Allar spurningar og svör

Schengen-gagnagrunnar

Hver eru réttindi mín vegna skráninga í Schengen-gagnagrunna? 

Schengen upplýsingakerfin

Schengen-samstarfið er samstarf 26 ríkja í Evrópu og miðar að því að tryggja frjálsa för fólks innan Schengen-svæðisins. Aðildarríkin eru Austurríki, Belgía, Danmörk, Eistland, Finnland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ísland, Ítalía, Lettland, Liechtenstein, Litháen, Lúxemborg, Malta, Noregur, Portúgal, Pólland, Slóvakía, Slóvenía, Spánn, Sviss, Svíþjóð, Tékkland, Ungverjaland og Þýskaland.

Samstarfið lýtur að afnámi persónubundins eftirlits á landamærum milli Schengen-landanna, svokallaðra „innri landamæra“. Slíkt kallar þó á mótvægisaðgerðir til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu, sem felast einkum í samvinnu evrópskra löggæsluaðila. Í því skyni hafa verið sett upp upplýsingakerfi þar sem haldið er utan um þær upplýsingar sem unnið er með í samstarfi landanna.

Hvert ríki ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem það skráir í upplýsingakerfin.

Persónuvernd hefur eftirlit með því að reglum Schengen-samstarfsins um meðferð persónuupplýsinga sé fylgt á Íslandi.

Skráðir einstaklingar eiga rétt á að fá vitneskju um upplýsingar um sig í kerfunum. Sá réttur er grundvöllur þess að einstaklingar geti fengið rangar upplýsingar um sig leiðréttar og ranglega skráðar upplýsingar fjarlægðar. Sá réttur er einnig tryggður með Schengen-regluverkinu.

Persónuverndarstofnanir Schengen-ríkjanna veita upplýsingar um hvernig haga á beiðni um aðgang í hverju landi fyrir sig. Verði ábyrgðaraðilar ekki við upplýsingabeiðni er hægt að beina kvörtun til persónuverndarstofnunar í því landi, hér Persónuverndar.

Nánari upplýsingar um réttindi hins skráða er að finna hér.

 

SIS-II (Löggæsla og landamæraeftirlit)

Í Schengen-upplýsingakerfið (SIS-II) eru skráðar upplýsingar um eftirlýsta einstaklinga og einstaklinga sem eru undir eftirliti, upplýsingar um horfin ökutæki og muni, s.s. skilríki og skotvopn.

Rík áhersla er lögð á vernd þeirra persónuupplýsinga sem skráðar eru í Schengen-upplýsingakerfið. Um kerfið gilda strangar reglur, bæði hvað varðar vernd persónuupplýsinga og öryggi kerfisins í heild.

Hver sem skráður er í upplýsingakerfið á rétt á að fá vitneskju um skráðar upplýsingar um sig í kerfinu.

Á Íslandi er það embætti ríkislögreglustjóra sem veitir upplýsingar um skráningar í Schengen-upplýsingakerfið.

VIS (Vegabréfsáritanir)

Ríkisborgarar þriðju ríkja, sem ekki hafa samið sérstaklega um áritunarfrelsi við Schengen-ríkin, þurfa að hafa gilda Schengen-áritun í ferðaskilríkjum sínu til að geta ferðast inn á Schengen-svæðið. Áritunin veitir heimild til að ferðast til Schengen-ríkjanna og dveljast þar á nánar tilteknu tímabili. Vegabréfsáritun er m.a. gefin út fyrir ferðamenn, fjölskylduheimsóknir, opinber erindi, viðskiptaheimsóknir og námsferðir.

Upplýsingar vegna þessa eru skráðar í upplýsingakerfi um vegabréfsáritanir eða „VIS-kerfið“ (VIS: Visa Information System).

Á Íslandi er það Útlendingastofnun sem veitir upplýsingar um skráningar í VIS-kerfið.

 

Eurodac (Fingrafaragagnagrunnurinn)

Þegar einstaklingur ber fram umsókn um alþjóðlega vernd eða er stöðvaður við ólöglega för yfir landamæri Schengen-svæðisins og þriðja lands, þ.e. svonefnd „ytri landamæri“, eru fingraför viðkomandi skráð í fingrafaragagnagrunninn Eurodac. Fer því ávallt fram leit í þeim grunni þegar einstaklingur sækir um alþjóðlega vernd. Leiði slík leit í ljós að viðkomandi hafi sótt um hæli áður er kannað hvort það ríki beri ábyrgð á meðferð umsóknar.

Lögregla skal, þegar fingraför eru tekin til færslu í Eurodac-kerfið, veita umsækjanda um vernd eða útlendingi, sem handtekinn er í tengslum við ólöglega för yfir ytri landamæri og er ekki vísað frá, upplýsingar um:

  1. hver ber ábyrgð á skráningunni,
  2. tilganginn með vinnslu upplýsinganna í Eurodac-kerfinu,
  3. hvert upplýsingunum er miðlað,
  4. að skylda er að taka fingraför hans, og
  5. rétt hans til að fá aðgang að og leiðréttingu á upplýsingum sem varða hann.

Á Íslandi er það embætti ríkislögreglustjóra sem veitir upplýsingar um skráningar í Eurodac.

.Var efnið hjálplegt? Nei