Fréttir

Alþjóðlegi persónuverndardagurinn haldinn hátíðlegur

Alþjóðlegi persónuverndardagurinn er haldinn í 13. skiptið þann 28. janúar 2019.

28.1.2019

Alþjóðlegi persónuverndardagurinn er haldinn í 13. skipti mánudaginn 28. janúar 2019. Á þessum degi standa persónuverndarstofnanir víða um heim fyrir kynningu og vitundarvakningu um málefni persónuverndar, í samstarfi við Evrópuráðið í Strasbourg.

Af þessu tilefni var grein eftir forstjóra Persónuverndar birt í Fréttablaðinu og á Vísi Greinin ber yfirskriftina Vernd persónuupplýsinga - breytt heimsmynd.

Þá var önnur grein eftir forstjóra Persónuverndar birt í Morgunblaðinu um liðna helgi, en efni hennar má nálgast hér að neðan.

Að lokum er vakin athygli á því að Persónuvernd verður með bás á sýningarsvæði UT-messunnar sem haldin verður í Hörpunni 8. og 9. febrúar næstkomandi. Sýningarsvæðið er opið almenningi laugardaginn 9. febrúar og eru áhugasamir hvattir til þess að líta við og ræða við sérfræðinga Persónuverndar um allt sem tengist persónuvernd. 

Er vernd persónuupplýsinga að breyta heiminum?

- Birt í Morgunblaðinu laugardaginn 26. janúar 2019 -

Alþjóðlegi persónuverndardagurinn verður haldinn hátíðlegur í 13. skipti mánudaginn 28. janúar næstkomandi. Við þetta tækifæri hafa persónuverndarstofnanir í ríkjum Evrópu, og raunar víðar, staðið fyrir kynningu og vitundarvakningu um málefni persónuverndar.

Fyrsti alþjóðlegi samningurinn á sviði persónuverndar var Evrópuráðssamningur um vernd einstaklinga vegna vélrænnar vinnslu persónuupplýsinga frá 28. janúar 1981. Þrátt fyrir að meginreglur samningsins hafi haldið vel gildi sínu í gegnum árin og samningurinn hafi verið tæknilega hlutlaus þótti rétt að uppfæra hann og nútímavæða, í því skyni að mæta nýjum áskorunum sem fylgja upplýsingasamfélagi nútímans. Ný og uppfærð útgáfa af samningnum var því fullunnin á árinu 2018 og er nú í fullgildingarferli, en samningurinn var undirritaður fyrir Íslands hönd þann 21. nóvember síðastliðinn. Nútímavæðing samnings Evrópuráðsins helst þannig að nokkru leyti í hendur við þær breytingar sem orðið hafa á persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins en ný íslensk persónuverndarlög, byggð á þeirri löggjöf, tóku gildi um mitt síðasta ár.

Hvernig eru persónuupplýsingar í raun unnar? Hvað er hér undir?

Persónuupplýsingar eru nær undantekningalaust skráðar inn í rafræn kerfi og í slíku umhverfi myndast nær óteljandi möguleikar á aukinni dreifingu, miðlun og vinnslu slíkra upplýsinga. Staðreyndin er sú að nær allt sem við gerum á Netinu er kortlagt. Úr þessum upplýsingum er unnið – oft gegn okkar eigin hagsmunum. Flestar tækninýjungar undanfarinna ára hafa snertiflöt við persónuvernd, þar sem hægt er að rekja notkun þeirra niður á hvern einstakling. Gervigreind stýrir því t.d. hvaða upplýsingar fólk sér á samfélagsmiðlum, hvaða auglýsingar fólk sér á Netinu, hvaða vörur Amazon leggur til að fólk kaupi og hvaða efni Netflix telur að henti tilteknum notanda. Erlendis er gervigreind notuð í þjónustu við viðskiptavini, t.d. bjóða bankar víða upp á netspjall við „ráðgjafa“ – sem er í raun tölva. Svo eru það Siri, Alexa og sambærilegir „aðstoðarmenn“ sem hægt er að ræða við – og ófá eru leyndarmálin sem slíkir aðstoðarmenn fá að heyra í netspjalli á síðkvöldum – og fólk áttar sig ekki á því að það deilir hér jafnvel mjög viðkvæmum persónuupplýsingum með bandarískum vélmennum sem skrá allt í gagnabanka!

Við þá umfangsmiklu samfélagsmiðlanotkun sem á sér stað á heimsvísu, og ekki síst á Íslandi, bætist sú tækni sem tengist Interneti allra hluta. Hér er um að ræða sítengd snjalltæki sem ryðja sér til rúms í hverjum geira samfélagsins á fætur öðrum og kortleggja enn frekar athafnir okkar, hvort sem það felst í snjallborgum, fjarheilbrigðisþjónustu, fjarmenntun, snjallúrum eða nettengdum leikföngum sem nema samtölin í svefnherbergjunum. Margar tækninýjungar eru af hinu góða, en við þurfum að halda vöku okkar svo að tæknin vinni ekki gegn mannlegri reisn. Mörg þessara nettengdu tækja eru t.d. nær ekkert varin fyrir aðgangi annarra og heimilið okkar er þannig orðið undir, ef við t.d. fjarstýrum því, og hugum ekki að örygginu og verjum tækin fyrir aðgangi óviðkomandi, t.d. með því að breyta lykilorðum.

Hvaða þýðingu hafa ný persónuverndarlög fyrir daglegt líf okkar?

Mikilvægt er að hafa í huga að með nýrri löggjöf skapast fjölmörg áhugaverð tækifæri, t.d. við hönnun nýrra kerfa sem þjóna betur þörfum einstaklinga og fyrirtækja til persónuverndar. Þá er rétt meðferð persónuupplýsinga til þess fallin að auka traust neytenda og annarra í garð fyrirtækja og stofnana. Fyrirtæki sem axla ábyrgð og leggja metnað sinn í að tryggja öryggi og vernd persónuupplýsinga geta þannig bætt samkeppnisstöðu sína og orðspor. Sama á við um opinbera aðila. Ný löggjöf á umfram allt að styrkja réttarvernd allra einstaklinga því hér er um að ræða raunveruleg réttindi sem hægt er sækja. Útgangspunkur nýrrar löggjafar er að standa vörð um ein mikilvægustu réttindin sem við eigum sem manneskjur – persónuréttindin okkar og persónuupplýsingarnar – það sem gerir okkur að því sem við erum. Ný persónuverndarlöggjöf er hér kynnt sem bjargvættur – og sem tækifæri til betri vinnslu persónuupplýsinga á heimsvísu.



Var efnið hjálplegt? Nei