Allar spurningar og svör

Andmælaréttur

Þér er heimilt að andmæla vinnslu persónuupplýsinga er varðar þig sjálfan þegar vinnsla byggist á almannahagsmunum eða lögmætum hagsmunum.

 

Get ég andmælt vinnslu persónuupplýsinga?

Þér er almennt heimilt að andmæla vinnslu persónuupplýsinga er varðar þig sjálfan  þegar vinnsla byggist á almannahagsmunum eða lögmætum hagsmunum þess sem vinnur með upplýsingarnar (ábyrgðaraðili).

Þegar þú andmælir vinnslu má ábyrgðaraðili ekki vinna persónuupplýsingarnar frekar nema hann geti sýnt fram á mikilvægar lögmætar ástæður fyrir vinnslunni sem ganga framar hagsmunum, réttindum og frelsi þínu, eða hún sé nauðsynleg til að stofna, hafa uppi eða verja réttarkröfur.

Eigi andmælin hins vegar rétt á sér er ábyrgðaraðila óheimil frekari vinnsla umræddra upplýsinga. Það er ávallt á hendi ábyrgðaraðila að sýna fram á að mikilvægir lögmætir hagsmunir hans gangi framar hagsmunum eða grundvallarréttindum og frelsi þínu. Þá getur þurft að skrásetja niðurstöðu hagsmunamatsins til að ábyrgðarskylda persónuverndarlaganna sé uppfyllt.

Hvernig get ég komið í veg fyrir að haft sé samband við mig vegna markaðssetningar?

Ef þú vilt ekki fá markpóst eða markaðssetningarsímtöl getur þú bæði skráð þig á bannskrá Þjóðskrár og/eða x-merkt þig í símaskrá. Persónuvernd hefur eftirlit með því að aðilar í markaðssetningarstarfsemi virði bannmerkingu í þjóðskrá en eftirlit með x-merkingu í símaskrá er í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar.

Þjóðskrá heldur bannskrá yfir þá sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi. Þeir sem starfa í beinni markaðssókn og þeir sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi verða, áður en slík skrá er notuð í slíkum tilgangi, að bera hana saman við bannskrá Þjóðskrár til að koma í veg fyrir að markpóstur verði sendur eða hringt verði til einstaklinga sem hafa andmælt slíku.

Þá hafa verið settar reglur um skráningu einstaklinga, sem andmæla því að nöfn þeirra séu notuð í markaðssetningarstarfsemi og notkun slíkrar skrár. Með markaðssetningarstarfsemi er átt við útsendingu dreifibréfa, happdrættismiða, gíróseðla, auglýsinga og kynningarefnis, símhringingar, útsendingu tölvupósts eða hliðstæðar aðferðir, sem varða kaup eða leigu á vöru eða þjónustu eða þátttöku í tiltekinni starfsemi, hvort sem hún er viðskiptalegs eðlis eða varðar tómstundir, afþreyingu, námskeið eða sambærilegt atferli.

Ég er  á bannskrá Þjóðskrár en fæ samt boð um að taka þátt í vísindarannsókn, má það?

Þar sem bannskráin nær eingöngu til markaðssetningarstarfsemi getur farið svo að þér berist m.a. beiðnir um taka þátt í vísindarannsóknum, en þér er þó að sjálfsögðu frjálst að neita því að taka þátt slíkum rannsóknum.

 

Ég er á bannskrá Þjóðskrár en fæ samt áfram símtöl og markaðssetningarpóst, hvað á ég að gera?

Ef þú færð símtöl og markaðssetningarpóst þótt þú sért á bannskrá getur þú kvartað til viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Þá er þér ávallt frjálst að kvarta til Persónuverndar.

 

 

 Var efnið hjálplegt? Nei