Allar spurningar og svör

Flutningsréttur

Flutningsréttur á við þegar einstaklingur hefur sjálfur afhent ábyrgðaraðila (þeim sem vinnur með upplýsingarnar) persónuupplýsingar um sig á rafrænu formi, nánar tiltekið á skipulegu, algengu, tölvulesanlegu sniði. Í réttinum felst að ábyrgðaraðila ber að verða við ósk einstaklingsins um að fá persónuupplýsingarnar í hendur. Þá felst í réttinum að einstaklingurinn á að geta sent öðrum ábyrgðaraðila upplýsingarnar án þess að fyrri ábyrgðaraðilinn hindri það.

Hvað er flutningsréttur og hvenær ber mér að flytja gögn?

Flutningsréttur á við þegar einstaklingur hefur sjálfur afhent ábyrgðaraðila persónuupplýsingar um sig á rafrænu formi, nánar tiltekið á skipulegu, algengu, tölvulesanlegu sniði. Í réttinum felst að ábyrgðaraðila ber að verða við ósk einstaklingsins um að fá persónuupplýsingarnar í hendur. Þá felst í réttinum að einstaklingurinn á að geta sent upplýsingarnar öðrum ábyrgðaraðila án þess að fyrri ábyrgðaraðilinn hindri það, en slíkt gæti til dæmis átt við þegar upplýsingar hafa verið skráðar í prófil einstaklings á samfélagsmiðli og hann vill flytja þær til annars slíks miðils. Eftirfarandi eru skilyrði þess að rétturinn eigi við: 

  • Vinnsla upplýsinganna byggist á samþykki hins skráða einstaklings eða samningi.
  • Vinnslan sé sjálfvirk.
  • Flutningur upplýsinganna sé tæknilega framkvæmanlegur.

Það að neyta réttarins til flutnings eigin gagna hefur ekki áhrif á réttinn til eyðingar (réttinn til að gleymast). Sá réttur skal ekki gilda um vinnslu sem er nauðsynleg vegna verkefnis sem unnið er í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðili fer með.

Rétturinn til að flytja eigin gögn skal ekki skerða réttindi og frelsi annarra. 

Hvaða gögn er átt við?

Stundum er auðvelt að rekja hvaða upplýsingar hinn skráði hefur veitt ábyrgðaraðilanum, t.d. nafn, tölvupóstfang, notandanafn o.fl. Hins vegar er rétturinn ekki einskorðaður við þær upplýsingar. Hann nær einnig til persónuupplýsinga sem fylgja notkun einstaklingsins, s.s. þegar tæki eða þjónusta er notuð. Nánar tiltekið er þá átt við hráar, óunnar upplýsingar sem stafa frá hinum skráða sjálfum, s.s.: 

  • Vefnotkunar- og leitarsögu.
  • Staðsetningar- og ferðagögn.
  • Upplýsingar um hinn skráða sem skrást við notkun stafræns búnaðar sem hinn skráði ber á sér (s.s. heilsuúrs), t.d. um hjartslátt.

Flutningsrétturinn tekur hins vegar ekki til afleiddra gagna sem ábyrgðaraðilinn gæti hafa útbúið á grundvelli þeirra upplýsinga sem stafa frá einstaklingnum sjálfum, en sem dæmi um slík afleidd gögn má til dæmis nefna skýrslur um lánshæfi sem skylt er að gera á grundvelli löggjafar um neytendalán og áhættumat sem áskilið er í löggjöf um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Hafa ber í huga að ef umrædd, afleidd gögn hafa að geyma persónuupplýsingar falla þær undir reglur um aðgangsrétt viðkomandi einstaklings ef hann leggur inn beiðni um aðgang.

 


Fáni EvrópusambandsinsVinnsla þessara spurninga og svara var styrkt af Evrópusambandinu - The European Union's Rights, Equality and Citizenship Programme (2014-2020)

Spurningarnar og svörin eru unnin af Persónuvernd sem ber fulla ábyrgð á þeim. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ber enga ábyrgð á notkun þeirra upplýsinga sem svörin hafa að geyma.


Var efnið hjálplegt? Nei