Allar spurningar og svör

Sjálfvirk einstaklingsmiðuð ákvörðun

Sjálfvirk einstaklingsmiðuð ákvarðanataka er aðeins heimil með þínu samþykki, eða þegar hún forsenda þess að unnt sé að gera eða efna samning eða þegar heimild er fyrir henni samkvæmt lögum.

Þú átt rétt á að sæta ekki sjálfvirkri einstaklingsmiðaðri ákvörðun

Í nútímasamfélagi færist sífellt í aukana að tölvutækni (t.d. algrími) sé notuð þegar ákvarðanir eru teknar um réttindi einstaklinga, t.d. lánshæfismat, greiðslumat, ákvörðun um ráðningu í starf o.fl. Þegar slíkar ákvarðanir eru teknar án nokkurrar mannlegrar aðkomu gilda sérstakar reglur samkvæmt persónuverndarlögum – til að vernda réttindi einstaklinganna.

Í þeim tilvikum þar sem ákvörðun hefur veruleg áhrif á þig (t.d. réttaráhrif, sjálfvirk höfnun lánsumsóknar eða rafrænt ráðningarferli án mannlegrar aðkomu), átt þú rétt á því að ákvörðunin sé ekki tekin eingöngu á grundvelli sjálfvirkrar gagnavinnslu, þ.m.t. gerðar persónusniðs.
Í stuttu máli þýðir sjálfvirk gagnavinnsla að enginn einstaklingur kemur að ákvörðun sem varðar þig og að hún sé tekin út frá gögnum sem unnin eru með sjálfvirkum hætti, án mannlegrar íhlutunar. 

Þú átt einnig rétt á að mat á því hvort ákveðin persónuleg atriði, t.d. spá um frammistöðu í starfi, fjárhagsstöðu þína, heilsu, áreiðanleika o.fl., séu ekki lögð til grundvallar við sjálfvirka ákvarðanatöku. Þessi tegund af vinnslu persónuupplýsinga, sem getur verið grundvöllur sjálfvirkrar ákvörðunartöku, er einnig kölluð persónusnið.

Hvað er persónusnið?

Persónusnið verður til þegar persónuupplýsingar eru unnar á sjálfvirkan hátt til að meta ákveðna þætti er varða hagi einstaklings, einkum að greina eða spá fyrir um þætti er varða frammistöðu hans í starfi, fjárhagsstöðu, heilsu, smekk, áhugamál, áreiðanleika, hegðun, staðsetningu eða hreyfanleika. Upplýsingunum er oft safnað frá mismunandi stöðum og raðað saman í ákveðið mynstur sem eiga að kortleggja einstaklinginn. 

Það þarf að fylgja persónuverndarlögunum við gerð persónusniða og sá sem vinnur með upplýsingarnar á að fræða þig um að hann ætli sér að búa til persónusnið um þig.

Hvenær er sjálfvirk ákvarðanataka leyfð?

Sjálfvirk einstaklingsmiðuð ákvarðanataka er aðeins heimil með þínu samþykki, eða þegar hún forsenda þess að unnt sé að gera eða efna samning eða þegar heimild er fyrir henni samkvæmt lögum.

Sem dæmi um slíkar heimildir í lögum má meðal annars nefna:

 

  • Til að fylgjast með og koma í veg fyrir svindl og skattsvik í samræmi við reglur, staðla og tilmæli opinberra stofnana.
  • Til að tryggja öryggi og áreiðanleika þjónustu sem ábyrgðaraðili veitir.


Þegar ein af þessum þremur undantekningum á við, verða líka viðeigandi ráðstafanir að vera til staðar til að vernda réttindi þín og frelsi. 

Þú átt alltaf rétt á að: 

  • Fá mannlega íhlutun
  • Koma sjónarmiðum þínum á framfæri
  • Fá útskýringu á ákvörðuninni
  • Mótmæla ákvörðuninni



Má nota viðkvæmar persónuupplýsingar til að taka sjálfvirka ákvörðun?

Samkvæmt persónuverndarlögum má eingöngu nota viðkvæmar persónuupplýsingar þegar þú hefur veitt skýrt samþykki fyrir því, þegar hún byggir á fyrirmælum í lögum eða er nauðsynleg vegna almannahagsmuna.



Var efnið hjálplegt? Nei