Allar spurningar og svör

Álagningarskrá - birting upplýsinga

Er heimilt að birta tekjuupplýsingar einstaklinga og hvar má birta þær? 

Er heimilt að birta tekjuupplýsingar í tímariti?

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að vinnsla persónuupplýsinga, sem fer eingöngu fram í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi, þ.m.t. birting upplýsinga í tekjublöðum, falli utan ramma flestra ákvæða persónuverndarlaganna, þ. á m. þeirra ákvæða sem veita Persónuvernd valdheimildir vegna vinnslu persónuupplýsinga. Úrlausn um það hvort farið hafi verið út fyrir mörk tjáningarfrelsis heyrir því undir dómstóla.

Í þessum tilvikum mætast því hér sjónarmið um vernd einkalífs annars vegar og tjáningarfrelsi hins vegar. Er það afstaða flestra að þau réttindi sem hér um ræðir séu bæði með þeim mikilvægustu í lýðræðissamfélagi. Er það einnig almennt viðurkennt að umrædd réttindi skuli ekki háð öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

Þrátt fyrir framangreint eru gerðar kröfur um sanngirni við vinnslu persónuupplýsinga og að upplýsingar skuli vera áreiðanlegar. Úrlausn um það helst óhjákvæmilega í hendur við mat á hvort farið hafi verið út fyrir mörk tjáningarfrelsis heyrir eins og fyrr greinir undir dómstóla.

Er heimilt að birta tekjuupplýsingar á netinu?

Í máli nr. 2018/1507, er laut að allsherjar birtingu álagningarskrár á vefsíðunni tekjur.is, komst Persónuvernd að þeirri niðurstöðu að brostið hefði heimild til vinnslu persónuupplýsinga. Einnig var mælt fyrir um að eyða skyldi gagnagrunni þeim sem um ræddi og gerður hafði verið aðgengilegur á netinu gegn gjaldi. Ástæða þess var m.a. sú að í ljósi umfangs vinnslunnar hefði ábyrgðaraðila mátt vera ljóst að hún teldist ekki þjóna fréttamennsku eingöngu og að hún félli því ekki undir undanþágu frá persónuverndarlögum á grundvelli tjáningarfrelsis. Við mat á slíku hefur m.a. verið litið til þess hvort gögn eru birt óunnin eða hvort fréttir eða fréttatengt efni hefur verið unnið upp úr upprunalegum gögnum.Var efnið hjálplegt? Nei