Kynningar
Kynningar frá málþingum Persónuverndar
Kynningarfundir Persónuverndar um nýja persónuverndarlöggjöf 2018
Persónuvernd hélt í kynningarherferð um landið í október og nóvember 2018 þar sem áhugasömum var boðið að sækja kynningarfundi um nýju persónuverndarlöggjöfina, sem tók gildi 15. júlí 2018. Kynningarfundir voru haldnir á Akureyri, Ísafirði, Egilsstöðum, í Vestmannaeyjum, á Höfn í Hornafirði, Selfossi, í Reykjanesbæ, Borgarnesi og Reykjavík.
Upptökur frá lokafundinum í Reykjavík og glærukynningar fyrirlesara má nálgast hér:
- Af hverju Persónuvernd? Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar (Upptaka - Glærur)
- Skyldur fyrirtækja og stofnana. Vigdís Eva Líndal, skrifstofustjóri upplýsingaöryggis (Upptaka - Glærur)
- Ný persónuverndarlöggjöf - réttindi einstaklinga. Þórður Sveinsson, skrifstofustjóri lögfræðisviðs (Upptaka - Glærur)
Málþing Persónuverndar um persónuvernd í skólastarfi (9. nóvember 2017)
Þann 9. nóvember 2017 hélt Persónuvernd í samstarfi við Háskóla Íslands málþing í Háskólabíói 9. nóvember 2017 - Persónuvernd í íslensku skólasamfélagi - frá leikskóla til háskóla.
Á málþinginu var ítarlega fjallað um nýja Evrópulöggjöf um persónuvernd og áhrif hennar á skólasamfélagið auk þess sem farið var yfir þær reglur sem gilda um vinnslu persónuupplýsinga í skólastarfi og í vísinda- og rannsóknarstarfi. Þá var málþingið tekið upp .
Glærukynningar fyrirlesara má nálgast hér:
Fundur Samtaka iðnaðarins um nýja persónuverndarlöggjöf (7. apríl 2017)
Þann 7. apríl 2017 var haldinn fundur á vegum Samtaka iðnaðarins á Hilton Reykjavík Nordica þar sem farið var yfir helstu breytingar sem fylgja nýrri persónuverndarreglugerð ESB. Um 170 manns mættu á fundinn og var honum streymt beint á Facebook.
Á vefsíðu Samtaka iðnaðarins má einnig finna glærur frummælenda.
Morgunverðarfundur um nýja persónuverndarlöggjöf (3. mars 2017)
Þann 3. mars 2017 héldu Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála og Félag forstöðumanna ríkisstofnana, í samvinnu við innanríkisráðuneyti og Persónuvernd, morgunverðarfund á Grand hótel um nýja persónuverndarlöggjöf. Á fundinn mættu um 150 manns og var hann því vel sóttur. Fundarstjóri var Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, en frummælendur voru Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, Hörður Helgi Helgason, lögmaður og fyrrverandi forstjóri Persónuverndar og Jóhanna Bryndís Bjarnadóttir, sendiráðunautur í utanríkisráðuneytinu.
Glærur fundarins má nálgast á vefsíðu Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála.
UT-dagurinn 2016 (1. desember 2016)
Dagur upplýsingatækninnar (UT-dagurinn) hefur verið haldinn árlega frá árinu 2006 af stjórnvöldum en að deginum standa innanríkisráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skýrslutæknifélagið. Tilgangur dagsins er að fjalla um það sem er efst á baugi í upplýsingatæknimálum hjá stjórnsýslunni.
Megin þema UT-dagsins 2016 snéri að vaxandi ógnum sem steðja að öryggi upplýsinga, kerfa og neta og hvernig brugðist verður við þeim með umtalsverðum breytingum á löggjöf, m.a. með nýrri evrópskri persónuverndarlöggjöf.
Upptökur af UT deginum má finna á vef vimeo.com.
Ný Evrópureglugerð um persónuvernd - áhrif á upplýsingatækni ríkisstofnana (17. nóvember 2016)
Fjármálaráðuneytið stóð fyrir morgunverðarfundi með tæknifólki ríkisins þann 17. nóvember 2016. Fundurinn var haldinn í Hörpu og stóð frá 8:00-11:00. Á fundinum var m.a. rætt hvernig hið opinbera gæti gert aðgang að upplýsingum og þjónustu við almenning greiðari, skilvirkari og markvissari. Einnig var rætt um innkaup og rekstur upplýsingakerfa, tölvuský, nýja Evrópureglugerð um persónuvernd, samfélagsský fyrir hið opinbera, samþættingu upplýsingamála banka og samvirkni upplýsingakerfa ríkisins.
Fulltrúi Persónuverndar hélt erindi um nýja Evrópureglugerð um persónuvernd og áhrif hennar á starfsemi ríkisstofnana.
Glærukynninguna er unnt að nálgast hér.
Almenn málstofa um GDPR (30. september 2016)
Fyrsta málstofa Persónuverndar í fundaröð um nýjar evrópskar persónuverndarreglur 2018 var haldin föstudaginn 30. september sl. á Icelandair Hotel Reykjavík Natura. Rúmlega 300 manns sóttu málstofuna.
Fyrr á árinu var samþykkt ný persónuverndarlöggjöf sem taka mun gildi í Evrópu árið 2018. Um er að ræða umfangsmestu endurbætur sem gerðar hafa verið á persónuverndarlöggjöfinni í tvo áratugi og að mörgu er að huga, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, stýrði málsstofunni og að loknum inngangsorðum hennar tók til máls Vigdís Eva Líndal, verkefnisstjóri EES-mála hjá Persónuvernd.
Vigdís fór yfir þá auknu réttarvernd einstaklinga sem nýja reglugerðin hefur í för með sér, m.a. skýrari kröfur til samþykkis áður en persónuupplýsingar eru unnar, aukinn rétt einstaklinga til fræðslu um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fer fram hjá fyrirtækjum og stofnunum, aðgang einstaklinga að eigin persónuupplýsingum, réttinn til að gleymast, ásamt því að fara yfir reglur sem gilda munu um flutning persónuupplýsinga á milli þjónustuaðila, þ.e. reglur um hreyfanleika gagna.
Alma Tryggvadóttir, skrifstofustjóri upplýsingaöryggis hjá Persónuvernd, fræddi málstofugesti því næst um nýjar og breyttar skyldur í starfsemi fyrirtækja og stofnana, sem felast m.a. í að fyrrnefndir aðilar greini þá áhættu sem vinnsla persónuupplýsinga kann að hafa fyrir einstaklinga og grípi til viðeigandi öryggisráðstafana sökum hennar, tilnefni sérstakan persónuverndarfulltrúa og haldi í vissum tilvikum skrá yfir vinnsluaðgerðir, ásamt því sem hún fór yfir auknar valdheimildir Persónuverndar, sem fær heimild til að leggja háar stjórnsýslusektir á aðila sem gerast brotlegir við hinar nýju reglur. Að erindum loknum var opnað fyrir spurningar úr sal.
Það er ljóst að mikill áhugi er á málaflokknum og þeim breytingum sem nýja reglugerðin mun hafa í för með sér. Persónuvernd fyrirhugar að halda minni og sérhæfðari málstofur fyrir þann breiða hóp hagsmunaaðila sem reglugerðin varðar og verður fyrirkomulag þeirra auglýst á komandi vikum.