Allar spurningar og svör

Vanskilaskrá og lánshæfismat

Hverjir mega halda slíkar skrár og eftir hvaða reglum er unnið? 

Má halda vanskilaskrá vegna gjaldfallinna krafna einstaklinga?

Fjárhagsupplýsingastofum með starfsleyfi frá Persónuvernd er heimilt að halda slíka skrá, samkvæmt íslenskum lögum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í dag hefur eitt fyrirtæki á Íslandi slíkt starfsleyfi, þ.e. Creditinfo Lánstraust hf.

Má fyrirtæki skrá mig á vanskilaskrá?

Til að fyrirtæki megi óska eftir skráningu um kröfu á hendur þér á vanskilaskrá þarf það fyrst að hafa undirritað áskriftarsamning við fjárhagsupplýsingastofu, þ.e. vera áskrifandi að kerfum þess. Þá þurfa að vera til staðar hagsmunir fyrir fyrirtækið sem vega þyngra en þínir hagsmunir eða grundvallarréttindi, t.d. þegar krafa er komin í vanskil og fæst ekki greidd, en í þeim tilvikum geta hagsmunir kröfuhafa vegið þyngra en hagsmunir þínir.

Auk þess þurfa ákveðin skilyrði að vera uppfyllt svo að heimilt sé að óska skráningar um kröfu á hendur þér á vanskilaskrá. Frekari upplýsingar um þau skilyrði er að finna í svari við næstu spurningu.

Í starfsleyfinu er síðan fjallað um ýmis atriði sem eiga að gæta að persónuvernd þinni ef þú ert skráður á vanskilaskrá. Meðal annars um það hvaða upplýsingar um þig má skrá og hvenær, hvenær má senda öðrum upplýsingar um þig og um rétt þinn til að fá fræðslu um skráninguna.

Hvaða persónuupplýsingar má fjárhagsupplýsingastofa skrá á vanskilaskrá og miðla til annarra?

Að uppfylltum vissum skilyrðum er fjárhagsupplýsingastofu heimilt að safna (skrá) og senda upplýsingar um þig frá áskrifendum.

Þau skilyrði eru að skuld þín sé a.m.k. 50.000 kr. að höfuðstóli og fjárhagsupplýsingastofa þarf að hafa fengið skriflegar upplýsingar sem staðfesta tilvist viðkomandi skuldar.

Auk þess þarf a.m.k. eitt viðbótarskilyrði að vera uppfyllt, t.d. að þú hafir viðurkennt fyrir kröfuhafa að krafan sé gjaldfallin eða að þér hafi með dómi, úrskurði eða áritaðri stefnu verið gert að greiða skuldina.

Þá má einnig skrá tilteknar upplýsingar um þig úr opinberum gögnum á vanskilaskrá, m.a. upplýsingar um nauðasamninga, framkvæmd fjárnáms, nauðungarsölu og töku bús til gjaldþrotaskipta.

Hvaða persónuupplýsingar má fjárhagsupplýsingastofa ekki skrá og miðla?

Aldrei má skrá viðkvæmar persónuupplýsingar. Þá má fjárhagsupplýsingastofa ekki miðla upplýsingum um skuld ef henni er kunnugt um að hún sé ekki lengur í vanskilum, svo sem vegna skuldajöfnuðar eða þess að hún hafi verið felld niður, greidd eða henni komið í skil með öðrum hætti.

Ekki má skrá upplýsingar um umdeildar skuldir.

Krafa er umdeild ef þú hefur komið andmælum við skuld á framfæri við kröfuhafa, greint honum frá ástæðu andmælanna og skuldin hefur ekki verið staðfest með aðfararhæfum dómi eða aðfararhæfri ákvörðun sýslumanns sem kunngjörð hefur verið í opinberri auglýsingu.

Hvaða fræðslu á ég rétt á?

Fjárhagsupplýsingastofu ber að fræða þig um að hún hafi fært nafn þitt á skrá sem hún ber ábyrgð á. Fræðsla er almennt send með bréfi frá fjárhagsupplýsingastofu. Slíka fræðslu skal veita þér ekki síðar en fjórum vikum eftir að hún skráir upplýsingar um þig. Þó má hún fresta því þar til 14 dögum áður en hún miðlar upplýsingunum í fyrsta sinn.

Meðal þess sem fjárhagsupplýsingastofu ber að fræða þig um er hver tilgangur vinnslunnar er, hvaða persónuupplýsingar unnið er með, hvaðan upplýsingarnar koma og hverjir verða viðtakendur upplýsinganna. Ef krafan hefur ekki verið staðfest með réttargjörð, sbr. umfjöllun um umdeildar kröfur hér að framan, skal þér bent á rétt til að andmæla kröfunni eða fjárhæð hennar munnlega eða skriflega.

