Allar spurningar og svör

Vanskilaskrá og lánshæfismat

Hverjir mega halda slíkar skrár og eftir hvaða reglum er unnið? 

Hver má vinna með upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust?

Fjárhagsupplýsingastofum með starfsleyfi frá Persónuvernd er heimilt að vinna upplýsingar um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra, samkvæmt íslenskum lögum, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í dag hefur eitt fyrirtæki á Íslandi slíkt starfsleyfi, þ.e. Creditinfo Lánstraust hf.

Hins vegar er athygli vakin á því að framangreint starfsleyfi Creditinfo Lánstrausts hf. var gefið út í gildistíð reglugerðar nr. 246/2001 um söfnun og miðlun upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, sem nú hefur verið felld úr gildi.

Ný reglugerð um vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust nr. 606/2023 tók gildi 1. september 2023 en í henni er ekki mælt fyrir um sérstök tímamörk við vinnslu upplýsinga um fjárhagsmálefni og lánstraust, með sama hætti og gert var í þeirri eldri.

Það leiðir af almennum reglum um rétthæð réttarheimilda að ákvæði reglugerðar nr. 606/2023 ganga framar ákvæðum starfsleyfis Persónuverndar. Að því leyti sem ósamræmi er milli starfsleyfis og reglugerðar hvað varðar heimildir Creditinfo Lánstrausts hf. til notkunar fjárhagsupplýsinga, gilda ákvæði reglugerðarinnar.

Við túlkun á ákvæðum reglugerðarinnar verður ávallt að horfa til persónuverndarlaga, þ. á m. til meginreglnanna um lögmæta, sanngjarna og gagnsæja vinnslu, skýrt tilgreindan og málefnalegan tilgang og lágmörkun gagna. Fjárhagsupplýsingastofur eru bundnar af ákvæðum reglugerðarinnar, sem og ákvæðum persónuverndarlaga, sem leggja skyldur á herðar þeirra sem ábyrgðaraðila að vinnslu persónuupplýsinga, m.a. um að veita skráðum einstaklingum viðeigandi fræðslu, upplýsinga- og aðgangsrétt, rétt til að fá upplýsingar sínar leiðréttar, þeim eytt og vinnslu þeirra takmarkaða og rétt til að andmæla vinnslu.

Persónuvernd vinnur að nýju starfsleyfi þar sem útfærðar verða þær skyldur sem lagðar eru á Creditinfo Lánstraust hf. með nýrri reglugerð.

Hvaða fyrirtæki má skrá upplýsingar um vanskil mín í vanskilaskrá?

Til að fyrirtæki megi óska eftir skráningu um kröfu á hendur þér í vanskilaskrá þarf það fyrst að hafa gert skriflegan áskriftarsamning við fjárhagsupplýsingastofu, þ.e. vera áskrifandi að kerfum þess. 

Fjárhagsupplýsingastofa á að hafa eftirlit með því að áskrifandi fari að samningi og ef henni verður kunnugt um að áskrifandi hafi brotið gegn skilmálum áskriftarsamnings, ber henni að tilkynna Persónuvernd það án tafar.

Hvenær má skrá upplýsingar um mig í vanskilaskrá?

Að uppfylltum vissum skilyrðum er fyrirtækjum og þar með fjárhagsupplýsingastofu heimilt að skrá upplýsingar um þig í vanskilaskrá. 

Þau skilyrði eru annars vegar ef upplýsingarnar hafa verið löglega birtar eða gerðar aðgengilegar í opinberum gögnum og hins vegar ef upplýsingarnar stafa frá áskrifanda og varða eina eða fleiri kröfur á hendur þér og höfuðstóll þeirra nemur samtals að lágmarki 50.000 krónum og annaðhvort er löginnheimta hafin eða fyrir liggur skrifleg viðurkenning þín á gjaldfallinni skuld.

Hvenær má fjárhagsupplýsingastofa miðla upplýsingum um vanskil mín í vanskilaskrá til fyrirtækis?

