Allar spurningar og svör

Leiðrétting og eyðing persónuupplýsinga

Þú átt rétt til að fá óáreiðanlegar persónuupplýsingar sem varða þig sjálfan leiðréttar án ótilhlýðilegrar tafar. Þú getur einnig í vissum tilfellum átt rétt á því að upplýsingar um þig sem birtast á leitarvélum á netinu, t.d. Google, verði fjarlægðar.

Er hægt að fá persónuupplýsingar leiðréttar?

Þú átt rétt til að fá óáreiðanlegar persónuupplýsingar sem varða þig sjálfan leiðréttar án ótilhlýðilegrar tafar. Þú átt einnig rétt á því, að teknu tilliti til tilgangs vinnslunnar, að láta fullgera ófullkomnar persónuupplýsingar, þ.m.t. með því að leggja fram yfirlýsingu til viðbótar við þær.

Réttur til eyðingar persónuupplýsinga (rétturinn til að gleymast)

Þú átt rétt á því við ákveðnar aðstæður að fá upplýsingum um þig eytt. Er það einnig kallað rétturinn til að gleymast.

Hvenær er hægt að fá persónuupplýsingum eytt?

Ef einhver eftirtalinna ástæðna á við er ábyrgðaraðilanum, þ.e. þeim sem vinnur með persónuupplýsingarnar, skylt að eyða þeim án ótilhlýðilegrar tafar:

  • Persónuupplýsingarnar eru ekki lengur nauðsynlegar í þeim tilgangi sem lá að baki söfnun þeirra eða annarri vinnslu þeirra.
  • Ef vinnsla persónuupplýsinga er byggð á samþykki þínu og þú dregur samþykki þitt til baka, og ekki er annar lagagrundvöllur fyrir vinnslunni.
  • Þú andmælir vinnslunni og ekki eru fyrir hendi lögmætar ástæður fyrir henni sem ganga framar.
  • Vinnsla persónuupplýsinganna var ólögmæt.
  • Eyða þarf persónuupplýsingunum til að uppfylla lagaskyldu.
  • Persónuupplýsingunum var safnað saman í tengslum við það þegar barni var boðin þjónusta í upplýsingasamfélaginu.

Hvenær er EKKI hægt að fá upplýsingum eytt?

Réttur einstaklings til eyðingar persónuupplýsinga gildir ekki að því marki sem vinnsla þeirra er nauðsynleg:

  • Til að neyta réttarins til tjáningar- og upplýsingafrelsis.
  • Til að uppfylla lagaskyldu, eða vegna verkefnis sem er unnið í þágu almannahagsmuna eða við beitingu opinbers valds sem ábyrgðaraðilinn fer með.
  • Vegna almannahagsmuna á sviði lýðheilsu.
  • Vegna skjalavistunar í þágu almannahagsmuna, rannsókna á sviði vísinda eða sagnfræði eða í tölfræðilegum tilgangi.
  • Til að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur.

 

Get ég fengið niðurstöður á leitarvélum eins og Google og timarit.is fjarlægðar?

Þú getur í vissum tilfellum átt rétt á því að upplýsingar um þig sem birtast á leitarvélum, t.d. Google, verði fjarlægðar. Þegar óska á eftir því að leitarniðurstöður verði fjarlægðar þarf að byrja á því að beina beiðni þess efnis til viðkomandi leitarvélar, sem tekur þá til skoðunar hvort fjarlægja skuli upplýsingarnar úr leitarniðurstöðum, t.d. þegar leitað er eftir nafni þínu. Athuga skal að sambærileg eyðublöð eru til fyrir fleiri leitarvélar. Ef viðkomandi leitarvél verður ekki við beiðni um að fjarlægja upplýsingarnar úr leitarniðurstöðunum er hægt að senda Persónuvernd formlega kvörtun vegna þess.

Þótt niðurstöður á leitarvélum, t.d. Google, fáist fjarlægðar verður efnið eftir sem áður birt á Netinu. Eftir atvikum er hægt að beina beiðni til vefstjóra þeirrar vefsíðu sem um ræðir um að efnið verði tekið úr birtingu, óháð því hvort leitað er til leitarvéla eða ekki um fjarlægingu leitarniðurstaðna. Vefstjóri vefsíðunnar getur þá eftir atvikum fjarlægt það efni af vefsíðunni óskað er eftir, eða komið í veg fyrir að efnið birtist í leitarniðurstöðum.

Persónuverndarlögin gilda aðeins að takmörkuðu leyti um vinnslu persónuupplýsinga í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi. Þá er heimilt að víkja frá lögunum, að því marki sem það er nauðsynlegt til að samræma sjónarmið um rétt til einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsis hins vegar, í þágu fjölmiðlunar, lista eða bókmennta. Ákvæði laganna um rétt til að fá persónuupplýsingum eytt gilda því almennt ekki þegar þær eru birtar í þágu fréttamennsku eða fjölmiðlunar.

Þegar kemur að réttinum til að gleymast og því hvort leitarvélum á Netinu sé skylt að eyða tilteknum leitarniðurstöðum hefur Evrópudómstóllinn, með dómi sínum frá 13. maí 2015, sett fram skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt svo að unnt sé að fallast á að eyða beri tiltekinni leitarniðurstöðu. Í dómnum kemur fram að það hvort upplýsingum skuli eytt fari eftir mati á hagsmunum, annars vegar af því að leitarniðurstaðan sé aðgengileg og hins vegar hagsmunum viðkomandi einstaklings af því að svo sé ekki. Upplýsingar um dóminn má nálgast hér.

Hvað varðar vefsíðuna Tímarit.is, þar sem birt er stórt safn efnis úr íslenskum blöðum og tímaritum, hefur Persónuvernd komist að þeirri niðurstöðu að rekstur Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns á vefsíðunni samrýmist hlutverki safnsins eins og það er skilgreint í lögum nr. 142/2001 um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Persónuvernd hefur í úrlausnum sínum (sbr. t.d. mál nr. 2015/1015 og 2016/181) komist að þeirri niðurstöðu að við mat á því hvort birting persónuupplýsinga á umræddri vefsíðu teljist heimil þurfi að taka afstöðu til þess hvor rétturinn vegi þyngra, tjáningarfrelsið, skv. 73. gr. stjórnarskrárinnar, eða friðhelgi einkalífs, skv. 71. gr. hennar. Ekki verði litið svo á að Persónuvernd hafi vald til þess að taka bindandi ákvörðun um mörk réttinda samkvæmt framangreindum stjórnarskrárákvæðum, heldur verði slíkt talið heyra undir dómstóla. 



Var efnið hjálplegt? Nei