Reglur nr. 36/2005 um skráningu einstaklinga, sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi og notkun slíkrar skrár (bannskrá Þjóðskrár)

1. gr.

Hagstofa Íslands, þjóðskrá skal halda skrá yfir nöfn þeirra manna sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Skrá þessi er nefnd „bannskrá“ í reglum þessum.

2. gr.

Með andmælum við markaðssetningarstarfsemi er átt við að menn óski eftir því að nöfn þeirra verði felld niður við notkun hvers kyns skráa, sem beitt kann að vera í markaðssetningarskyni.

Með markaðssetningarstarfsemi er átt við útsendingu dreifibréfa, happdrættismiða, gíróseðla, auglýsinga og kynningarefnis, símhringingar, útsendingu tölvupósts eða hliðstæðar aðferðir, sem varða kaup eða leigu á vöru eða þjónustu eða þátttöku í tiltekinni starfsemi, hvort sem hún er viðskiptalegs eðlis eða varðar tómstundir, afþreyingu, námskeið eða sambærilegt atferli.

3. gr.

Þeir sem vilja skrá nöfn sín á bannskrá Hagstofunnar skulu snúa sér til þjóðskrár með slíka ósk. Þjóðskrá skal verða við beiðni manna um skráningu á bannskrá fyrir þá sjálfa og ólögráða börn þeirra svo og um skráningu annarra heimilismanna hafi þeir lagt fram skriflega ósk þar að lútandi eða veitt umboð til þess.

4. gr.

Þeim sem stunda markaðssetningarstarfsemi er skylt að beita bannskrá við starfsemi sína samkvæmt 2. mgr. 2. gr. þessara reglna.

5. gr.

Bannskrá er hluti af rafrænu gagnasafni þjóðskrár.

Bannskrár má afla hjá þeim fyrirtækjum (miðlurum) sem miðla þjóðskrárupplýsingum samkvæmt samningi við Hagstofu Íslands, þjóðskrá. Miðlarar þjóðskrár mega veita aðgang að bannskrá gegn gjaldi sem hér segir:

a. með afhendingu sjálfstæðrar skrár með nöfnum, kennitölum og heimilisföngum,

b. með afhendingu grunnskrár þjóðskrár eða

c. með samkeyrslu bannskrár við fyrirhugaðar útsendingarskrár.

6. gr.

Í samningum sem Hagstofa Íslands, þjóðskrá, gerir við fyrirtæki um afnot af nafnaskrá þjóðskrár til vinnslu úrtaksgagna og til póstdreifingar skal kveðið skýrt á um skyldur varðandi meðferð nafna á bannskrá sem hér segir:

a. Skylt er að fella niður við áritanir og útskriftir öll nöfn sem eru á bannskrá og eru sérstaklega merkt í nafnaskránni. Jafnframt er skylt að verða tafarlaust við öllum beiðnum um að nöfn séu afmáð af útsendingarskrám.

b. Rita skal á áberandi stað á umslög, dreifibréf, happdrættismiða, gíróseðla eða annan póst, sem dreift verður samkvæmt skránni, að þessum pósti sé dreift eftir skrá í vörslu hlutaðeigandi og að þeir sem kynnu að óska eftir því að losna undan slíkum sendingum framvegis, geti tilkynnt þjóðskrá þá ósk sína og fengið nöfn sín skráð á bannskrá.

c. Skylt er að uppfæra nafnaskrána eigi sjaldnar en einu sinni í mánuði.

7. gr.

Reglur þessar eru settar samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nr. 77 23. maí 2000, sbr. 8. gr. laga nr. 90/2001.

8. gr.

Reglur þessar öðlast þegar gildi.

Reykjavík, 5. janúar 2005.

Davíð Oddsson.

Hallgrímur Snorrason.



Var efnið hjálplegt? Nei