Erlent samstarf

Fundur EDPB 28. júlí 2022

29.8.2022

68. fundur Evrópska persónuverndarráðsins (EDPB) var haldinn 28. júlí. Helstu atriði sem voru rædd og samþykkt á fundinum voru:

Tillaga að reglugerð um baráttu gegn kynferðisofbeldi gegn börnum á Netinu felur í sér mikla áhættu fyrir grundvallarréttindi.

EDPB og EDPS hafa samþykkt sameiginlegt álit um tillögu að reglugerð til að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegu ofbeldi gegn börnum. Miðar tillagan að því að skylda hýsingaraðila, hugbúnaðarþjónustur og netþjónustur til að tilkynna, fjarlægja og loka á áður þekkt sem og nýtt efni sem felur í sér kynferðisofbeldi gegn börnum.

EDPB og EDPS telja kynferðisofbeldi sem beinist að börnum sé sérstaklega alvarlegur og svívirðilegur glæpur en tillagan í núverandi mynd geti falið í sér meiri áhættu fyrir einstaklinga en fyrir glæpamenn sem sóttir eru til saka vegna kynferðisofbeldis gegn börnum. EDPS og EDPB styðja markmið og þær fyrirætlanir sem liggja að baki tillögunni en lýsa yfir áhyggjum af fyrirhuguðum ráðstöfunum á friðhelgi einkalífs og persónuupplýsingum einstaklinga. Skortur á skýrleika og nákvæmni hvað varðar þau skilyrði sem þurfa að vera til staðar þegar ákvörðun um eftirlit með kynferðisofbeldi er tekin, feli í sér að ekki er tryggt að eftirlitið nái tilgangi sínum í raun. Hætta sé á að reglugerðin leggi grundvöll að almennu eftirliti á efni í nánast öllum fjarskiptum. EDPB og EDPS ráðleggja því að skilyrðin verði skýrð frekar fyrir samþykkt reglugerðarinnar. Þá telja bæði EDPB og EDPS að skoða þurfi vandlega notkun tækni, svo sem gervigreindar til að fylgjast með samskiptum notenda, enda sé slík tækni líkleg til að skapa villur sem og að ganga mjög nærri friðhelgi einkalífs einstaklinga. Í álitinu þeirra er áréttað að dulkóðun upplýsinga stuðli að virðingu fyrir einkalífi og trúnaði um samskipti, tjáningarfrelsi, nýsköpun og vöxt stafræns hagkerfis. Einnig gera EDPB og EDPS athugasemd við náið samstarf nýrrar stofnunar ESB um þessi mál og Europol, löggæslustofnunar ESB. Samstarf stofnana tveggja myndi samkvæmt tillögunni fela í sér fullan aðgang að upplýsingakerfum sem innihaldi persónuupplýsingar í þeim tilgangi að berjast gegn kynferðisofbeldi gegn börnum. Í stað þess að veita beinan aðgang að gögnum, mæla EDPB og EDPS með því að aðgangur að persónuupplýsingum sé skoðaður í hverju tilviki fyrir sig.

Svör EDPB við bréfum við Access Now og Evrópusamtökum neytenda varðandi fyrirhugaðar skilmálabreytingar hjá TikTok.

EDPB bárust erindi frá annars vegar Access Now og Evrópusamtökum neytena (BEUC) varðandi fyrirhugaðar skilmálabreytingar Tiktok hvað varðar heimild fyrirtækisins til að vinna með persónuupplýsingar notenda sinna í þeim tilgangi að beina að þeim persónusniðnum auglýsingum. Fyrirhuguð breyting fól í sér að fyrirtækið hugðist hætta að styðjast við samþykki notenda og byggja þess í stað á lögmætum hagsmunum fyrirtækisins og samstarfsaðilum þess.

Í svari EDPB er bent á skjót viðbrögð írskra, ítalskra og spænskra persónueftirlitsstofnana í kjölfar tilkynningar frá TikTok um framangreinda breytingu á skilmálum sínum. Vegna þessara aðgerða tilkynnti TikTok að hlé yrði gert á breytingunni.

Ákvörðun um lausn í deilumáli á grundvelli 65. gr. persónuverndarreglugerðarinnar

Loks samþykkti EDPB ákvörðun um lausn í deilumáli á grundvelli 65. gr. persónuverndarreglugerðarinnar. Með ákvörðuninni er leitast við að bregðast við skorti á samstöðu um ákveðna þætti í drögum sem gefin voru út af írsku persónuverndarstofnunni (DPC) sem forystustjórnvalds gagvart Instagram (Meta Platforms Ireland Limited (Meta IE)) og andmæli sem önnur eftirlitsyfirvöld höfðu uppi. DPC gaf út drög að ákvörðun í kjölfar frumkvæðisathugunar sinnar á vinnslustarfsemi Meta IE. Snýr ákvörðunin að því hvort vinnsla Meta IE á persónuupplýsingum barna uppfylli tiltekin ákvæði persónuverndarlöggjafarinnar hvað varðar á Instagram. Varðar ákvörðunin einkum opinbera birtingu á netföngum og símanúmerum barna sem nota viðskiptareikningseiginleika Instagram sem og það að sjálfgefin stilling fyrir persónuupplýsingar sé „opið“ á persónulegum reikningum barna hjá forritinu á því tímabili sem var til skoðunar. DPC deildi drögum að ákvörðun sinni með öðrum persónuverndarstofnunum þann 3. desember 2021 eins og persónuverndarreglugerðin gerir ráð fyrir. Í kjölfarið settu nokkrar stofnanir fram andmæli sín, meðal annars hvað varðar niðurstöðu DPC varðandi heimild til vinnslu og ákvörðun sektar. Ekki náðist samstaða um sum andmælin og vísaði DPC því til EDPB til úrskurðar. EDPB samþykkti ákvörðun sína gagnvart írsku stofnuninni á fundinum nú í júlí en ákvörðunin verður ekki birt fyrr en endanleg ákvörðun írsku stofnunarinnar hefur verið birt Meta.Var efnið hjálplegt? Nei