Allar spurningar og svör

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar gera þér kleift að hafa samskipti við aðra á Netinu. Við notkun þeirra er gott að hafa ávallt í huga þá söfnun persónuupplýsinga sem getur farið fram á slíkum miðlum.

Hvað eru samfélagsmiðlar?

Samfélagsmiðlar eru ýmiss konar vefsíður og forrit sem gerir þér kleift að birta upplýsingar um þig og aðra og eiga samskipti við aðra notendur á Netinu. Facebook, Google, Snapchat, Instagram, LinkedIn og Twitter eru dæmi um samfélagsmiðla. Samskipti notenda á samfélagsmiðlum geta til dæmis falist í því að:

 

  • búa til prófíl, sem getur til dæmis innihaldið upplýsingar um skoðanir þínar, áhugamál og ýmislegt fleira.
  • deila myndum, myndböndum og skrifuðum texta með öðrum.
  • deila tenglum á efni frá öðrum, til dæmis fréttir eða greinar um það sem þér þykir áhugavert.
  • birta athugasemdir við myndir, myndbönd, texta eða tengla frá öðrum, til dæmis frá vinum og kunningjum eða fyrirtækjum.
  • eiga samskipti við smáforrit (öpp) sem stafa frá þriðja aðila, þ.e. einstaklingum eða fyrirtækjum, og veita þeim aðgang að persónuupplýsingum.

 

Hvernig virka einstaklingsmiðaðar auglýsingar á samfélagsmiðlum?

Einstaklingsmiðaðar auglýsingar (e. microtargeting) eru auglýsingar á Netinu sem er sérstaklega beint að tilteknum einstaklingi eða hópi einstaklinga út frá greiningu á persónuupplýsingum þeirra. Auglýsandinn notar þá persónuupplýsingarnar til þess að greina t.d. áhugamál einstaklinganna, skoðanir þeirra og annað sem varðar persónuleika þeirra eða aðstæður. Niðurstöður greiningarinnar eru svo notaðar til þess að beina sérsniðnum auglýsingum að tilteknum einstaklingum, til dæmis í gegnum samfélagsmiðla.

Einstaklingsmiðaðar auglýsingar er hægt að nota til þess að markaðssetja tilteknar vörur eða þjónustu, en einnig í þeim tilgangi að hafa áhrif á skoðanir fólks, til dæmis á stjórnmálum. Sem dæmi má nefna að ef notandi samfélagsmiðils notar miðilinn til að láta í ljós áhuga sinn á tilteknum stjórnmálaflokki kunna einstaklingsmiðaðar auglýsingar tengdar þeim flokki að birtast honum í framhaldinu. Sama getur átt við ef notandinn leitar að upplýsingum um vörur eða þjónustu á Netinu. Auglýsingar af þessu tagi geta stafað frá fyrirtækjum eða öðrum, en einnig getur samfélagsmiðillinn sjálfur nýtt sömu tækni til að koma á framfæri einstaklingsmiðuðum skilaboðum og auglýsingum til notenda.

Tilgangur einstaklingsmiðaðra auglýsinga er að gera auglýsingarnar markvissari en ella. Notast er við ýmiss konar aðferðir til þess að afla persónuupplýsinganna, svo sem vefkökur, samfélagsmiðlaviðbætur (e. Social Plugins) á við „líkar þetta“- og „deila“-hnappa (e. Like, Share), athugasemdakerfi tengd samfélagsmiðlum og ferilvöktunarkóða (e. Tracking Pixels). Tól af þessu tagi, sem kunna að vera notuð bæði á samfélagsmiðlinum sjálfum og á öðrum vefsíðum utan hans, safna upplýsingum um hegðun einstaklinga og samskipti þeirra á Netinu í þeim tilgangi að búa til prófíl fyrir hvern einstakling. Þessi prófíll er svo notaður til þess að beina megi sérsniðnum auglýsingum og skilaboðum að einstaklingnum. 

Hvernig get ég haft áhrif á það hvort ég sé einstaklingsmiðaðar auglýsingar á samfélagsmiðlum?