Fjárhagsupplýsingastofa má miðla upplýsingum um vanskilaskráningu þína til fyrirtækis (áskrifanda) að því marki sem hún telur það nauðsynlegt vegna tilgangs miðlunarinnar.

Ef þú hefur undirritað samning um greiðsluaðlögun er óheimilt að miðla upplýsingum um þær kröfur sem samningurinn gildir um, ef ekki hefur komið til vanefnda hans.

Þegar upplýsingum er miðlað ber fjárhagsupplýsingastofu að greina frá því hvaðan þær eru fengnar, hver er kröfuhafi og hver grundvöllur kröfunnar er. 

Hvaða persónuupplýsingar má fjárhagsupplýsingastofa ekki skrá og miðla?

Aldrei má skrá viðkvæmar persónuupplýsingar og upplýsingar um refsiverða háttsemi

Þá má fjárhagsupplýsingastofa ekki skrá og miðla upplýsingum um kröfu ef réttmætur vafi leikur á um lögmæti hennar, t.d. ef henni er kunnugt um að krafan sé ekki lengur í vanskilum, svo sem vegna skuldajöfnuðar eða þess að hún hafi verið felld niður, greidd eða henni komið í skil með öðrum hætti.

Óheimilt er að skrá og miðla upplýsingum um kröfu ef skuldari hefur sannanlega andmælt henni gagnvart kröfuhafa nema ef andmæli skuldara eru augljóslega tilefnislaus.

Óheimilt er að miðla upplýsingum um kröfu sem er ekki lengur í vanskilum og þá er óheimilt að miðla upplýsingum um hversu oft þér hafi verið flett upp í skrám fjárhagsupplýsingastofu.

Hvaða fræðslu á ég rétt á að fá áður en ég er skráð/ur á vanskilaskrá?

Ef skilyrði til skráningar kröfu á hendur þér í vanskilaskrá eru uppfyllt, átt þú samt ávallt rétt á að fá fræðslu um hina fyrirhuguðu skráningu áður.

Þegar fjárhagsupplýsingastofa safnar upplýsingum um þig skal hún samtímis og ekki síðar en 14 dögum áður en vanskilaupplýsingunum er miðlað í fyrsta sinn gera þér viðvart og veita þér fræðslu um vinnsluna.

Meðal þess sem fjárhagsupplýsingastofu ber að fræða þig um við þær aðstæður er réttur þinn til að fá nánari upplýsingar um vinnsluna og aðgang að þeim, réttur þinn til að fá upplýsingar þínar leiðréttar, þeim eytt eða vinnslu þeirra takmarkaða. 

Má fyrirtæki fletta mér upp eða vakta mig á vanskilaskrá?

Fyrirtæki verður að hafa heimild fyrir því að fletta þér upp eða vakta þig á vanskilaskrá, svo sem vegna innheimtu, væntanlegra eða yfirstandandi lána- eða reikningsviðskipta.

Fyrirtæki verða að tilgreina og skrá tilgang hverrar uppflettingar um þig í skrám fjárhagsupplýsingastofu og vegna vöktunar kennitölu þinnar.

Fyrirtæki sem vaktar kennitöluna þína á að láta af vöktun hennar þegar ekki er lengur fyrir hendi heimild til vöktunarinnar.

Allar vinnsluaðgerðir, s.s. uppflettingar um þig í skrá fjárhagsupplýsingastofu, eiga að vera rekjanlegar.

Ef þú telur að fyrirtæki hafi sett kennitölu þína í vöktun eða flett þér upp án heimildar getur þú leitað til þess eða fjárhagsupplýsingastofu og fengið þar skýringar á vinnslunni. Ef þú ert ósátt/ur við þær skýringar sem þú færð þaðan getur þú sent kvörtun til Persónuverndar.

Hvenær á að eyða upplýsingum um mig af vanskilaskrá?

