Fréttir

Fyrsta niðurstaða EFTA-dómstólsins um túlkun persónuverndarreglugerðarinnar

6.1.2021

EFTA-dómstóllinn komst nýlega að niðurstöðu þar sem reyndi í fyrsta skipti á túlkun ákvæða persónuverndarreglugerðarinnar.

Þann 10. desember síðastliðinn veitti EFTA-dómstóllinn ráðgefandi álit á túlkun reglugerðar (ESB) 2016/679 (persónuverndarreglugerðarinnar). Þetta er í fyrsta skipti sem reglugerðin kemur til kasta dómstólsins frá gildistöku hennar árið 2018.

Málið barst dómstólnum frá áfrýjunarnefnd persónuverndarstofnunarinnar í Liechtenstein. Spurningarnar sem lagðar voru fyrir dómstólinn voru tvenns konar. Annars vegar sneru þær að því hvort heimilt væri að veita kvartanda nafnleynd gagnvart þeim sem kvartað var yfir og hins vegar að kostnaði einstaklinga við áfrýjun á niðurstöðu stofnunarinnar.

Í niðurstöðu dómsins segir meðal annars að meginreglan sé sú að sá sem kvartað er yfir eigi rétt á að fá upplýsingar um þann sem ber fram kvörtunina. Fram kemur þó að á þeirri meginreglu séu tilteknar undantekningar, svo sem ef kvörtunin varðar stóran, óskilgreindan hóp einstaklinga, en jafnframt að frávik frá meginreglunni megi ekki verða þess valdandi að skerða rétt ábyrgðaraðila til réttlátrar málsmeðferðar. Þá segir einnig í niðurstöðu dómsins að þar sem ábyrgðaraðili hafi áfrýjað niðurstöðu persónuverndarstofnunarinnar þá sé einstaklingurinn sjálfkrafa aðili málsins og þ.a.l. sé ekki heimilt að láta hann standa undir kostnaði við rekstur málsins. Var efnið hjálplegt? Nei