Úrlausnir

Eftirlitsmyndavélar á heimavist

1.6.2006

Hinn 16. ágúst 2005 tók stjórn Persónuverndar svohljóðandi ákvörðun í máli nr. 2005/59:

I.
Tildrög máls og bréfaskipti

Tildrög máls þessa eru þau að hinn 13. desember 2004 Persónuvernd barst ábending frá íbúa heimavistar [A] um að vöktun með eftirlitsmyndavélum sem þar fer fram kynni að fara í bága lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. M.a. kom fram eftirlitsmyndavélar væru staðsettar á öllum göngum og við aðalinnganga heimavistarinnar, viðvaranir um vöktunina væru ófullnægjandi, aðgengi að því myndefni sem safnað er við vöktunina væri of rúmt og myndefnið væri varðveitt í langan tíma.


Viðkomandi einstaklingur vildi ekki leggja fram kvörtun, en ábendingin þótti gefa tilefni til að Persónuvernd tæki málið upp að eigin frumkvæði. [B] skólameistara var því ritað bréf, dags 1. febrúar sl., þar sem óskað var eftir afstöðu skólayfirvalda til framangreindra atriða. Í ljósi 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var ennfremur óskað eftir nánari upplýsingum um vöktunina, sbr. eftirfarandi spurningar sem lagðar voru fyrir skólayfirvöld:

,,1. Þess er óskað að þér upplýsið um hvaða heimildir skólinn telur sig hafa til umræddrar vinnslu persónuupplýsinga.
2. Þess er óskað að þér upplýsið um fjölda og staðsetningu eftirlitsmyndavéla á heimavistinni og það hverjir fara að jafnaði um hin vöktuðu svæði.
3. Þess er óskað að þér upplýsið um tilgang vöktunarinnar, sýnið fram á að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem fer fram á heimavistinni og rökstyðjið að ekki sé unnt að ná markmiðinu með vöktuninni með öðrum og vægari raunhæfum úrræðum.
4. Þess er óskað að þér upplýsið um hversu lengi myndefnið er geymt.
5. Þess er óskað að þér upplýsið um hvernig öryggi persónuupplýsinga er tryggt, t.d. hvað varðar aðgengi að myndefninu. Hvar er myndefnið geymt, hverjir hafa aðgang að því, hvernig er komið í veg fyrir að óviðkomandi aðilar komist í það og er skráð sérstaklega hverjir skoða myndefnið og hvers vegna? Sérstaklega er óskað skýringa á aðgengi næturvarða að myndefninu, sbr. 3. gr. heimavistarreglna skólans, og upplýsinga um hverjir gegna því starfi. Eru það nemendur, starfsmenn skólans eða utanaðkomandi aðilar?
6. Þess er óskað að þér upplýsið um hvort upplýsingaréttur heimavistarbúa samkvæmt 18. gr. laga nr. 77/2000 og 11. gr. reglna nr. 888/2004 sé virtur.
7. Þess er óskað að þér upplýsið um hvernig skólinn uppfyllir fræðsluskyldu sína gagnvart heimavistarbúum annars vegar og gagnvart utanaðkomandi aðilum sem eiga erindi inn á heimavistina hins vegar. Með hvaða hætti er gert viðvart um vöktunina, eru til staðar merkingar og, ef svo er, hvar eru þær staðsettar? Þess er óskað að þér upplýsið um hvort skólinn hafi sett skriflegar reglur um vöktunina og kunngjört efni þeirra íbúum heimavistarinnar."


Í svarbréfi [B], dags. 1. mars sl., sagði eftirfarandi:

,,Við uppsetningu öryggismyndavéla heimavistar [A] var í hvívetna tekið fullt tillit til leiðbeininga Tölvunefndar árið 1999.
Skv. ábendingum Sigrúnar Jóhannesdóttur framkvæmdastjóra tölvunefndar í fjölmiðli (Degi) var leitað til hennar. Telur skólinn sig því hafa fulla heimild til að reka umræddan öryggis- og eftirlitsbúnað.


Ein vél er við aðalinngang heimavistarinnar og ein í anddyri, þá eru ein vél á milligangi neðstu hæðar og tvær á hverjum gangi Norður-Suðurálmu og ein á hverri hæð Austur-Vesturálmu. Þá er ein vél á rými sem kallast Kringla í suðurenda vistar og ein á gangi undir matsal vistarinnar, alls 16 vélar.
Engum utanaðkomandi er heimilt að fara um ganga heimavistar eftir lokun nema starfsfólki vistarinnar, vistarbúum og gestum vistarbúa með sérstakri heimild vistarstjóra. Að degi til fara um vistina vistarbúar, gestir þeirra og starfsmenn skólans. Engir aðrir eiga að vera þar á ferli.


