Fréttir

Árétting vegna ummæla af hálfu Fangelsismálastofnunar

17.9.2020

Að gefnu tilefni vill Persónuvernd taka eftirfarandi fram:

Í viðtali við sviðsstjóra meðferðarsviðs Fangelsismálastofnunar í útvarpsþættinum Speglinum á RÚV hinn 11. september sl. kom fram af hálfu stofnunarinnar að samkvæmt persónuverndarlögum mætti ekki hafa eftirlit með því í hverja fangar hringdu.

Vinnsla persónuupplýsinga í því skyni að fullnægja refsiviðurlögum fellur ekki undir löggjöf setta til innleiðingar á hinni almennu persónuverndarreglugerð ESB. Þess í stað fer um hana eftir lögum á grundvelli tilskipunar frá ESB um vinnslu persónuupplýsinga í löggæslutilgangi og til að framfylgja refsiviðurlögum.

Umrædd lög, nr. 75/2019, fela í sér almennan lagaramma um það hvernig vinna má með persónuupplýsingar í þágu framangreinds. Þau hvorki heimila né banna sérstaklega tilteknar eftirlitsaðgerðir í fangelsum heldur fer um um þær samkvæmt lögum nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Þau lög hafa að geyma ákvæði sem veita fangelsisyfirvöldum eftirlitsheimildir sem skerða réttinn til friðhelgi einkalífs. Hefur löggjafinn talið þessar skerðingar falla undir svigrúmið til skerðinga á þeim rétti sem stjórnarskráin og mannréttindasáttmáli Evrópu veita.

Á meðal umræddra skerðinga er að viðhafa má tiltekið eftirlit með símtölum fanga en auk þess má loka fyrir hringingar fanga í ákveðin símanúmer. Kemur þetta fram í 49. gr. laganna en það ákvæði mælir fyrir um svigrúmið til umrædds eftirlits óháð lögum nr. 75/2019.Var efnið hjálplegt? Nei