Fjárhagsupplýsingastofa á að gæta þess að upplýsingum um þig verði eytt af vanskilaskrá þegar þær eru ekki lengur áreiðanlegar og hafa ekki lengur afgerandi þýðingu við mat á fjárhagsstöðu og lánstrausti þínu.

Þá þarf fjárhagsupplýsingastofa ávallt að tryggja að við alla vinnslu persónuupplýsinga um þig sé gætt að meginreglum persónuverndarlaganna og hún verður að geta sýnt fram á það. Upplýsingum á að eyða ef þær veita ekki sem réttasta mynd af fjárhagsstöðu og lánstrausti þínu og ef ekki er lengur nauðsynlegt að vinna með upplýsingarnar í þágu þess tilgangs.

Hvað er lánshæfismat og skýrsla um lánshæfi?

Lánshæfismat er skilgreint í lögum sem mat lánveitanda á lánshæfi lántaka byggt á upplýsingum sem eru til þess fallnar að veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort lántaki geti efnt lánssamning. Lánshæfismat skal byggt á viðskiptasögu aðila á milli og/eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Fjárhagsupplýsingastofa vinnur svokallaða skýrslu um lánshæfi, þ.e. niðurstöðu útreiknings hennar á líkindum þess hvort aðili mun efna lánssamning. 

Má fyrirtæki/fjárhagsupplýsingastofa meta lánshæfi mitt?

Lánveitendum getur verið skylt samkvæmt lögum eða útlánareglum fyrirtækja að meta lánshæfi þitt og í þeim tilvikum getur verið nauðsynlegt, svo að hægt sé að framkvæma áreiðanlegt lánshæfismat, að notast við upplýsingar um þig frá fjárhagsupplýsingastofu.

Fjárhagsupplýsingastofa má vinna með fjárhagsupplýsingar um þig innan ramma starfsleyfis, m.a. til að útbúa um þig skýrslu um lánshæfi. Hún hefur þó einungis heimild til þess ef til staðar eru lögmætir hagsmunir sem vega þyngra en grundvallarréttindi og frelsi þitt, svo sem vegna fyrirhugaðra eða yfirstandandi láns- eða reikningsviðskipta. Við slíkar aðstæður er gert að skilyrði að beiðni frá þér liggi fyrir og að vinnslan sé nauðsynleg.

Þá getur þú sjálf/ur óskað eftir því að fjárhagsupplýsingastofa útbúi um þig lánshæfismat, þ.e. án þess að fyrir liggi beiðni frá lánveitanda. Við slíkar aðstæður hefur Persónuvernd talið að samþykki þitt heimili slíka vinnslu en ekki lögmætir hagsmunir fjárhagsupplýsingastofu.

Á hverju byggist skýrsla um lánshæfi mitt?

Skýrsla um lánshæfi á að byggjast á áreiðanlegum upplýsingum sem hafa afgerandi þýðingu og veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort þú getur efnt lánssamning.

Við mat á lánshæfi þínu má fjárhagsupplýsingastofa einungis afla og vinna upplýsingar úr opinberum gögnum og skrám sínum, og aðeins að því marki sem nauðsynlegt er til að framkvæma áreiðanlegt mat.

Fjárhagsupplýsingastofa getur líka unnið með aðrar upplýsingar um þig, svo sem um skuldastöðu þína í því skyni að framkvæma áreiðanlegt mat á lánshæfi, en þú þarft að samþykkja það áður. Fjallað er um skilyrði samþykkis samkvæmt persónuverndarlögum hér.

Hversu lengi má nota upplýsingar um fyrri skráningar á vanskilaskrá við gerð lánshæfismats hjá fjárhagsupplýsingastofu?

Í núgildandi starfsleyfi Persónuverndar til handa Creditinfo Lánstrausti hf. kemur fram að við gerð skýrslu um lánshæfi er fjárhagsupplýsingastofu heimilt að nota upplýsingar um söguleg vanskil í 1 ár að hámarki frá því að krafan var afskráð eða ef fjögur ár eru liðin frá því að krafan var skráð. Síðarnefnda tilvikið á við ef krafan er ekki greidd upp.