Tilefni uppsetningar vélabúnaðarins var ítrekuð innbrot ölvaðra manna sem gengu um ganga vistarinnar, spilltu munum vistarinnar, skemmdu hurðir og brunavarnarbúnað vistarinnar og ógnuðu nemendum að næturlagi. Búnaðurinn hefur meðal annars gagnast til að mynda utanaðkomandi sem hefur gengið að aðaldyrum heimavistar og kastað grjóthnullungi í rúðu heimavistarinnar. Hann hefur einnig nýst til að upplýsa þjófnaðarmál. Loks má nefna að meint nauðgunarmál hefur komið við sögu þessa máls. Vitna skýrslur lögreglunnar á [D] um þessi mál. Fyrir skólanum vakti að verja nemendur fyrir ágangi innbrotsþjófa, koma í veg fyrir meiðsli og ryskingar og verja eignir nemenda og skólans.

Skal það sérstaklega tekið fram að ekki er um hljóðupptökur að ræða. Ef ætti að ná viðlíka árangri til að verja nemendur þessum ágangi, þyrfti fjármuni sem óraunhæft er að fáist. Það að hafa myndavélabúnað vistarinnar er ekki óvægin aðferð gagnvart vistarbúum, heldur er fyrir þá sjálfa fyrst og fremst, ætlað að verja þá og efla velferð þeirra og gæta hagsmuna foreldra, skóla og samfélags.


Myndefni er varðveitt á tölvudiski á læstri skrifstofu vistarstjóra og ekki geymt annars staðar. Eyðir vélin sjálf efni, sem áður er búið að taka yfir jafnharðan og nýju er hlaðið niður á þann veg að tveggja mánaða gamalt efni hverfur. Áður var þessu öðruvísi frir komið og þess ekki gætt sérstaklega að tímasetja eyðingu þess.


Vistarstjóri er eini einstaklingurinn sem hefur beinan aðgang að myndefni sem þegar hefur verið tekið upp. Aðrir þeir, sem hingað til hafa fengið aðgang að efni búnaðarins og þá einungis að gefnu tilefni, er skólameistari og aðstoðarskólameistari og lögregla. Hefur reynt á það einu sinni frá árinu 1999 fyrir skólameistara og tvívegis fyrir aðstoðarskólameistara. Þegar um lögbrot eða grun um lögbrot er að ræða getur lögreglan fengið að sjá efni þess. Ekki er skráð í sérstaka bók þegar efnið er skoðað en hins vegar má af skriflegum gögnum öðrum, svo sem fundargerðum skólaráðs, lögregluskýrslum eða gögnum skólanefndar, sjá hvort skoðun hafi átt sér stað. Næturgæslumenn skólans eru undantekningalaust starsfmenn skólans (með ráðningarsamning), þ.e.a.s. vistarstjóri eða vistarliði og hafa þeir (vistarliðar) ekki aðgang að uppteknu efni, heldur einungis því sem líðandi stund sýnir. Fyrir fimm árum voru nemendur síðast ráðnir til næturgæslu en þeir eru ekki lengur ráðnir til þessara starfa. Að þessu leyti er tilvitnuð þriðja grein heimavistarreglna úrelt þar sem sá misskilningur gæti komist á kreik að um nemendur væri að ræða.


Öllum umsóknum um heimavist er svarað skriflega og í bréfi, sendu öllum þeim sem fá innritun á heimavist, er sérstaklega tekið fram að þeir undirgangast heimavistarreglur og í þeim er beinlínis tekið fram að eftirlitsmyndavélar séu á göngum og í anddyri og hverjir hafi aðgang að þeim. Þá er vísað til heimavistarreglna á heimasíðu skólans í umræddu bréfi. Þá er fjallað um þennan búnað á heimavistarfundi í upphafi annar. Merkingar eru á hurðum heimavistar og öllum þeim augljósar sem um lögmæta innganga heimavistarinnar fara.


Ég tel að með vistarfundum um eftirlitsmyndavélarnar séu ákvæði 18. greinar laga nr. 77/2000 uppfyllt en ég minnist þess ekki að hafa fjallað um 5. lið greinarinnar sérstaklega. Til að bæta úr því verður 18. greinin tekin upp í heimavistarreglur skólans.
Skólinn uppfyllir 11. grein reglna nr. 888/2004 en tekið skal fram og ítrekað að ekki er um hljóðupptökur að ræða."

