Fréttir

Dómur Evrópudómstólsins í málum nr. C/317/04 og C-318/04

25.7.2006

30. maí sl. kvað Evrópudómstóllinn upp dóm í málum nr. C-317/04 og C-318/04. Dómurinn ógildir ákvarðanir Evrópustofnana sem varða miðlun farþegaupplýsinga til Bandaríkjanna

30. maí sl. kvað Evrópudómstóllinn upp dóm í málum nr. C-317/04 og C-318/04. Dómurinn ógildir:

1. Ákvörðun ráðs Evrópubandalagsins um gerð samnings við Bandaríkin um vinnslu og miðlun upplýsinga um flugfarþega frá flugfélögum til tolla- og landamæraeftirlits Bandaríkjanna og ráðuneytis innanríkisöryggismála (ákvörðun nr. 2004/496/EB.)

2. Ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins um fullnægjandi vernd persónuupplýsinga í færslum í bókunarkerfum flugfélaga um einstaka flugfarþega sem miðlað er til tolla- og landamæraeftirlitsins (ákvörðun nr. 2004/535/EB.)

Framkvæmdastjórnin byggði ákvörðun nr. 2004/535/EB á 25. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga. Réttaráhrif slíkrar ákvörðunar eru þau að þriðja land telst tryggja nægilega vernd persónuupplýsinga í skilningi tilskipunarinnar og þarf þá ekki að uppfylla eitthvert þeirra skilyrða sem talin eru í 26. gr. sömu tilskipunar til þess að miðlunin teljist heimil.

Evrópudómstóllinn taldi hins vegar að umrædd miðlun farþegaupplýsinga til bandarískra stjórnvalda félli utan gildissviðs þeirrar tilskipunar, en samkvæmt 2. mgr. 3. gr. hennar tekur hún ekki til starfsemi sem fellur utan gildissviðs EB, s.s. starfsemi sem kveðið er á um í V. og VI. bálki sáttmálans um Evrópusambandið, og alls ekki til vinnslu sem varðar almannaöryggi, landvarnir, öryggi ríkisins og starfsemi ríkisins á sviði refsilaga. Ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar var því ekki talin byggja á fullnægjandi lagastoð.

Þá var ekki talið unnt að byggja ákvörðun ráðsins nr. 2004/496/EB á 95. gr.EB-samningsins. Sú ákvörðun var því líka ógild.

Með tilliti til þess að í samningi EB við bandarísk stjórnvöld er 90 daga uppsagnarfrestur haldast réttaráhrif ákvörðunar 2004/535/EB til 30. september nk.





Var efnið hjálplegt? Nei