Erlent samstarf

Facebook sektað um 265 milljónir evra vegna ólögmætrar upplýsingasöfnunar (e. data scraping)

30.11.2022

Írska persónuverndarstofnunin (DPC) tilkynnti í vikunni um niðurstöður rannsóknar á Meta Platforms Ireland Limited (MPIL), ábyrgðaraðila samfélagsmiðilsins Facebook vegna upplýsingasöfnunar um einstaklinga á miðlinum (e. data scraping). Lagði stofnunin 265 milljóna evra sekt á fyrirtækið auk þess sem gefin voru fyrirmæli um ýmsar ráðstafanir til úrbóta.

DPC hóf rannsókn málsins þann 14. apríl 2021, í kjölfar fréttaflutnings um að safn persónuupplýsinga sem teknar voru af Facebook hefði verið aðgengilegt á Internetinu. Rannsókn DPC varðaði athugun og mat á Facebook Search, Facebook Messenger Contact Importer og Instagram Contact Importer í tengslum við vinnslu sem framkvæmd var af Meta Platforms Ireland Limited („MPIL“) á tímabilinu 25. maí 2018 til september 2019. Náði athugunin einna helst til þess hvort farið væri að ákvæðum persónuverndarlöggjafarinnar um innbyggða og sjálfgefna persónuvernd.

Rannsókn málsins var umfangsmikil og fól jafnframt í sér samstarf við aðrar persónuverndarstofnanir innan EES.

Í ákvörðuninni, sem var samþykkt föstudaginn 25. nóvember 2022, er komist að þeirri niðurstöðu að fyrirtækið hafi gerst brotlegt við 1. mgr. og 2. mgr. 25. gr. persónuverndarreglugerðarinnar með því að huga ekki nægilega að ráðstöfunum sem tryggja innbyggða og sjálfgefna persónuvernd. Þá var fyrirtækinu jafnframt veitt áminning og lagt fyrir fyrirtækið að grípa til margvíslegra úrbóta innan ákveðinna tímamarka, auk álagningar stjórnvaldssektar upp á 265 milljónir evra.

Tengill á frétt DPC



Var efnið hjálplegt? Nei