Í tilefni af þeim ummælum í bréfi [B], að skólinn teldi sig hafa fulla heimild til vinnslunnar þar sem leitað hefði verið til tölvunefndar og tillit tekið til leiðbeininga hennar í hvívetna, óskaði Persónuvernd eftir því með bréfi dags. 14. mars sl. að [A] framvísaði heimild tölvunefndar. Jafnframt var bent á 4. mgr. ákvæða til bráðabirgða í lögum nr. 77/2000, en þar segir að leyfi sem tölvunefnd hafi gefið út haldi gildi sínu, enda fari þau ekki í bága við lög nr. 77/2000. Var vísað til 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000, auk meginreglna 7. gr. laganna um gæði gagna og vinnslu, og óskað eftir því að [B] styddi heimildir sínar til umræddrar vinnslu rökum með vísan til þeirra lagaákvæða og rökstyddi sérstaklega þörfina á þeim fjölda eftirlitsmyndavéla sem eru á heimavistinni.


Í svarbréfi dags. 7. apríl sl. kemur fram að ekki hafi verið gefið út sérstakt leyfisbréf af hálfu tölvunefndar, heldur hafi skólinn leitað leiðsagnar tölvunefndar í kjölfar ummæla framkvæmdastjóra nefndarinnar í Degi. Um það segir síðan:

,,Var mér sagt af tölvunefnd að hún gerði ekki frekari athugasemdir við rekstur myndavélanna þar sem farið væri að ábendingum nefndarinnar. Geri ég ráð fyrir að Persónuvernd hafi aðgang að gögnum Tölvunefndar um málið að öðru leyti. Vonast ég til að Persónuvernd skilji tilvitnuð ummæli mín í fyrsta bréfi til nefndarinnar frá 1. mars s.l. í þessu ljósi..."


 

Það skal tekið fram að leit í málaskrá tölvunefndar hefur ekki leitt í ljós neitt skjal er tengist vöktun í [A].


Um heimildir til vinnslu er vísað til 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, þ.e. að allir þeir sem innritast á heimavist undirgangist heimavistarreglur þar sem tekið er fram að eftirlitsmyndavélar séu á göngum og í anddyri og hverjir hafi aðgang að þeim. Meðfylgjandi eru heimavistarreglur skólans frá árunum 1999, 2000 og 2001, en í 1. gr. þeirra segir m.a.: ,,Vistarbúar skulu kynna sér sérreglur um notkun og staðsetningu á eftirlitsmyndavélum á göngum og í anddyri og við inngönguleiðir á vistina en heimavistarstjórn, sbr. 3. grein, setur þær reglur og kynnir." Einnig fylgir eintak af bréfi til nemenda og forráðamanna, dags. 18. ágúst 2000, þar sem boðað er til fundar með skólastjórnendum og vistarstjórum þar sem m.a. verði kynntar reglur heimavistarinnar. Eintak af sérreglum þeim sem vísað er til í 1. gr. heimavistarreglnanna fylgir hins vegar ekki.


Þá segir eftirfarandi:

,,Vegna 1. mgr. 9. greinar laga nr. 77/2000 og athugasemdar þinnar lýsi ég því yfir og fullyrði að myndgögnin eru ekki notuð í ósamrýmanlegum tilgangi við yfirlýst markmið og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar, samaber það að ekki er um hljóðupptöku að ræða. Myndir af nemendum á göngum vistarinnar eru ekki viðkvæmar persónuupplýsingar og er þeim eytt og fær enginn að sjá þær án lögmæts tilefnis nema heimavistarstjóri og starfsmenn skólans við næturgæslu fá eingöngu að sjá myndir líðandi stundar. Það sem fer fram innan veggja herbergja er að sjálfsögðu ekki tekið upp."

Um fjölda myndavéla á heimavistinni segir:

,,Með hliðsjón af því að utanaðkomandi einstaklingar hafa verið uppvísir að því að fara inn með ólögmætum hætti um opna glugga heimavistarinnar á norðurhlið, austurhlið og vesturhlið vistarinnar þarf að koma við myndavélum á öllum göngum vistarinnar. Þá hafa þeir og reyndar nemendur skólans einnig farið inn á annarri hæð, klifrað upp á svalir og farið þar inn auk þess finnast dæmi um að þeir fari upp á þak aðalinngangs heimavistar og komist þar inn á þriðju hæð. Öryggissjónarmið, er að þessu lúta, hafa ekki verið nægjanlega heiðruð í hönnun vistarinnar. Læt ég þessu bréfi fylgja myndir af vistinni þér til glöggvunar. Því tel ég ekkert óhóf vera í fjölda myndavélanna með hliðsjón af stærð og gerð vistarinnar.


