Allar spurningar og svör

Persónuverndarfulltrúi

Persónuverndarfulltrúi á að vera til staðar hjá öllum stofnunum, ráðuneytum og sveitarfélögum og ákveðnum fyrirtækjum. Hann hefur það hlutverk að fylgjast með því að fyrirtæki og stofnanir fari að persónuverndarlögum.

Hvað er persónuverndarfulltrúi? Hvað gerir hann?

Persónuverndarfulltrúi á að vera til staðar hjá öllum stofnunum, ráðuneytum og sveitarfélögum og ákveðnum fyrirtækjum sem vinna með mikið af persónuupplýsingum eða hafa eftirlit með einstaklingum á Netinu, t.d. til að búa til persónusnið um þá.

Persónuverndarfulltrúi hefur það hlutverk að fylgjast með því að fyrirtæki og stofnanir fari að persónuverndarlögum og á að vera algjörlega sjálfstæður í störfum sínum innan starfseminnar. Ef þú ert ósátt/ósáttur við vinnslu persónuupplýsinga hjá tiltekinni stofnun eða fyrirtæki getur þú leitað til persónuverndarfulltrúans til að fá úrlausn þinna mála áður en þú leitar til Persónuverndar. Það er þó ekki skilyrði fyrir því að geta lagt fram kvörtun hjá Persónuvernd.

Hvernig kemst ég í samband við persónuverndarfulltrúa hjá stofnun eða fyrirtæki?

Upplýsingar um hvernig má nálgast persónuverndarfulltrúa, s.s. símanúmer, netfang og aðsetur, eiga að vera aðgengilegar einstaklingum, starfsmönnum og Persónuvernd, t.d. á vefsíðu viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar.

Ég þarf að komast í samband við persónuverndarfulltrúa tiltekinnar stofnunar en fæ bara netfang hjá annarri óskyldri stofnun. Af hverju er það?

Samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni mega stjórnvöld samnýta persónuverndarfulltrúa. Þess vegna geta t.d. nokkur sveitarfélög hópað sig saman til að samnýta persónuverndarfulltrúann.

Ég hafði samband við persónuverndarfulltrúa fyrirtækis og fékk svar frá verktaka út í bæ. Má það?

Já, fyrirtækjum og stofnunum er heimilt að ráða utanaðkomandi aðila til að sinna starfi persónuverndarfulltrúa. Því getur verið að þú fáir svör frá t.d. lögmanni á lögmannsstofu við fyrirspurn þinni til persónuverndarfulltrúa.

Eru gerðar einhverjar kröfur til þess hverjir geta verið persónuverndarfulltrúar?

Já, persónuverndarfulltrúinn þarf að vera sérfræðingur í persónuverndarlöggjöf. Það er þó ekki gerð krafa um að hann sé endilega lögfræðingur.

Ég er í samskiptum við fyrirtæki sem er ekki með persónuverndarfulltrúa en mér finnst að fyrirtækið eigi að vera með hann vegna þess sem það gerir. Hvað á ég að gera?

Ef þú telur að meginstarfsemi fyrirtækisins felist í umfangsmikilli vinnslu persónuupplýsinga sem eru viðkvæmar, eða sem krefst reglubundins eftirlits með einstaklingum, og fyrirtækið hefur ekki skipað persónuverndarfulltrúa, þá getur þú bent fyrirtækinu á það eða komið ábendingu á framfæri við Persónuvernd.

Ég er búin að reyna nokkrum sinnum að hafa samband við persónuverndarfulltrúann en hann svarar aldrei. Hvað geri ég?

Ef illa gengur að ná sambandi við persónuverndarfulltrúann getur þú haft samband við Persónuvernd til að fá úrlausn þinna mála. 



Var efnið hjálplegt? Nei