Þá er í starfsleyfinu gert að skilyrði að ekki sé miðlað neinum upplýsingum um kröfurnar sjálfar heldur eingöngu tölfræðilegum niðurstöðum. Önnur notkun upplýsingana er óheimil. 

Hins vegar var framangreint starfsleyfi gefið út áður en núgildandi reglugerð nr. 606/2023 tók gildi. Í núgildandi reglugerð er ekki mælt fyrir um hámarkstíma á notkun vanskilaupplýsinga við gerð skýrslu um lánshæfi.

Einungis er mælt þar fyrir um að skýrsla um lánshæfi skuli byggjast á áreiðanlegum upplýsingum sem hafa afgerandi þýðingu og veita áreiðanlegar vísbendingar um líkindi þess hvort viðkomandi einstaklingur eða lögaðila getur efnt lánssamning.

Þá kemur þar fram að við mat á lánshæfi einstaklings er fjárhagsupplýsingastofu eingöngu heimilt að afla og vinna upplýsingar úr opinberum gögnum og skrám sínum og aðeins að því marki sem nauðsynlegt er til að framkvæma áreiðanlegt mat.

Persónuvernd vinnur að nýju starfsleyfi þar sem útfærðar verða þær skyldur sem lagðar eru á Creditinfo Lánstraust hf. með nýrri reglugerð.

Hvaða fræðslu á ég rétt á að fá um skýrslu um lánshæfismat mitt?

Áður en fjárhagsupplýsingastofa gerir og miðlar skýrslu um lánshæfismat þitt á hún að greina þér frá því hvaða upplýsingar og breytur verða notaðar við gerð skýrslunnar.

Þegar fyrirtæki aflar upplýsinga um þig, með öflun skýrslu um lánshæfi þitt, á fjárhagsupplýsingastofa samstundis eða eigi síðar en innan mánaðar að gera þér viðvart um hvaða fyrirtæki aflaði upplýsinga um þig og í hvaða tilgangi.

Má ég óska eftir aðgangi að skýrslu um lánshæfismati mínu?

Þér er ávallt heimilt að óska eftir aðgangi að þeim upplýsingum sem unnið er með um þig hjá fjárhagsupplýsingastofu, þ. á m. um lánshæfismat þitt.

Leggir þú fram slíka beiðni á fjárhagsupplýsingastofa að veita þér upplýsingar um vægi einstakra breytna við útreikning á líkindum í skýrslu um lánshæfi þitt og þau rök sem liggja þar að baki.

Hvað á ég að gera ef ég er ósátt/ur við skráningu upplýsinga um mig á vanskilaskrá eða við lánshæfismat mitt hjá fjárhagsupplýsingastofu?

Persónuvernd mælist til þess að þú hafir fyrst samband við fjárhagsupplýsingastofu ef þú hefur athugasemdir við reiknað lánshæfismat þitt þar.

Hafir þú athugasemdir við skráningu upplýsinga um þig á vanskilaskrá er mælst til þess að þú hafir fyrst samband við kröfuhafa eða fjárhagsupplýsingastofu og óskir skýringa á skráningu.

Þú átt rétt á að andmæla vinnslu upplýsinga um þig hjá fjárhagsupplýsingastofu eins og annars staðar. Fallist fjárhagsupplýsingastofa ekki á andmæli þín á hún að greina þér frá því eigi síðar en 14 dögum eftir að andmælin bárust og leiðbeina þér samtímis um rétt þinn til að leita til Persónuverndar.

Fáir þú ekki svör, svör eru ófullnægjandi eða að þú telur að svörin séu ófullnægjandi eða að skráningin sé ólögmæt getur þú kvartað til Persónuverndar. Var efnið hjálplegt? Nei