Loks minni ég á að þessar öryggismyndavélar gætu komið að miklu gagni ef eldur brytist út á vistinni."

Í niðurlagi bréfsins er síðan farið fram á að Persónuvernd veiti heimild til starfrækslu myndavélaeftirlitsins. Einnig er farið fram á að fulltrúi Persónuverndar heimsæki skólann til að ganga úr skugga um hvort kröfur laganna séu uppfylltar ef svör skólans þykja enn ófullnægjandi. Í kjölfarið var, með bréfi dags. 2. maí sl., boðuð heimsókn á heimavistina.


II.
Vettvangsheimsókn

Vettvangsheimsókn á heimavist [A] fór fram hinn 19. maí sl. Vettvangsskýrsla, dags. 11. júní sl., var send [B] skólameistara og honum veitt færi á að tjá sig um efni skýrslunnar í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Efni skýrslunnar er eftirfarandi:

1.

,,Auk [. . .] starfsmanna Persónuverndar voru viðstaddir [B] skólameistari, [E] heimavistarstjóri og [F] skólanefndarfulltrúi. Einnig var viðstaddur hluta heimsóknarinnar [G], starfsmaður Securitas á [D].


Í upphafi var tilgangur heimsóknarinnar útskýrður. Farið var yfir að staðreyna þyrfti hvort eftirlit og vinnsla myndefnis væri í samræmi við lög og reglur um persónuvernd og að finna þyrfti samræmi á milli öryggis- og eftirlitshagsmuna annars vegar og einkalífshagsmuna hins vegar.


U.þ.b. 80-100 manns búa á vistinni, bæði ólögráða unglingar en líka framhaldsskólanemar 18 ára og eldri. Yngri íbúar eru þó fleiri að sögn skólameistara og vistarstjóra.

2.
Tilgangur vöktunarinnar

Fram kom af hálfu skólayfirvalda að tilgangur vöktunarinnar er öryggis- og eignavarsla. Mikið hefur verið um innbrot á heimavistina, sérstaklega hafa drukknir sjómenn leitað eftir því að komast inn á vistina, helst inn um glugga og svaladyr, jafnvel á efri hæðum hússins. Einnig hafa komið upp þjófnaðartilvik og skemmdarverk, t.d. skór horfið, slökkvitæki eyðilögð og rúður brotnar.


Á heimavistinni eru gluggar með opnanlegum fögum, sem hafa að sögn skólameistara og vistarstjóra valdið miklum vandamálum, en þar komast óviðkomandi aðilar inn á heimavistina. Þessi opnanlegu fög eru þannig úr garði gerð að gluggaop er ekki nægilega stórt til þess að hægt sé að komast inn. Hins vegar er hægt að komast inn um gluggana ef lokur eru skrúfaðar af eða brotnar upp.


Aðspurður um tíðni innbrota sagði vistarstjóri þessi atvik gerast u.þ.b. tvisvar á ári. Síðar í heimsókninni þegar spurningin var ítrekuð minnti hann hins vegar að þetta hefði gerst mun oftar.


Aðspurður að því hversu oft hefur gefist tilefni til að fara í myndefni, svaraði skólameistari því að frá árinu 1999 hafi hann sjálfur einu sinni þurft að fara í myndefni og aðstoðarskólameistari tvisvar. Vistarstjóri hefur hins vegar þurft að fara oftar í myndefni, t.d. þegar um afbrot er að ræða og þá til að sýna það lögreglu. Vistarstjóri ekki alveg viss um hversu oft slíks hefði verið þörf. Skólameistari tók sérstaklega fram að hann sæi ekki ástæðu til að fara í myndefnið þegar um afbrot væri að ræða og málið færi í hendur lögreglu. Hann var því spurður í hvaða tilvikum hann eða aðstoðarskólameistari færu í myndefnið, t.d. í þessum þremur tilgreindu tilvikum. Hann tilgreindi þjófnaðarmál. Tilefni sem vistarstjóri nefndi í dæmaskyni fyrir því að hafa sjálfur þurft að fara í myndefni var þegar maður sem hafði verið meinaður aðgangur að vistinni braut rúðu, þegar utanaðkomandi aðili stal skóm úr skógeymslu í anddyri og þegar slökkvitæki hafði verið tæmt á gangi vistarinnar.