Má fyrirtæki fletta mér upp eða vakta mig á vanskilaskrá?

Fyrirtæki verður að hafa lögmæta hagsmuni af því að fletta þér upp eða vakta þig á vanskilaskrá, svo sem vegna væntanlegra eða yfirstandandi lána- eða reikningsviðskipta.

Ef þú telur að fyrirtæki hafi sett kennitölu þína í vöktun eða flett þér upp án heimildar getur þú leitað til þess eða fjárhagsupplýsingastofu og fengið þar skýringar á vinnslunni. Ef þú ert ósátt/ur við þær skýringar sem þú færð þaðan getur þú sent kvörtun til Persónuverndar.

Hvenær á að eyða upplýsingum um mig af vanskilaskrá?

Þegar kröfu hefur verið komið í skil eða þegar fjögur ár eru liðin frá því að hún var fyrst skráð á vanskilaskrá ber að eyða upplýsingum um hana af skránni.

Þó að upplýsingum sé eytt af vanskilaskrá má fjárhagsupplýsingastofa geyma þær í 3 ár frá afskráningu þeirra í þeim tilgangi að verða við beiðnum frá skráðum einstaklingi um vitneskju um vinnslu persónuupplýsinga um sig og til að leysa úr ágreiningi um réttmæti skráningar.

Fyrri vanskil, þ.e. upplýsingar sem hafa verið afskráðar af vanskilaskrá, geta einnig haft áhrif á lánshæfiseinkunn í þessi 3 ár, þó að hámarki í 4 ár frá skráningu upplýsinganna.

Hvað er lánshæfismat?

Lánshæfismat er skilgreint í lögum sem mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Má fyrirtæki/fjárhagsupplýsingastofa meta lánshæfi mitt?

Lánveitendum getur verið skylt samkvæmt lögum eða útlánareglum fyrirtækja að meta lánshæfi þitt og í þeim tilvikum getur verið nauðsynlegt, svo að hægt sé að framkvæma áreiðanlegt lánshæfismat, að notast við upplýsingar um þig frá fjárhagsupplýsingastofu.

Fjárhagsupplýsingastofa má vinna með fjárhagsupplýsingar um þig innan ramma starfsleyfis, m.a. til að útbúa um þig skýrslu um lánshæfi. Hún hefur þó einungis heimild til þess ef til staðar eru lögmætir hagsmunir sem vega þyngra en grundvallarréttindi og frelsi þitt, svo sem vegna fyrirhugaðra eða yfirstandandi láns- eða reikningsviðskipta. Við slíkar aðstæður er gert að skilyrði að beiðni frá þér liggi fyrir og að vinnslan sé nauðsynleg.

Þá getur þú sjálf/ur óskað eftir því að fjárhagsupplýsingastofa útbúi um þig lánshæfismat, þ.e. án þess að fyrir liggi beiðni frá lánveitanda. Við slíkar aðstæður hefur Persónuvernd talið að samþykki þitt heimili slíka vinnslu en ekki lögmætir hagsmunir fjárhagsupplýsingastofu.

Hversu lengi má nota upplýsingar um fyrri skráningar á vanskilaskrá við gerð lánshæfismats hjá fjárhagsupplýsingastofu?

Við gerð skýrslu um lánshæfismat þitt er fjárhagsupplýsingastofu heimilt að nota afskráðar upplýsingar um þig á vanskilaskrá í 1 ár frá afskráningunni þar til að hámarki 4 ár eru liðin frá því að upplýsingarnar voru skráðar. Jafnframt er gert að skilyrði að ekki sé miðlað neinum upplýsingum um kröfurnar sjálfar heldur eingöngu tölfræðilegum niðurstöðum. 

Hvað á ég að gera ef ég er ósátt/ur við skráningu upplýsinga um mig á vanskilaskrá eða við lánshæfismat mitt hjá fjárhagsupplýsingastofu?

Persónuvernd mælist til þess að þú hafir fyrst samband við fjárhagsupplýsingastofu ef þú hefur athugasemdir við reiknað lánshæfismat þitt þar.

Hafir þú athugasemdir við skráningu upplýsinga um þig á vanskilaskrá er mælst til þess að þú hafir fyrst samband við kröfuhafa eða fjárhagsupplýsingastofu og óskir skýringa á skráningu.

Fáir þú ekki svör, svör eru ófullnægjandi eða að þú telur að svörin séu ófullnægjandi eða að skráningin sé ólögmæt getur þú kvartað til Persónuverndar. 



Var efnið hjálplegt? Nei