Fréttir

Bann lagt á TikTok á Ítalíu

3.2.2021

Persónuvernd á Ítalíu hefur stöðvað tímabundið vinnslu tiltekinna persónuupplýsinga hjá samfélagsmiðlinum TikTok.

Systurstofnun Persónuverndar á Ítalíu hefur lagt tímabundið bann á vinnslu persónuupplýsinga hjá samfélagsmiðlinum TikTok. Bannið tekur til vinnslu persónuupplýsinga um notendur þar sem ekki er búið að sannreyna upplýsingar um aldur viðkomandi. Gripið var til þessara ráðstafana í kjölfar andláts 10 ára stúlku frá Palermo, en talið er að andlát hennar megi rekja til notkunar hennar á samfélagsmiðlinum.

Persónuverndarstofnunin hafði þegar í desember 2020 vakið athygli TikTok mögulegum brotum gegn persónuverndarlögum, þ. á m. varðandi skort á vernd barna, s.s. hversu auðvelt væri að komast hjá ráðstöfunum fyrirtækis til að sannreyna aldur notenda, ógagnsærri og óljósri fræðslu til notenda og að sjálfgefnar friðhelgisstillingar samrýmdust ekki persónuverndarlögum.

Ákvörðun persónuverndarstofnunarinnar gildir til 15. febrúar næstkomandi, en þá verður á ný tekin ákvörðun hvort nauðsynlegt sé að framlengja bannið.

Frekari upplýsinga um ákvörðunina má nálgast á vefsíðu Persónuverndar á Ítalíu.



Var efnið hjálplegt? Nei