Ekki hefur til þess komið að lögregla hafi fengið í hendur afrit af myndefni heldur hefur þeim verið sýnt myndefni á skrifstofu vistarstjóra þegar tilefni hefur gefist til. Þegar önnur sönnunargögn nægja er myndefnið ekki notað.


Athygli hafði vakið að í bréfi skólameistara frá 11. apríl sl. var sérstaklega tekið fram að myndavélarnar gætu komið að miklu gagni ef eldur brytist út á vistinni. Skólameistari var beðinn um skýringar á þessu þar sem brunavarnarkerfi er á heimavistinni. Skólameistari sagði þá að ef eldsvoði kæmist upp og ekki væri hægt að gera grein fyrir öllum, þ.e. ef lík fyndist ekki, væri hægt að fara í upptökurnar og kanna hvort viðkomandi nemandi hefði farið út af heimavistinni.


3.
Lýsing á vöktun

a. Vöktunarherbergi

Á heimavistinni fer bæði fram sjónvarpsvöktun, þ.e. hægt er að fylgjast með myndum á tölvuskjá, sem og söfnun myndefnis. Tölvubúnaður er staðsettur á skrifstofu vistarstjóra, þ.e. tölva sem vistar myndefni á harðan disk og skjár þar sem hægt er að fylgjast með því sem er að gerast á heimavistinni. Næturvörður fylgist með því sem gerist á vistinni með hjálp myndavélanna. [E] vistarstjóri sagðist að jafnaði annast næturvörsluna einn, en stundum væru fengnir aðrir í það og þá úr röðum starfsmanna skólans. Myndavélarnar eru 16 talsins. Þær taka bara upp þegar þær nema hreyfingu og það efni er vistað í kerfinu með tímasetningum.


Efnið er vistað í 20 daga og síðan er tekið sjálfvirkt yfir það. Þeim stillingum er þó hægt að breyta. Beðið var um að fá að sjá elsta varðveitta myndefni, en ekki var hægt að sjá lengra aftur í tímann en einn dag. Ástæða þess er sú að tölvan sem myndefni er vistað á er ný, en harði diskurinn í eldri tölvunni hrundi og því var nauðsynlegt að skipta.


Hægt er að leita eftir tíma og dagsetningu og einnig er hægt að fá upp yfirlitsmynd um það hvort eitthvað hafi verið tekið upp og þá á hvaða myndavél og hvenær. Upptaka er stöðvuð á meðan leitað er í eldra efni.


Sú skjámynd sem venjulega er uppi sýnir allar 16 myndavélarnar. Hægt er að fá mynd úr hverri og einni myndavél fyrir sig upp á skjáinn. Flestar myndavélarnar eru í lit, en nokkrar eru svarthvítar. Það skapast af því að upphaflega voru allar vélarnar svart-hvítar en þeim hefur smám saman verið skipt út. Vél við aðalinngang er t.d. höfð í lit til þess að hægt sé að greina lit á fötum o.þ.h. í því skyni að auðveldara sé að bera kennsl á þann sem á myndunum er. Stundum hefur þurft að skipta vélunum út vegna þess að þær hafa verið rifnar niður og eyðilagðar. Fram kom að það væri ástæðan fyrir því að tvær vélar væru á hverjum gangi heimavistarinnar - þá væri ekki hægt að eyðileggja myndavél án þess að sökudólgurinn næðist á mynd. Síðar í vettvangsathuguninni kom fram að vélarnar drífa ekki nægilega langt til að ná slíku á mynd, en vistarbúar vita ekki af því. Vélarnar eru stilltar þannig að allt sem fram fer á ganginum næst á mynd, þ. m. t. allar dyr að herbergjum vistarbúa.


b. Staðsetning myndavéla og viðvaranir
Staðsetning myndavélanna er eftirfarandi:

- Inngangur og anddyri
- Milligangur neðstu hæðar
- Tvær á hverjum gangi í Norður-Suðurálmu
- Ein á hverri hæð í Austur-Vesturálmu
- Svæði sem nefnist Kringla
- Gangur undir matsal

Myndavélarnar eru flestar í kassa til að verja þær skemmdum. Alls staðar þar sem voru myndavélar, og reyndar víðar, voru merkingar um myndavélaeftirlit. Eins og fyrr segir eru tvær myndavélar á hverjum gangi. Á hverjum gangi, u.þ.b. fyrir miðju, eru innskot þar sem hefur verið komið fyrir sófa og sjónvarpi, s.s. eins konar setustofur. Þar inni eru engar myndavélar en til að komast í rýmið þarf að ganga eftir göngunum. Þarna eru líka gluggar með opnanlegum fögum, en þar hafa óviðkomandi komist inn á heimavistina eins og áður hefur verið gerð grein fyrir.


