Fréttir

Birting upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga á vef RSK ekki talin samrýmast persónuverndarlögum

18.6.2021

Persónuvernd hefur tekið ákvörðun um lögmæti birtingar heildarhluthafalista félaga sem falla undir lög um ársreikninga á opnum vef ríkisskattstjóra. Óskaði ríkisskattstjóri eftir áliti Persónuverndar á því hvort birting þeirra styddist við fullnægjandi vinnsluheimild í skilningi persónuverndarlaga að því marki sem um birtingu persónuupplýsinga væri að ræða. Persónuvernd komst að þeirri niðurstöðu að 4. mgr. 109. gr. laga um ársreikninga væri ekki nægilega skýrt orðuð til að fela í sér fullnægjandi lagastoð fyrir vinnslunni og að birting upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga samrýmist þannig ekki persónuverndarlögum. Þá er tekið fram í ákvörðuninni að hafi ætlunin verið að aðgengi yrði veitt að upplýsingum um alla hluthafa félaga á grundvelli ákvæðisins, sem tók gildi 1. janúar 2021, hefði löggjafanum verið í lófa lagið að orða það með þeim hætti að engum vafa yrði undirorpið að slík upplýsingamiðlun rúmaðist innan orðalags ákvæðisins. Var lagt fyrir ríkisskattstjóra að láta af birtingu upplýsinga um hlutafjáreign einstaklinga á opinberum vef embættisins innan mánaðar frá dagsetningu ákvörðunarinnar.

Ákvörðun Persónuverndar má sjá hér.Var efnið hjálplegt? Nei