Erlent samstarf

EDPB samþykkir álit á drögum að jafngildisákvörðun fyrir Bandaríkin

1.3.2023

Á fundi sínum þann 28. febrúar sl. samþykkti Evrópska persónuverndarráðið (e. EDPB) álit á drögum framkvæmdarstjórnar ESB að jafngildisákvörðun vegna flutnings persónuupplýsinga til Bandaríkjanna. Byggja drögin á samkomulagi ESB og Bandaríkjanna um persónuvernd (e. EU-U.S. Data Privacy Framework (DPF) en það tekur einvörðungu til bandarískra aðila sem hafa sjálfir vottað um að hlíta samkomulaginu. Er jafngildisákvörðuninni ætlað að koma í stað eldra fyrirkomulags, Friðhelgisskjaldarins (e. Privacy Shield), sem var ógilt var með dómi Evrópudómstólsins frá 16. júlí 2020 í máli nr. C-311/18 (Schrems II).

Í áliti sínu fagnar EDPB úrbótum á bandarískri löggjöf sem fjallað er um í ákvörðunardrögunum. Breytingarnar miða meðal annars að því að meginreglur um nauðsyn og meðalhóf verði virtar í tengslum við söfnun bandarískra leyniþjónustustofnanna á persónuupplýsingum um skráða einstaklinga innan EES. Jafnframt hefur tilteknum réttarúrræðum verið komið á fót þar í landi sem ætluð eru skráðum einstaklingum.

Á hinn bóginn bendir EDPB jafnframt á tiltekna áhættuþætti í tengslum við flutning persónuupplýsinga til Bandaríkjanna, þrátt fyrir fyrrgreindar úrbætur á bandarískri löggjöf. Snúa áhyggjurnar einkum að því að enn sé hætta á að viss réttindi skráðra einstaklinga verði fyrir borð borin, að persónuupplýsingum verði miðlað frekar (e. onward transfers), að umfangi lögbundinna undanþága og að fram fari tímabundin en umfangsmikil söfnun persónuupplýsinga. Jafnframt telur EDPB nauðsynlegt að framkvæmdarstjórnin viðhafi virkt eftirlit með því kerfi sem komið er á fót með samkomulaginu. Loks telur EDPB rétt að samþykki og gildistaka jafngildisákvörðunar verði gerð háð því að allar leyniþjónustustofnanir Bandaríkjanna uppfæri í reynd verklag sitt til samræmis við löggjöfina og að framkvæmdastjórnin gangi úr skugga um það.

Tengill á fréttatilkynningu EDPB um málið



Var efnið hjálplegt? Nei