Ein lyfta er á heimavistinni en að henni beinast engar myndavélar. Hreinlætisaðstaða er inni á herbergjum. Vistarbúar þurfa því ekki að ganga eftir göngum til að fara í sturtu. Sameiginleg salernisaðstaða er þó fyrir hendi, t.d. við tölvuver og myndavél sem þar er staðsett nær dyrum tveggja salerna á mynd.


c. Öryggi
Skrifstofa vistarstjóra, þar sem tölvubúnaður er geymdur, er að sögn skólayfirvalda læst. Þess ber þó að geta að skrifstofan var opin og tölvan í gangi þegar starfsmenn Persónuverndar bar að garði. Rétt er að taka fram að allir nemendur nema einn voru farnir af heimavistinni og þar voru ekki aðrir en ræstingafólk og smiðir.


Tölvan sem vistar myndefnið er ekki nettengd og er varin lykilorði. Hún er þó höfð í gangi og myndir úr eftirlitsvélum birtast á skjá. Sérstakt lykilorð þarf til að fara inn í eldra efni og það hafa bara [G], starfsmaður Securitas, og [E] vistarstjóri.


Til þess að taka afrit þarf sérstakt lykilorð sem eingöngu [G], starfsmaður Securitas, hefur. Að sögn [E] vistarstjóra er ekki hægt að prenta út úr kerfinu, en prentari var ekki tengdur við tölvuna og því ekki hægt að staðreyna það.


Sérstaklega var leitað eftir því hvort viðhafðar væru aðgerðaskráningar, þ.e. loggun á því hver færi inn í gamalt myndefni og þá hvenær. Ekki var sýnt fram á að það væri gert. Af þeim sökum er ekki hægt að staðreyna hversu oft hefur verið farið í gamalt myndefni. [G], starfsmaður Securitas, og [E] vistarstjóri nota eitt og sama lykilorðið til að fara í eldra efni. Einnig kom fram að sama lykilorð hefur verið notað frá upphafi.


[G] hefur skrifað undir trúnaðaryfirlýsingu í starfssamningi sínum hjá Securitas.


d. Fræðsluskylda
Í tengslum við álitaefni er varða fræðsluskyldu ábyrgðaraðila gagnvart nemendum heimavistarinnar afhenti skólameistari starfsmönnum Persónuverndar eintak af núgildandi heimavistarreglum frá 8. mars 2005, sem og eintak af sérreglum um öryggis- og eftirlitsmyndavélar frá 11. mars 2005. Að sögn skólameistara eru allar reglur lesnar upp grein fyrir grein á heimavistarfundum.Óskað var eftir fundargerðum heimavistarfunda, en slíkar fundargerðir eru ekki haldnar, enda ekki venja fyrir því."

Eins og áður greinir var framangreind skýrsla send [B] skólameistara hinn 11. júní sl. og honum veitt færi á að tjá sig um efni skýrslunnar fyrir 1. ágúst. Í svarbréfi [B], dags. 27. júní, voru gerðar eftirfarandi athugasemdir:

,,Skýrslan er um flest nokkuð góð en þó mætti laga kvantarana við sumar setningarnar. Á bls. 1 er t.d. sagt að ,,mikið hafi verið um innbrot á vistina". Hið rétta er að þess þekkjast dæmi að innbrot hafi verið framin. Þá er sagt í skýrslunni að ,,sérstaklega hafa drukknir sjómenn leitað eftir því að komast á vistina..." Þegar ég nefndi sjómenn til sögunnar var ég einungis að nefna eftirminnilegt dæmi um skaða sem skólinn hefur orðið fyrir en ekki stóð til að alhæfa nokkuð um sjómenn.


