Fréttir

Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um aðgang vinnuveitanda að persónulegum samskiptum starfsmanna

26.1.2016

Með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, dags. 12. janúar 2016, í máli Bãrbulescu gegn Rúmeníu (mál nr. 61496/08) komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að vinnuveitanda væri í afmörkuðum tilfellum heimilt að skoða persónuleg samskipti starfsmanns sem fóru fram í gegnum forritið Yahoo messenger. Persónuvernd bendir á að varast ber að draga of afdráttarlausar ályktanir af þessum dómi, enda voru í gildi mjög skýrar reglur á þessum vinnustað um hvernig mætti nota þau vinnutæki sem vinnuveitandinn bauð uppá.
Með dómi Mannréttindadómstóls Evrópu, dags. 12. janúar 2016, í máli Bãrbulescu gegn Rúmeníu (mál nr. 61496/08) komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að vinnuveitanda væri í afmörkuðum tilfellum heimilt að skoða persónuleg samskipti starfsmanns sem fóru fram í gegnum forritið Yahoo messenger. Í dómnum kom fram að skipti þar engu máli hvort um væri að ræða tölvupósta eða önnur samskiptaforrit. Persónuvernd bendir á að varast ber að draga of afdráttarlausar ályktanir af þessum dómi, enda voru í gildi mjög skýrar reglur á þessum vinnustað um hvernig mætti nota þau vinnutæki sem vinnuveitandinn bauð uppá. Sérstaklega var tekið fram í dóminum að umrætt forrit var sett upp í vinnutilgangi og einungis var heimilt að nota það sem slíkt. Þessar reglur voru starfsmönnum kunnar. Það þótti því skipta miklu máli að vinnuveitandinn skoðaði samskipti sem einungis áttu að innihalda vinnutengd málefni, auk þess sem viðkomandi starfsmaður hafði neitað því að hafa notað það í einkatilgangi.

 

Almennt hefur verið talið að vinnuveitendum sé óheimilt að skoða persónuleg samskipti starfsmanna eins og fram kemur i reglum nr. 837/2006 um rafræna vöktun. Að gefnu tilefni vill Persónuvernd benda á 9. gr. reglnanna, þar sem fram kemur að vinnuveitendum er almennt óheimilt að skoða samskipti starfsmanna sinna nema þegar brýn nauðsyn ber til, svo sem vegna tölvuveiru eða sambærilegs tæknilegs atviks. Þar segir jafnframt að tilvikabundin skoðun vinnuveitanda á tölvupósti starfsmanns er óheimil nema uppfyllt séu ákvæði 7., 8., og eftir atvikum, 9. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, s.s. ef grunur er uppi um brot starfsmanns gegn trúnaðar- eða vinnuskyldum.


Var efnið hjálplegt? Nei