Allar spurningar og svör

Vefkökur

Vefkaka er lítil textaskrá, sem er vistuð á tölvu, eða í öðru snjalltæki þegar notandi heimsækir vefsíðu í fyrsta sinn. Þegar notast er við vefkökur á vefsvæði þarf að fræða notendur síðunnar um að vinnsla persónuupplýsinga fari fram um þá með notkun vefkaka og í hvaða tilgangi.

Hvað er vefkaka (e. cookie)?

Vefkaka er lítil textaskrá, sem er vistuð á tölvu, eða í öðru snjalltæki þegar notandi heimsækir vefsíðu í fyrsta sinn.

Hvenær er notkun vefkaka heimil og hvenær þarf sú notkun samþykki?

Þegar notast er við vefkökur á vefsvæði þarf að fræða notendur síðunnar um að vinnsla persónuupplýsinga fari fram um þá með notkun vefkaka og í hvaða tilgangi, t.d. til að vinna tölfræði, til að greina umferð um vefsíðu, eða við markaðssetningu.

Notandinn þarf að veita upplýst samþykki fyrir notkun tiltekinna vefkaka, en í sumum tilvikum getur vinnslan byggst á lögmætum hagsmunum fyrirtækisins.

Þegar vinnsla byggist á samþykki þarf einstaklingur að framkvæma athöfn af sinni hálfu, aðgerðarleysi nægir ekki. Slík athöfn getur t.d. falið í sér að einstaklingurinn haki við þar til gerðan reit. Einnig þarf að vísa í nánari upplýsingar um notkun vefkaka, t.d. með tilvísun í persónuverndarstefnu vefsíðunnar.

Gera þarf grein fyrir hvers konar vefkökur vefsíðan notar:

  • Nauðsynlegar vefkökur, sem eru ekki háðar samþykki: Vefkökur sem að gera notendum kleift að ferðast um vefsíðuna og eru nauðsynlegar fyrir virkni hennar.
  • Vefkökur frá fyrsta aðila, sem þarfnast mögulega samþykkis: Vefkökur sem að tilheyra eiganda vefsíðunnar og eru notaðar til að auðvelda notkun vefsíðunnar. Til dæmis fyrirfram útfylla form, eða muna hvaða vörur voru settar í körfu. Það hvort afla þurfi samþykkis ræðst af tilgangi vinnslunnar hverju sinni. Önnur heimild sem getur komið til skoðunar eru lögmætir hagsmunir eiganda vefsíðunnar, sem ganga framar hagsmunum einstaklingsins. Ábyrgðaraðili síðunnar þarf að meta hverju sinni út frá tilgangi vinnslunnar hvort byggt skuli á samþykki eða lögmætum hagsmunum.
  • Vefkökur frá þriðja aðila, sem háðar eru samþykki: Vefkökur sem tilheyra þriðju aðilum (t.d. Facebook eða Google). Notandi hefur ekki stjórn á því hvernig þessir aðilar nota sínar vefkökur, en flestir vafrar bjóða upp á þann möguleika að loka á vefkökur frá þriðja aðila, en samþykkja vefkökur frá fyrsta aðila.

Hér má finna leiðbeiningar (á ensku) um hvernig notandi getur stillt notkun á vefkökum eða slökkt á notkun þeirra í hinum ýmsu vöfrum.


Fáni EvrópusambandsinsVinnsla þessara spurninga og svara var styrkt af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Spurningarnar og svörin eru unnin af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á þeim. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem svörin hafa að geyma.


Var efnið hjálplegt? Nei