Þá hjó ég eftir því að í lok II. kafla skýrslunnar er vitnað sérstaklega til bréfs míns til nefndarinnar frá 11. apríl s.l. þar sem ég benti á að gagn kynni að hljótast af öryggismyndavélum við eldsvoða. Ekki minnist ég þess að hafa talað um lík í þessu sambandi. Hins vegar má benda á að nemendur hafa kvartað við mig um að hafa ekki heyrt í brunaboðum þegar þeir hafa verið ræstir, þrátt fyrir að þeir uppfylli formlegar kröfur um brunavarnir. Það gagn, sem vera kann af næturvörslu með öryggismyndavélar í gangi, er að sjáist reykur eða eldur megi hvort tveggja í senn greina hugsanlegan uppruna hans og hafa gát á þeim nemendum sem ætla má að séu í næsta nágrenni við reykinn eða eldinn. Með skoðun á upptökum má e.t.v. leiða í ljós ferðir þeirra sem ekki koma fram við talningu og skráningu á söfnunarstað nemenda ef til eldsvoða kæmi.


Að lokum nefni ég að mér þykir vanta umfjöllun um ótvíræðan forvarnar- og fælingarmátt myndavélanna gagnvart heimsókn óviðkomandi aðila sem kunnugt er um tilvist vélanna."
III.
Forsendur og niðurstaða

1. Gildissvið

Lög nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda um sérhverja rafræna vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirka vinnslu persónuupplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Með ,,persónuupplýsingum" er átt við sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem rekja má beint eða óbeint til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Með ,,vinnslu" er átt við sérhverja aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, sbr. 2. tölul. 2. gr. Þar undir falla m.a. söfnun, geymsla, notkun, miðlun, dreifing og birting, sbr. það sem fram kemur í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, sem og b-lið 2. gr. tilskipunar nr. 95/46/EB.


Rafræn vöktun er vöktun sem er viðvarandi eða endurtekin reglulega og felur í sér eftirlit með einstaklingum með fjarstýrðum eða sjálfvirkjum búnaði, og fer fram á almannafæri eða á svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði, sbr. 6. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Hugtakið tekur til vöktunar sem leiðir, á að leiða eða getur leitt til vinnslu persónuupplýsinga og sjónvarpsvöktunar sem fer fram með notkun sjónvarpsmyndavéla, vefmyndavéla eða annars samsvarandi búnaðar, án þess að fram fari söfnun myndefnis eða aðrar aðgerðir sem jafngilda vinnslu persónuupplýsinga.


Af framangreindu er ljóst að myndavélaeftirlit það sem fram fer á heimavist [A] er í eðli sínu rafræn vöktun og rafræn vinnsla persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000 og fellur þar með undir gildissvið þeirra laga.


2. Lögmæti
Það erindi sem upphaflega barst Persónuvernd hinn 13. desember 2004 lýtur m.a. að atriðum er varða öryggi persónuupplýsinga. Eðli málsins samkvæmt verður hins vegar ekki tekin afstaða til öryggis við aðra vinnslu persónuupplýsinga en þá sem heimil er að lögum. Því þarf fyrst að taka afstöðu til lögmætis umræddrar upplýsingavinnslu.


2.1 Lögmæti - almennt
Vinnsla persónuupplýsinga er því aðeins heimil að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 8., og eftir atvikum, 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. er heimilt, þrátt fyrir að þau framangreind skilyrði séu ekki uppfyllt, í tengslum við framkvæmd rafrænnar vöktunar, að safna efni sem verður til við vöktunina að því gefnu að:

1. vöktunin sé nauðsynleg og fari fram í öryggis- og eignavörsluskyni;

2. það efni sem til verður við vöktunina verði ekki afhent öðrum eða unnið frekar nema með samþykki þess sem upptaka er af eða samkvæmt ákvörðun Persónuverndar; heimilt er þó að afhenda lögreglu efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað en þá skal þess gætt að eyða öllum öðrum eintökum af efninu;

3. því efni sem safnast við vöktunina verði eytt þegar ekki er lengur málefnaleg ástæða til að varðveita það, nema sérstök heimild Persónuverndar skv. 3. mgr. standi til frekari varðveislu.


 

Einnig ber að gæta ákvæða 7. gr. laganna í hvívetna. Þar er m.a. kveðið á um að persónuupplýsingar skuli unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga (1. tölul.), að þær skuli fengnar í yfirlýstum, skýrum og málefnalegum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi (2. tölul.), að þær séu nægilegar, viðeigandi og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang vinnslunnar (3. tölul.), að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum (4. tölul.) og ekki varðveittar á persónugreinanlegu formi lengur en þörf krefur miðað við tilgang vinnslunnar (5. tölul.)


