Fréttir

Bréf Persónuverndar til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis vegna rangfærslna í skýrslu um eignarhald útgerðarfélaga

3.9.2021

Hinn 1. september 2021 sendi Persónuvernd bréf til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis í tilefni framlagningar skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins. Í skýrslunni voru ýmsar rangfærslur sem Persónuvernd taldi ástæðu til að leiðrétta, meðal annars um efni ákvörðunar stofnunarinnar, dags. 15. júní 2021, um birtingu upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga á vef Skattsins.

Bréf Persónuverndar má sjá hér að neðan.

Efni: Athugasemdir við umfjöllun um ákvörðun Persónuverndar, dags. 15. júní 2021, í skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins

Persónuvernd vísar til skýrslu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um eignarhald 20 stærstu útgerðarfélaga landsins í íslensku atvinnulífi, samkvæmt beiðni, þingskjal 1895 í 423. máli á 151. löggjafarþingi. 

Persónuvernd gerir alvarlegar athugasemdir við efni svars við spurningu 4 sem finna má á bls. 26 í skýrslunni og telur tilefni til að leiðrétta eftirfarandi rangfærslur sem þar er að finna.

Í upphafi svarsins segir að óheimilt sé að vinna með viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nema til staðar sé heimild í lögum. Persónuvernd áréttar að fjárhagsupplýsingar, þ.m.t. upplýsingar um hlutafjáreign, teljast ekki til viðkvæmra persónuupplýsinga í skilningi 3. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2018, heldur til almennra persónuupplýsinga.

Þá segir að með úrskurði Persónuverndar, dags. 15. júní 2021, hafi ársreikningaskrá verið gert að afmá hluthafalista sem fylgt hafa ársreikningum og samstæðureikningum úr þeim reikningum sem skráin varðveitir og veitir aðgang að. Þetta er rangt. Hið rétta er að með ákvörðun Persónuverndar var lagt fyrir ríkisskattstjóra að „láta af birtingu upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga [...] á opinberum vef embættisins.“ Embættinu var því ekki gert að afmá umrædda lista úr skrám sem það varðveitir heldur einungis að stöðva birtingu upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga úr umræddum skrám á opinberum vef embættisins. Fyrirmælin náðu ekki til upplýsinga um hlutafjáreign fyrirtækja og annarra lögaðila enda njóta þær ekki verndar ákvæða laga nr. 90/2018. 

Í svarinu segir að í áliti Persónuverndar hafi verið lögð áhersla á að skýra lagaheimild þurfi til vinnslu persónuupplýsinga sem byggi á því að hún sé nauðsynleg vegna lagaskyldu sem hvílir á ábyrgðaraðila eða vegna verks sem er nauðsynlegt í þágu almannahagsmuna. Hér hafi ekki haft þýðingu að skýrt sé kveðið á um það í ársreikningalögum að hluthafalistar skuli fylgja með innsendum ársreikningum. Persónuvernd bendir á að kjarna úrlausnarefnis ákvörðunar stofnunarinnar má í raun finna í síðastnefndri setningu. Hluthafalistar skulu fylgja með innsendum ársreikningum en samkvæmt 4. mgr. 109. gr. laga nr. 3/2006, um ársreikninga, skal birta skilaskyld gögn samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar á opinberum vef ríkisskattstjóra. Taldi Persónuvernd hlutaðeigandi ákvæði laganna ekki nægilega skýr um það hvort hluthafalistar teldust hluti af skýrslu stjórnar, og þar með hluti ársreiknings, eða hvort listarnir teldust fylgiskjöl með ársreikningi. Skilaskyld gögn samkvæmt framangreindu eru ársreikningur félags, áritun endurskoðanda eða skoðunarmanna og upplýsingar um hvenær ársreikningur var samþykktur. Hvergi er þar vikið að fylgiskjölum með ársreikningi.

Loks segir að á grundvelli framangreinds hafi Skatturinn talið að ekki væri heimilt að birta í skýrslunni upplýsingar um raunverulega eigendur fyrirtækja. Í þessu samhengi áréttar Persónuvernd að fyrrnefnd ákvörðun stofnunarinnar laut að birtingu upplýsinga um alla hluthafa á opinberum vef ríkisskattstjóra á grundvelli laga nr. 3/2006, um ársreikninga, en ekki upplýsinga um raunverulega eigendur samkvæmt lögum nr. 82/2019, um skráningu raunverulegra eigenda, eða miðlun slíkra upplýsinga til ráðuneytisins. Aukinheldur er ljóst að skilgreining laga nr. 140/2018, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, á hugtakinu raunverulegur eigandi nær ekki til allra hluthafa félaga, auk þess sem aðrir en hluthafar geta fallið undir skilgreininguna. Tilvísun til ákvörðunar Persónuverndar í fyrrnefndri skýrslu í tengslum við upplýsingar um raunverulega eigendur er því röng.
Persónuvernd bendir á að ákvörðun stofnunarinnar er aðgengileg á vef hennar, www.personuvernd.is ásamt útdrætti úr henni þar sem aðalatriði ákvörðunarinnar eru tekin saman. Afrit ákvörðunarinnar er einnig hjálagt. 


F.h. Persónuverndar,


Helga Þórisdóttir                                    Vigdís Eva Líndal



Afrit:
Skatturinn – ríkisskattstjóri, Laugavegi 166, 105 Reykjavík.
Hjálagt:
Afrit ákvörðunar Persónuverndar, dags. 15. júní 2021, í máli nr. 2021030547.



Var efnið hjálplegt? Nei