Fréttir

Leiðbeiningar Persónuverndar vegna Brexit

31.1.2020

Bretland mun ganga úr Evrópusambandinu (ESB) í dag (31. janúar 2020) á grundvelli útgöngusamnings við ESB, en þann 28. janúar sl. var jafnframt undirritaður samningur vegna útgöngu Bretlands úr Evrópska efnahagssvæðinu.

Samningur Bretlands við Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES leysir úr viðeigandi útgönguskilmálum með sambærilegum hætti og gert er í útgöngusamningi Bretlands og ESB, en þar er greitt úr ýmsum tæknilegum úrlausnarefnum vegna útgöngu Bretlands úr EES, m.a. á sviði persónuverndar.

Samningurinn kveður á um svokallaðan aðlögunartíma sem gildir til ársloka 2020 og gera má ráð fyrir að réttindi og skyldur ábyrgðaraðila vegna vinnslu persónuupplýsinga verði óbreyttar á meðan á því tímabili stendur. Heimilt er því að flytja persónuupplýsingar til og frá Bretlandi og þurfa ábyrgðar- eða vinnsluaðilar ekki að aðhafast sérstaklega vegna útgöngunnar.

Af hálfu utanríkisráðuneytisins hefur komið fram að Ísland muni hefja samningaviðræður við Bretland um framtíðarsamband ríkjanna fljótlega eftir útgöngu og samhliða viðræðum Bretlands og ESB.

Frétt utanríkisráðuneytisins vegna útgöngu Bretlands úr Evrópska efnahagssvæðinu.

Frétt utanríkisráðuneytisins vegna framtíðarsambands Íslands og Bretlands.

Frétt ICO, systurstofnun Persónuverndar í Bretlandi um útgönguna.Var efnið hjálplegt? Nei