Erlent samstarf

Vernd rafrænna heilsufarsupplýsinga verði tryggð

15.7.2022

Evrópska persónuverndarráðið (EDPB) og Evrópska persónuverndarstofnunin (EDPS) hafa samþykkt sameiginlegt álit sitt um tillögu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um Evrópskt umhverfi heilbrigðisupplýsinga (e. European Health Data Space). Tillagan miðar að því auðvelda stofnun evrópsks heilbrigðissambands og gera ESB kleift að nýta til fulls þá möguleika sem felast í öruggum skiptum, notkun og endurnotkun á heilsufarsupplýsingum.

Bæði EDPB og EDPS fagna hugmyndinni um að efla yfirráð einstaklinga yfir sínum eigin heilsufarsupplýsingum. Hins vegar er athygli löggjafans vakin á þó nokkrum álitafefnum og hvetur bæði EDPB og EDPS löggjafann til að grípa til aðgerða hvað það varðar. Í því sambandi er bent á að að IV. kafli tillögunnar, sem miðar að því að auðvelda endurnotkun rafrænna heilbrigðisupplýsinga, geti skapað ávinning í þágu almannaheilla. EDPB og EDPS telja á sama tíma að sú fyrirséða endurnotkun persónuupplýsinga sé ekki með öllu áhættulaus fyrir réttindi og frelsi einstaklinga.

Þó að EDPB og EDPS viðurkenni viðleitni framkvæmdarstjórnarinnar til þess að tryggja samræmi á milli tillögunnar við persónuverndarreglugerðina, þegar persónuupplýsingar eiga í hlut, taka þau fram að þessi tillaga muni bæta enn einu lagi við hið flókna safn ákvæða um vinnslu heilsufarsupplýsinga sem nú þegar er til. Þannig er í álitinu lögð áhersla á að skýra þurfi frekar samband tillögunnar við persónuverndarreglugerðina og landslög.

EDPB og EDPS telja einnig að innviðir fyrir skipti á rafrænum heilsufarsupplýsingum sem kveðið er á um í tillögunni, miði að því að auðvelda skipti á heilsufarsupplýsingum á milli landa. Hins vegar, vegna mikils magns rafrænna heilsufarsupplýsinga sem yrði unnið með, viðkvæms eðlis þeirra, hættu á ólöglegum aðgangi að þeim, og nauðsyn þess að tryggja að fullu skilvirt eftirlit óháðra persónuverndaryfirvalda, skora EDPB og EDPS á Evrópuþingið og ráðið að bæta við tillöguna kröfu um að rafrænar heilsufarsupplýsingar verði varðveittar innan EES, með fyrirvara um frekari flutning í samræmi við V. kafla persónuverndarreglugerðarinnar.

Hvað varðar endurnotkun heilbrigðisupplýsinga eru EDPB og EDPS á þeirri skoðun að tillöguna skorti nánari afmörkun á tilgangi á að vinna frekar með heilsufarsupplýsingar. Til að ná því jafnvægi sem stefnt er að með tillögunni og vernd persónuupplýsinga þeirra einstaklinga sem vinnslan nær til, ætti löggjafinn að afmarka þennan tilgang nánar og afmarka hvenær næg tengsl eru við almannahagsmuni á sviði lýðheilsu og almannaöryggi.

Varðandi það stjórnunarlíkan sem tillagan gerir ráð fyrir telja EDPB og EDPS að aðlaga þurfi verkefni og valdsvið hinna nýju stofnana vandlega, sérstaklega að teknu tilliti til verkefna og valdsviðs innlendra persónuverndarstofnana, EDPB og EDPS, þegar kemur að vinnslu heilsufarsupplýsinga.

EDPB og EDPS undirstrika loks að persónuverndarstofnanirnar eru einu lögbæru yfirvöldin sem bera ábyrgð á persónuverndarmálum og ættu að vera eini tengiliðurinn fyrir einstaklinga þegar mál varðar vinnslu persónuupplýsinga. Skörun á valdssviði stofnana verði að forðast og skilyrði fyrir samstarfi séu skilgreind með skýrum hætti. 



Var efnið hjálplegt? Nei