Fréttir

EDPB og EDPS kalla eftir banni við notkun gervigreindar við ákveðnar aðstæður

6.7.2021

Evrópska persónuverndarráðið (EDPB) og Evrópska persónuverndarstofnunin (EDPS) samþykktu á síðasta fundi sínum sameiginlegt álit um tillögur framkvæmdastjórnar ESB að nýrri reglugerð sem hefur það markmið að samræma reglur um gervigreind. 

Í álitinu er því fagnað að taka eigi til skoðunar notkun gervigreindarforrita á Evrópska efnahagssvæðinu. Á sama tíma lýsa báðir aðilar yfir áhyggjum að alþjóðleg samvinna á sviði löggæslu fellur ekki innan gildissviðs tillögunnar. Þá er lögð áhersla á að taka þurfi sérstaklega fram að öll vinnsla persónuupplýsinga með notkun gervigreindar falli undir persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins. 

Með vísan til þeirrar miklu áhættu sem felst í notkun lífkennaupplýsinga úr fjarlægð (e. remote biometric authentication) á svæðum sem aðgengileg eru almenningi kalla bæði EDPB og EDPS eftir almennu banni á notkun slíkrar tækni við þessar aðstæður. 

Í álitinu er sérstaklega kallað eftir banni á notkun andlits- og fingrafaragreiningartækni, tækni sem getur greint göngulag og rödd einstaklings eða áslátt á lyklaborð og aðra tækni sem getur greint einstaklingsbundna þætti úr fjarlægð/í almannarými. Þá er kallað eftir banni á notkun gervigreindar sem noti lífkenni til að flokka einstaklinga í hópa, eftir uppruna, kyni, kynhegðun eða stjórnmálaskoðunum. Jafnframt er kallað eftir banni á notkun gervigreindar til að draga ályktanir um tilfinningar nema við mjög sérstakar aðstæður og banni við notkun gervigreindar við félagslega einkunnagjöf (e. social scoring).

Sameiginlegt álit EDPB og EDPS



Var efnið hjálplegt? Nei