr. 94/152)

Þá hafði tölvunefnd til meðferðar annað mál varðandi fyrirtæki sem hafði myndað skrá með upplýsingum úr álagningarskrá og hugðist dreifa henni í bókarformi til sölu á almennum markaði. Niðurstaða nefndarinnar var að slík útgáfa löngu eftir lok kærufrests álagningar samkvæmt skattalögum væri fyrirtækinu óheimil. (Mál nr. 94/234)

Af framangreindu er ljóst að afstaða tölvunefndar var sú að það væri ekki á hennar valdi að meina fjölmiðlum að birta upplýsingar úr álagningarskrá á meðan hún lægi frammi til sýnis fyrir almenning. Eftir þann tíma færi hins vegar um aðgang og meðferð upplýsinganna samkvæmt þágildandi lögum nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt ákvæðum þeirra laga var óheimilt að skýra frá upplýsingum er varða einkamálefni einstaklinga nema með samþykki viðkomandi eða sérstakri heimild tölvunefndar.

Þessi skilningur tölvunefndar var staðfestur af bæði dómstólum og umboðsmanni Alþingis.

Tölvunefnd hafði eftirlit með framkvæmd eldri laga nr. 121/1989 um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Þau lög féllu úr gildi hinn 1. janúar 2001 með gildistöku laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Persónuvernd hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 77/2000 og hefur ekkitekið afstöðu til þess hvernig birting upplýsinga úr álagningarskrá samrýmist ákvæðum þeirra.





Var efnið hjálplegt? Nei