Fréttir

14. fundur Evrópska persónuverndarráðsins í Brussel 8.-9. október 2019

10.10.2019

Dagana 8. og 9. október 2019 fór fram 14. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) en hann sitja fulltrúar allra persónuverndarstofnana innan EES og evrópska persónuverndarstofnunarinnar (EDPS). 

Á fundinum voru að venju fjölmörg atriði til umræðu en þau helstu voru:

Leiðbeiningar um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við þjónustu sem veitt er yfir Netið á grundvelli samnings (b-liður 1. mgr. 6. gr. pvrg.)

EDPB samþykkti endanlega útgáfu leiðbeininga um gildissvið og beitingu b-liðar 1. mgr. 6. gr. persónuverndarreglugerðarinnar hvað varðar þjónustu sem veitt er yfir Netið (í upplýsingasamfélaginu). Helstu breytingar frá þeim drögum sem fóru í samráðsferli lutu að því að skýra betur efni leiðbeininganna. Í leiðbeiningunum er að finna almennar athugasemdir varðandi meginreglur persónuverndarreglugerðarinnar og samspil b-liðar 1. mgr. 6. gr. pvrg. við aðrar heimildir til vinnslu. Þessu til viðbótar er þar að finna leiðbeiningar til ábyrgðaraðila varðandi beitingu ákvæðisins þegar mismunandi þjónustuleiðum er blandað saman (bundling of seperate services) og hvernig haga beri uppsögn samnings.

Álit á bindandi fyrirtækjareglum Equinix

EDPB samþykkti álit á drögum að ákvörðun bresku persónuverndarstofnunarinnar (ICO) hvað varðar bindandi fyrirtækjareglur Equinix. Í álitinu kemur fram að EDPB sé þeirrar skoðunar að reglurnar innihaldi alla þá þætti sem krafist er samkvæmt 47. gr. persónuverndarreglugerðarinnar og vinnuskjali WP256 rev01, ásamt því að innihalda viðeigandi verndarráðstafanir.

Upplýsingar um flugfarþega (PNR)

EDPB samþykkti svarbréf til Evrópuþingmannsins Sophie In't Veld um ný drög að samningi ESB og Kanada um miðlun upplýsinga um flugfarþega og áhrif hans á aðra sambærilega samninga. Í svarinu kemur fram að EDBP hafi ekki fengið að sjá umrædd drög, en sé reiðubúið að veita álit um leið og þau koma til ráðsins. Í bréfinu er einnig vísað til bréfs 29. gr. vinnuhópsins (forvera EDPB) sem sent var framkvæmdastjórninni í kjölfar álits Evrópudómstólsins um fyrstu drög að samningnum við Kanada.

Svar til vinnuhóps ráðsins um alþjóðlegan staðal um lyfjaeftirlit í íþróttum (WADA)

EDPB samþykkti svarbréf til vinnuhópsins í tengslum við endurskoðun staðalsins. Í bréfinu vísar ráðið til tveggja álita 29. gr. vinnuhópsins um fyrri útgáfur staðalsins. Þá er bent á að framför hafi orðið hvað varðar verndarráðstafanir í tengslum við friðhelgi einkalífs og persónuvernd, en nokkur atriði séu áfram áhyggjuefni.

Þau skjöl sem samþykkt voru á fundinum verða gerð aðgengileg á vefsíðu ráðsins um leið og lokið hefur verið við prófarkalestur. 



Var efnið hjálplegt? Nei