Úrlausnir

Undanþága frá því að bera saman við bannskrá

1.6.2006

Hinn 7. september 2005 barst Persónuvernd umsókn frá Rafþjónustunni Ljósi ehf., dags. 25. ágúst s.á., um heimild til undanþágu frá 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar er kveðið á um skyldu þeirra sem nota skrár með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar í beinni markaðssetningu til að bera skrárnar saman við skrá Hagstofu Íslands yfir þá sem hafna því að nöfn þeirra séu notuð í slíkri starfsemi (oft nefnd "bannskrá"). Í ákvæðinu er hins vegar einnig kveðið á um að Persónuvernd geti heimilað undanþágu frá þessari skyldu í sérstökum tilvikum.


Í því tilviki, sem hér um ræðir, eru leiðishöfum í Grafarvogskirkjugarði send bréf þar sem þeim er boðið að fá ljós á leiði ástvina sinna yfir jólahátíðina. Meðfylgjandi er gíróseðill sem þeir leiðishafar greiða sem vilja nýta sér þessa þjónustu. Listi yfir leiðishafa er fenginn frá Kirkjugörðum Reykjavíkur. Fram kemur í bréfunum að vilji leiðishafi ekki fá sams konar bréf ásamt gíróseðli framvegis skuli hann hafa samband við skrifstofu kirkjugarðanna og láta taka sig af útsendingarlistanum sem sendur er Rafþjónustunni Ljósi ehf.


Umsóknin er rökstudd með því að "ekki sé um ruslpóst að ræða"; fremur beri að líta á umrædd bréf sem markpóst sem viðtakendur séu ákaflega þakklátir fyrir að fá sendan. Hafi það valdið verulegum vonbrigðum hjá þeim fjölda fólks, sem nýtti sér þessa þjónustu en var um leið skráð á framangreinda skrá Hagstofu Íslands, þegar hætt var, í ljósi 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000, að senda því bréfin. Hafi margir haft samband, bæði til að panta þjónustuna og láta í ljós óánægju sína.


Í athugasemdum við umrædda undanþágu í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, segir:

"Ákvæðið veitir Persónuvernd svigrúm til að undanþiggja ákveðna hópa frá skyldunni til að uppfæra útsendingarskrár sínar til samræmis við skrá Hagstofu Íslands. Til dæmis gæti verið raunhæft að undanþiggja frá þessari skyldu ýmiss konar hugsjónasamtök, stjórnmálahópa eða félög sem markaðssetja beint í mjög smáum stíl. Sama getur átt við um ýmiss konar styrktarfélög sem selja happdrættismiða eða annað efni til að styrkja ýmis málefni."


Persónuvernd telur að þær aðstæður, sem hér um ræðir, séu sambærilegs eðlis og þær sem nefndar eru í þessum athugasemdum. Hefur stofnunin því ákveðið að veita Rafþjónustunni Ljósi ehf. undanþágu frá skyldu samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 til að bera skrá með nöfnum og heimilisföngum, sem nota á í beinni markaðssetningu, saman við bannskrá Hagstofu Íslands. Sú undanþága tekur til sendingar bréfa ásamt gíróseðlum til leiðishafa í Grafarvogskirkjugarði þar sem þeim er boðið að fá ljós á leiði ástvina yfir jólahátíðina. Undanþágan er bundin því skilyrði að viðkomandi einstaklingum verði með skýrum hætti veittur kostur á því í bréfinu að láta taka sig af útsendingarlista frá Kirkjugörðum Reykjavíkur þannig að framvegis verði þeim ekki sendur slíkur póstur. Um þetta segir nánar í 3. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000:

"Skylt er að nafn ábyrgðaraðila komi fram á áberandi stað á útsendum markpósti og hvert þeir sem andmæla því að fá slíkan markpóst og marksímtöl geti snúið sér. Viðtakandi markpósts á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu eða útsendingu til grundvallar."



 



Var efnið hjálplegt? Nei