Fréttir

Að gefnu tilefni - myndbirtingar úr eftirlitsmyndavélum

1.8.2014

Það sem af er ári hefur Persónuvernd nokkrum sinnum orðið þess vör að myndir úr eftirlitsmyndavélum hafi verið birtar opinberlega, t.d. í fjölmiðlum. Í mörgum tilvikum er tilgangurinn sá að reyna að hafa uppi á sökudólgum þegar grunur leikur á um að refsivert athæfi hafi átt sér stað á vöktuðu svæði. Af þessu tilefni vill Persónuvernd árétta þær reglur sem gilda um slíka birtingu.

Það sem af er ári hefur Persónuvernd nokkrum sinnum orðið þess vör að myndir úr eftirlitsmyndavélum hafi verið birtar opinberlega, t.d. í fjölmiðlum. Í mörgum tilvikum er tilgangurinn sá að reyna að hafa uppi á sökudólgum þegar grunur leikur á um að refsivert athæfi hafi átt sér stað á vöktuðu svæði. Af þessu tilefni vill Persónuvernd árétta þær reglur sem gilda um slíka birtingu.

Í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga er fjallað um hvenær miðla má efni sem safnast við rafræna vöktun og hefur að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar, s.s. um meinta refsiverða háttsemi, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laganna. Nánar tiltekið segir í 2. mgr. 9. gr. að söfnun slíkra upplýsinga sé heimil að eftirfarandi skilyrðum fullnægðum:

1.    að vöktunin sé nauðsynleg og fari fram í öryggis- og eignavörsluskyni;

2.    að það efni sem til verður við vöktunina verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar; heimilt sé þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað en þá skuli þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu; og

3.    að því efni sem safnast við vöktunina verði eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það, nema sérstök heimild Persónuverndar standi til frekari varðveislu.

 

Persónuvernd áréttar að samkvæmt framangreindu á ekki að afhenda öðrum en lögreglu myndefni úr eftirlitsmyndavél sem sýnir meinta, refsiverða háttsemi, en hún metur hvort ástæða sé til að birta upptökuna í þágu rannsóknar máls. Þá skal vakin athygli á bókun um fund Persónuverndar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hinn 18. janúar 2011 þar sem fjallað var um birtingu vöktunarefnis, en í bókuninni stendur meðal annars:

„Formaður stjórnar [Persónuverndar] reifaði málið og ræddi hvort þörf væri fyrir sérstakan vettvang innan lögreglu til að taka við myndefni úr eftirlitsmyndavélum.

Stefán Eiríksson, lögreglustjóri, taldi svo ekki vera. Hann kvað nú þegar vera tekið við slíku efni með skilvirkum hætti.

Við öllu væri greiðlega tekið og menn gætu snúið sér til næstu lögreglustöðvar. Hann fór yfir feril þjófnaðarmála og annarra brota hjá lögreglu. Í miklum meirihluta tilvika væri það svo að annað hvort sá lögreglumaður sem væri með málið eða aðrir lögreglumenn þekktu þann sem er á upptökunni. Því tæki afgreiðsla slíkra mála yfirleitt skamman tíma. Þá hefði lögregla birt upptökur úr öryggismyndavélum þar sem ekki hefði tekist að finna grunaða einstaklinga. Hins vegar væri slíkt ekki gert nema í alvarlegum málum og almannahagsmunir krefðust þess. Þá hafi lögreglan einnig í einu tilviki nýtt sér nýstofnaða fésbókarsíðu til að finna grunaða. Þess hafi þá verið gætt að taka efni út af síðunni um leið og hinn eftirlýsti var fundinn. Stefán benti einnig á að í sumum tilvikum hafi myndbirting eiganda verslunar tafið fyrir lausn máls, þar sem viðkomandi afbrotamenn hafi farið í felur eftir að upptakan hafi verið birt. Stefán kvaðst líta svo á að innan verslunargeirans þyrfti, í meira mæli en nú er, að mega miðla þjófamyndum. Hann benti á þá leið að heimila öryggisfyrirtækjum miðlun sín á milli og kvaðst myndu benda hlutaðeigandi á leiðir til að lögleiða slíka framkvæmd.

Niðurstaðan var sú að samstaða væri um hvernig haga bæri málum.“



Var efnið hjálplegt? Nei