Fréttir

Leikföng sem tengjast Netinu brjóta gegn réttindum barna

20.12.2016

Norska neytendastofnunin (n. Forbrukerrådet) tók nýverið til skoðunar notendaskilmála og tæknilega eiginleika tiltekinna leikfanga sem öll eiga það sameiginlegt að tengjast Netinu (e. Internet-connected toys). Niðurstaða stofnunarinnar var sú að leikföngin uppfylltu ekki evrópskar kröfur um neytendavernd, öryggi og persónuvernd.

Vinsældir gagnvirkra og eftir atvikum nettengdra leikfanga hafa aukist hratt undanfarið og vill Persónuvernd af því tilefni vekja athygli á því að huga þarf að öryggi og persónuvernd við kaup og notkun á slíkum leikföngum. Norska neytendastofnunin (n. Forbrukerrådet) tók nýverið til skoðunar notendaskilmála og tæknilega eiginleika tiltekinna leikfanga sem öll eiga það sameiginlegt að tengjast Netinu (e. Internet-connected toys). Um er að ræða gagnvirku dúkkuna „My Friend Cayla“ og „i-Que“-vélmennið sem framleidd eru af bandaríska fyrirtækinu Genesis Toys. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að leikföngin uppfylltu ekki evrópskar kröfur um neytendavernd, öryggi og persónuvernd.

Fyrrnefnd leikföng notast við innbyggða hljóðnema og raddgreiningartækni til þess að eiga samskipti við börn. Samskipti barna við leikföngin geta innihaldið viðkvæmar upplýsingar sem barn upplýsir leikföngin um í trúnaði.

(Mynd: Forbrukerrådet)

Niðurstaða könnunarinnar var eftirfarandi:

1.       Öryggi ekki fullnægjandi

Óprúttnir aðilar geta auðveldlega náð stjórn á leikföngunum með aðstoð snjallsíma. Slíkt gerir það að verkum að hægt er að hlusta á og eiga í samskiptum við börnin sem leika sér með leikföngin.  

2.       Ólöglegir notendaskilmálar

Áður en leikföngin eru notuð þarf að samþykkja notendaskilmála þar sem m.a. kemur fram að skilmálunum geti verið breytt án tilkynningar til notenda auk þess sem framleiðandi leikfanganna áskilur sér rétt til að deila persónuupplýsingum barna með ótilgreindum þriðju aðilum, sem í kjölfarið geta unnið persónuupplýsingar um börn í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. 

3.       Leyndarmálum barna er deilt með þriðju aðilum

Allar upplýsingar sem barn gefur leikföngunum eru fluttar til bandaríska fyrirtækisins Nuance Communications sem sérhæfir sig í raddgreiningartækni. Fyrirtækið áskilur sér rétt til að deila upplýsingunum með öðrum þriðju aðilum og til að vinna upplýsingar um raddir og tal barnanna (e. speech data) í annars konar ófyrirséðum tilgangi.

4.       Leyndri markaðssetningu er beint að börnum

Persónuupplýsingar eru unnar í þágu auglýsingastarfsemi án samþykkis. Sem dæmi má nefna að markaðssetningarefni hefur verið forritað í leikföngin svo þau auglýsi aðrar vörur. Til dæmis segir dúkkan Cayla frá því hvað hún hefur gaman af tilteknum teiknimyndum sem framleiddar eru af Disney. Á sama tíma á fyrirtæki sem hannar smáforrit fyrir leikföngin í viðskiptasambandi við Disney. 


Að mati norsku neytendastofnunarinnar virða framleiðendur leikfanganna sjálfra, hugbúnaðar eða smáforrita sem tengjast þeim, dreifingaraðilar og aðrir sem koma að umræddum leikföngum ekki friðhelgi evrópskra neytenda.

Börn eru einstaklinga viðkvæmur markhópur og eiga rétt á leikföngum sem ekki stefna öryggi þeirra og friðhelgi í hættu.  Sú staðreynd að umræddar vörur eru sérstaklega hannaðar fyrir börn eykur á ólögmæti  viðskiptahátta umræddra fyrirtækja að mati stofnunarinnar.

Loks má nefna að evrópska neytendastofnunin BEUC hefur vakið athygli viðeigandi stjórnvalda í aðildarríkjum EES, þ.e. Belgíu, Írlandi, Hollandi og Frakklandi, á niðurstöðum norsku neytendastofnunarinnar.

Hér er unnt að nálgast niðurstöður könnunar norsku neytendastofnunarinnar í heild sinni

Uppfært 21.12.2016:

EPIC - Electronic Privacy Information Center er opinber rannsóknarstofnun í Bandaríkjunum sem hefur það hlutverk að vekja athygli almennings, dómstóla, löggjafans og annarra hagsmunaaðila á málefnum er varða mannréttindi, vernd friðhelgi einkalífs, persónuvernd, tjáningarfrelsi og önnur lýðræðisleg gildi á upplýsingaöld. EPIC hefur, í samvinnu við önnur hagsmunasamtök, hvatt stærstu smásöluaðila í Bandaríkjunum til að stöðva sölu á dúkkunni "My friend Cayla" . Samtökin sendu bréf þess efnis til Amazon, Walmart, Toys'R'us og Target verslunarrisanna. Þá kemur fram á vefsíðu EPIC að leikfangaverslanir í Evrópu hafi þegar tekið dúkkuna úr sölu og endurgreitt foreldrum sem höfðu keypt hana fyrir börn sín.

Fyrr í mánuðinum sendu samtökin einnig Alríkisviðskiptastofnun Bandaríkjanna (e. Federal Trade Commission) kvörtun vegna leikfanga sem njósna um börn. Kvörtunin beindist að framleiðanda leiktækjanna, Genesis Toys, og fyrirtækinu Nuance Communications sem sérhæfir sig í raddgreiningartækni vegna þeirra. 

Frétt EPIC og nánari upplýsingar um kvörtun samtakanna til Alríkisviðskiptastofnunarinnar má finna hér.Var efnið hjálplegt? Nei