Mælt er með því að notendur samfélagsmiðla yfirfari friðhelgistillingar sínar reglulega. Það er gert með því að velja „Stillingar“ (e. Settings, Account settings) eða sambærilegan valmöguleika. Í flestum tilvikum er hægt að takmarka að einhverju leyti notkun persónuupplýsinga í þágu einstaklingsmiðaðra auglýsinga, en möguleikar á því eru þó mismunandi eftir samfélagsmiðlum.

Hvernig get ég aukið persónuvernd mína á samfélagsmiðlum?

Í fyrsta lagi skiptir meginmáli að við séum meðvituð um það hvaða upplýsingum við kjósum að deila á samfélagsmiðlum, sem og á Netinu almennt. Þetta á bæði við um upplýsingar um okkur sjálf og aðra – ekki síst þegar um er að ræða börn eða aðra einstaklinga sem geta ekki sjálfir haft áhrif á eða fylgst með miðlun upplýsinganna. Þá er einnig mikilvægt að við séum meðvituð um það hvaða upplýsingar við veitum samfélagsmiðlinum sjálfum um okkur. Þegar um er að ræða upplýsingar sem við viljum ekki að óviðkomandi aðilar fái aðgang að kann að vera heppilegra að notast við aðrar samskiptaleiðir.

Í öðru lagi er mælt með því að skoða vel persónuverndarstefnu miðilsins, notendaskilmála og annað sem máli getur skipt, svo sem upplýsingar um notkun á vefkökum (e. cookies). Þannig má afla sér vitneskju um það hvernig persónuupplýsingar notenda eru nýttar og í hvaða tilgangi.

Í þriðja lagi er rétt að yfirfara friðhelgistillingar reglulega og nýta þá möguleika sem bjóðast til þess að stýra því hvernig persónuupplýsingarnar eru notaðar. Þá er einnig nauðsynlegt að yfirfara reglulega þær heimildir sem hafa verið veittar öðrum vefsíðum eða smáforritum. Þegar smáforrit eru notuð, til dæmis á Facebook, þarf notandinn iðulega að samþykkja að veita forritinu aðgang að tilteknum upplýsingum, og hið sama á við þegar notandinn velur að nota aðgangsauðkenni sín fyrir t.d. Facebook til þess að skrá sig inn á aðrar vefsíður sem bjóða upp á slíkt. Þessi aðgangur getur verið misvíðtækur og er full ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart vefsíðum og smáforritum sem fara fram á víðtækari aðgang en þörf er á í þágu tilgangsins með notkun þeirra.

Hafa skal hugfast að þótt tilteknu smáforriti sé eytt, t.d. af Facebook eða úr síma viðkomandi notanda, er ekki þar með sagt að persónuupplýsingum notandans sé jafnframt eytt úr gagnagrunnum fyrirtækisins. Áður en forritinu er eytt er rétt að kynna sér hvernig farið verður með persónuupplýsingarnar ef notkun þess er hætt, en upplýsingar um það ættu að vera aðgengilegar í gegnum forritið eða rekstraraðila þess.   

Hver eru mín réttindi tengd meðferð persónuupplýsinga um mig á samfélagsmiðlum?

Notendur samfélagsmiðla geta átt ýmiss konar réttindi á grundvelli persónuverndarlaga, sem geta komið að góðum notum þegar gætt er að persónuvernd og réttri meðferð persónuupplýsinga hjá miðlinum. Einkum má benda á rétt notenda til aðgangs að persónuupplýsingum um þá sjálfa, og rétt þeirra til  að láta leiðrétta eða eyða upplýsingum um sig við tilteknar aðstæður. Nánar er fjallað um aðgangsréttinn og réttinn til leiðréttingar og eyðingar annars staðar á vefsíðunni. 

Ef þú ert í vafa um það hvernig þú getur nýtt rétt þinn samkvæmt persónuverndarlögum gagnvart samfélagsmiðli getur þú haft samband við samfélagsmiðilinn sjálfan og óskað eftir aðstoð og leiðbeiningum. Ef þú ert ekki sátt/sáttur við svörin sem þú færð, getur þú lagt fram formlega kvörtun til Persónuverndar. 



Var efnið hjálplegt? Nei