Fundur EDPB 14. júní 2022
66. fundur Evrópska persónuverndarráðsins
(EDPB) var haldinn 14. júní sl. Helstu
atriði sem voru rædd og samþykkt á fundinum voru:
Leiðbeiningar um vottun sem tæki til flutnings persónuupplýsinga úr landi
Megintilgangur þessara leiðbeininga er að veita frekari skýringar á hagnýtri notkun þessarar leiðar til að flytja persónuupplýsingar með öruggum hætti til óöruggra þriðju ríkja.
Leiðbeiningarnar eru í fjórum hlutum sem hver um sig fjallar um tiltekna þætti varðandi vottun sem tæki til flutnings, svo sem tilgang, umfang og mismunandi aðila sem koma að flutningnum; innleiðingu leiðbeininga um faggildingakröfur til vottunaraðila; sérstök viðmið fyrir vottun í þeim tilgangi að sýna fram á tilvist viðeigandi öryggisráðstafana fyrir flutning; og þær bindandi og framfylgjanlegu skuldbindingar sem koma skulu til framkvæmda. Leiðbeiningarnar styðja við almennar leiðbeiningar EDPB nr. 1/2018 um vottun.
Ákvörðun EDPB á grundvelli 65. gr. persónuverndarreglugerðarinnar varðandi Accor
Með ákvörðun EDPB er leitast við að bregðast við skorti á samstöðu um ákveðna þætti í drögum að ákvörðun frönsku persónuverndarstofnunarinnar (CNIL) sem forystustjórnvalds varðandi Accor SA, fyrirtæki innan hótelgeirans en aðalstarfsstöðvar þess eru í Frakklandi, og andmælum sem hlutaðeigandi eftirlitsstjórnvöld höfðu sett fram gagnvart drögunum.
Forsaga málsins er sú að CNIL gaf út drög að ákvörðun varðandi Accor SA, um að réttur til að andmæla móttöku markaðssetningarskilaboða sem bárust með pósti hefði ekki verið virtur. Þá laut ákvörðunin einnig að vandkvæðum við að nýta rétt til aðgangs að persónuupplýsingum. Eftir að drögunum hafði verið deilt með hlutaðeigandi stjórnvöldum innan EES bárust ein andmæli, meðal annars varðandi fjárhæð sektarinnar.
Forystustjórnvaldið og hið hlutaðeigandi stjórnvald náðu ekki samstöðu varðandi eitt af andmælunum. Af þeirri ástæðu vísaði forystustjórnvaldið því málinu til EDPB til þóknanlegrar meðferðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 65. gr. persónuverndarreglugerðarinnar.
Ákvörðun EDPB var samþykkt á fundinum en í henni er fjallað um efnisþátt þess hluta andmælanna sem talin voru viðeigandi og rökstudd, eins og þau eru skilgreind í 24. lið 4. gr. persónuverndarreglugerðarinnar.
Ákvörðun EDPB verður birt á vef ráðsins þegar ákvörðunin hefur verið þýdd og kynnt öllum aðilum málsins.