Allar spurningar og svör

Rafræn skilríki og Íslykill

Hvað er það og má gera kröfu um að ég noti þau í vinnunni? 

Hvað eru rafræn skilríki?

Rafræn skilríki eru persónuskilríki sem notuð eru í rafrænum heimi. Það að auðkenna sig með rafrænum skilríkjum á Netinu jafngildir því að framvísa persónuskilríkjum. Rafræn skilríki er hægt að nota til fullgildrar undirritunar og jafngildir hún eigin undirritun.

Á vefsíðunni skilriki.is, sem ríkisskattstjóri heldur úti, er að finna allar helstu upplýsingar um rafræn skilríki.

Hvað er Íslykill?

Íslykill er lykilorð sem er tengt kennitölu einstaklings eða lögaðila. Íslykill er gefinn út af Þjóðskrá Íslands.

Má vinnuveitandi fara fram á að ég noti Íslykilinn minn í vinnunni?

Það er sérstakt álitamál hvort rétt sé að gera þá kröfu til starfsmanna að þeir noti sinn persónulega Íslykil eða rafræn skilríki í þágu starfa sinna, en almennt má gera ráð fyrir því að þess háttar rafræn auðkenning hafi upphaflega verið útbúin til að gera borgurum kleift að eiga örugg samskipti við stjórnvöld í eigin þágu. Í því sambandi er rétt að nefna að þegar Íslykill er tekinn í notkun í fyrsta skipti er ekki gert ráð fyrir viðveru viðkomandi einstaklings til að taka á móti lykilorðinu, t.d. er hægt að fá upphafslykilorð Íslykils sent í heimabanka viðkomandi, sem getur verið varinn eingöngu með notendanafni og einföldu lykilorði. Þá er ekki loku fyrir það skotið að viðkomandi einstaklingur hafi deilt lykilorði Íslykils síns með öðrum einstaklingi, svo sem maka eða sambúðaraðila. Af þeirri ástæðu telur Persónuvernd að gæta verði sérstakrar varúðar þegar persónulegur Íslykill er notaður vegna starfa viðkomandi einstaklings, þar sem það getur falið í sér áhættu fyrir viðkomandi vinnuveitanda.

Almennt hefur verið litið svo á í framkvæmd að þegar um er að ræða aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum, svo sem upplýsingar um heilsufar, nægi Íslykill einn og sér ekki til að tryggja öryggi þeirra upplýsinga. Í þeim tilvikum hefur verið gerð krafa um rafræn skilríki.

 

Má vinnuveitandi fara fram á að ég noti rafrænu skilríkin mín í vinnunni?

Rafræn skilríki geta verið einkaskilríki eða starfsskilríki. Einkaskilríki eru ætluð einstaklingum svo þeir geti auðkennt sig á Netinu og undirritað skjöl rafrænt. Starfsskilríki eru hins vegar gefin út á einstakling en með tengingu við fyrirtæki eða stofnun. Slík skilríki eru kjörin fyrir einstaklinga sem í starfi sínu þurfa að undirrita rafræn skjöl, skrá sig inn á vefsvæði fyrir hönd vinnuveitanda síns o.s.frv. Á starfsskilríkjunum koma fram upplýsingar um vinnustaðinn (nafn og kennitala) til viðbótar við upplýsingar um starfsmanninn (nafn og kennitala). Í þessu sambandi skal áréttað að skilríkin eru eingöngu ætluð starfsmanninum og að vinnuveitandi hefur ekki aðgang að þeim.

Ef þú þarft að nota rafræn skilríki í starfi þínu getur þurft að meta út frá aðstæðum hverju sinni hvort það nægir að þú auðkennir þig með einkaskilríkjum eða hvort þú þarft á starfsskilríkjum að halda. Bæði einkaskilríki og starfsskilríki eru eingöngu ætluð viðkomandi einstaklingi sem þau eru gefin út á og tilgangur þeirra er að viðkomandi einstaklingur geti auðkennt sig. Skilríkin virka eins að grunni til, en munurinn felst í því að starfsskilríkin eru einnig tengd kennitölu vinnustaðarins. Þau geta því verið betri kostur þegar þjónustuaðilar gera þá kröfu að bæði kennitala einstaklings og vinnuveitanda séu tengdar skilríkjunum til að þau veiti aðgang. Var efnið hjálplegt? Nei