Allar spurningar og svör

Hljóðupptökur

Hljóðupptaka felur í sér vinnslu persónuupplýsinga ef unnt er að persónugreina þá einstaklinga sem teknir eru upp, t.d. ef þeir segja til nafns eða ef unnt er að ráða út frá efni upptökunnar um hverja ræðir.

Hvaða reglur gilda um hljóðupptökur?

Einstaklingar mega almennt ekki taka upp samtöl manna á milli eða ræður annarra einstaklinga nema með samþykki þeirra sem á upptökunni heyrast.

Hljóðupptaka felur í sér vinnslu persónuupplýsinga ef unnt er að persónugreina þá einstaklinga sem teknir eru upp, t.d. ef þeir segja til nafns eða ef unnt er að ráða út frá efni upptökunnar um hverja ræðir.

Hvenær telst hljóðupptaka vera rafræn vöktun og hvaða reglur gilda um slíka vöktun?

Ef hljóðupptaka er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér einhvers konar eftirlit með einstaklingum eða fjarstýrðum eða sjálfvirkum búnaði telst hún vera rafræn vöktun en sérstakar reglur gilda um slíka vöktun. Ávallt þarf að vera til staðar einhver heimild í persónuverndarlögum til að vinna með slíkar upplýsingar, s.s. samþykki, lagaheimild eða lögmætir hagsmunir. Þá þarf einnig að veita fræðslu um upptökuna.

Sérstaklega þarf að hafa í huga að eftirfarandi atriði:

 

  • Rafræn vöktun með leynd er óheimil nema hún styðjist við lagaheimild eða úrskurð dómara.
  • Rafræn vöktun skal aðeins fara fram í málefnalegum tilgangi.

Heimilt er að safna efni sem verður til við rafræna vöktun, með viðkvæmum persónuupplýsingum, ef öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:

 

  1. Vöktunin er og fer fram í öryggis- eða eignavörsluskyni.
  2. Efnið verður ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða á grundvelli heimilda í reglum Persónuverndar. Heimilt er þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað en þá þarf að eyða öllum öðrum eintökum af sama efni.
  3. Eyða skal efninu sem safnast þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það.

 

Þarf að gera viðvart um hljóðritun símtala? Má segja að símtalið kunni að vera hljóðritað?

Ef hljóðrita á símtal þarf í upphafi þess að tilkynna viðmælanda um að upptaka fari fram. Þess þarf þó ekki þegar ótvírætt má ætla að viðmælanda sé kunnugt um hljóðritunina. Þá þurfa stjórnvöld ekki að tilkynna um hljóðritun þegar hún er eðlilegur þáttur í starfsemi þess og nauðsynleg vegna þjóðar- og almannaöryggis.

Þegar viðmælanda er tilkynnt um hljóðupptöku þarf sá sem ætlar að taka upp símtalið að huga að fræðsluskyldunni samkvæmt persónuverndarlöggjöfinni. Því getur verið að orðalag á borð við að símtal kunni að vera hljóðritað samrýmist ekki meginreglum persónuverndarlaga um sanngirni og gagnsæi.

 Var efnið hjálplegt? Nei