Allar spurningar og svör

Markaðssetning og bannskrá Þjóðskrár

Fyrirtækjum getur verið heimilt að hafa samband við þig en þú getur alltaf andmælt frekari samskiptum eða skráð þig á bannskrá Þjóðskrár.

Get ég hafnað því að fyrirtæki hafi samband við mig?

Ef þú vilt ekki að fyrirtæki hafi samband við þig standa tveir möguleikar til boða.

Annars vegar getur þú andmælt frekari samskiptum og þarf fyrirtækið þá að virða þá ósk þína. Þetta hentar betur í afmörkuðum tilvikum

Hins vegar getur þú bæði skráð þig á bannskrá Þjóðskrár og/eða x-merkt þig í símaskrá en þeir sem starfa í beinni markaðssókn verða að bera sína lista saman við bannskrána. Þessi leið hentar betur ef þú vilt leggja almennt bann við því að haft sé samband við þig.

Persónuvernd hefur eftirlit með því að aðilar í markaðssetningarstarfsemi virði bannmerkingu í þjóðskrá en eftirlit með x-merkingu í símaskrá er í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar.

Þjóðskrá heldur bannskrá yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Þeir sem starfa í beinni markaðssókn og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi verða, áður en slík skrá er notuð í slíkum tilgangi, að bera hana saman við bannskrá Þjóðskrár til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku.

Þá hafa verið settar reglur um skráningu einstaklinga, sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi og notkun slíkrar skrár. Með markaðssetningarstarfsemi er átt við útsendingu dreifibréfa, happdrættismiða, gíróseðla, auglýsinga og kynningarefnis, símhringingar, útsendingu tölvupósts eða hliðstæðar aðferðir, sem varða kaup eða leigu á vöru eða þjónustu eða þátttöku í tiltekinni starfsemi, hvort sem hún er viðskiptalegs eðlis eða varðar tómstundir, afþreyingu, námskeið eða sambærilegt atferli.

Ég er á bannskrá Þjóðskrár en fæ samt boð um að taka þátt í vísindarannsókn, má það?

Þar sem bannskráin nær eingöngu til markaðssetningarstarfsemi getur farið svo að þér berist m.a. beiðnir um taka þátt í vísindarannsóknum, en þér er þó að sjálfsögðu frjálst að neita því að taka þátt slíkum rannsóknum.

Ég er á bannskrá Þjóðskrár en fæ samt áfram símtöl og markaðssetningarpóst, hvað á ég að gera?

Ef þú færð símtöl og markaðssetningarpóst þótt þú sért á bannskrá getur þú kvartað til viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Þá er þér ávallt frjálst að kvarta til Persónuverndar. Var efnið hjálplegt? Nei