Fari vöktunin fram á svæði þar sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði er hún jafnframt háð því skilyrði að hennar sé sérstök þörf vegna eðlis þeirrar starfsemi sem þar fer fram, sbr. 1. mgr. 4. gr. laganna.


Þá er, í 3. gr. reglna nr. 888/2004 um rafræna vöktun, kveðið á um að rafræn vöktun verði að fara fram í málefnalegum tilgangi, s.s. í öryggis- og eignavörsluskyni. Í 2. mgr. 3. gr. segir að við alla rafræna vöktun skuli þess gætt að ganga ekki lengra en brýna nauðsyn ber til miðað við þann tilgang sem stefnt er að. Skal þess gætt að virða einkalífsrétt þeirra sem sæta vöktun og forðast alla óþarfa íhlutun í einkalíf þeirra. Við ákvörðun um hvort viðhafa skuli rafræna vöktun skal því ávallt gengið úr skugga um hvort markmiði sem stefnt er að með slíkri vöktun megi ná með vægari úrræðum.


2.2. Lögmæti vöktunar á heimavist [A]

a. Heimildarákvæði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000
Í bréfi [B] skólameistara, dags. 1. mars sl., kemur fram að uppsetningu eftirlitsmyndavéla þeirra sem hér um ræðir hafi verið ætlað að ,,verja nemendur fyrir ágangi innbrotsþjófa, koma í veg fyrir meiðsli og ryskingar og verja eignir nemenda og skólans". Af öðrum ummælum í bréfum skólameistara, dags. 1. mars og 7. apríl sl., sem og af ummælum skólayfirvalda sem fram komu í vettvangsheimsókn starfsmanna Persónuverndar hinn 19. maí sl. verður einnig ráðið að tilgangur þeirrar rafrænu vöktunar sem hér um ræðir sé öryggis- og eignavarsla.


Heimild til rafrænnar vöktunar í öryggis- og eignavörsluskyni, og söfnun myndefnis í tengslum við framkvæmd hennar, á sér stoð í 2. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Öryggis- og eignavörslutilangur er einnig almennt talinn málefnalegur, sbr. t.d. 3. gr. reglna nr. 888/2004, og teljast hagsmunir sem honum er ætlað að vernda vera lögmætir. Verður því að telja að rafræn vöktun á heimavist [A] sé heimil.


b. Meðalhóf
Þrátt fyrir að rafræn vöktun kunni að vera heimil verður hún einnig að standast þær kröfur sem lög og reglur gera um meðalhóf. Í 1. mgr. 4. gr. og 1.-3. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000, sem og í 3. gr. reglna nr. 888/2004, felst áskilnaður um að við rafræna vöktun skuli gætt meðalhófs, þ.e. að slík vöktun sé ekki viðhöfð nema hennar sé nauðsyn í þágu lögmætra hagsmuna sem ólíklegt er að nái framgangi sínum nema hún sé viðhöfð og að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt er í þágu tilgangsins. Í bréfi skólameistara, dags. 1. mars sl., kemur fram að heimavist [A] sé svæði sem takmarkaður hópur fólks fer um að jafnaði og verður því að gera enn ríkari kröfur til nauðsynjar vöktunarinnar en ella, sbr. síðari málslið 1. mgr. 4. gr., þar sem gerður er áskilnaður um að sérstök þörf verði að vera á slíkri vöktun.


Heimavist er það húsnæði skóla sem nýtt er til íbúðar fyrir námsmenn. Heimavistin er fastur dvalarstaður þeirra stóran hluta árs, þeir verja þar frítíma sínum og stendur yfirleitt til boða að nýta sér þjónustu mötuneytis. Íbúar á heimavist hafa að jafnaði þinglýsta húsaleigusamninga og hafa rétt til húsaleigubóta, sbr. 5. mgr. 7. gr. laga nr. 138/1997 um húsaleigubætur, sbr. 3. gr. laga nr. 52/2001. Í athugasemdum í greinargerð frumvarps til laga nr. 52/2001 segir að aðstaða nemenda á heimavist skuli teljast ,,íbúðarhúsnæði". Það er því ótvírætt að herbergi eða íbúð sem námsmaður leigir á heimavist telst til heimilis hans og nýtur friðhelgi sem slíkt. Aðrir hlutar heimavistar, s.s. sameiginleg aðstaða ýmiss konar, gangar, setustofur, matsalur, sjónvarpsherbergi, hreinlætisaðstaða, tölvuver o.þ.h. teljast ekki til ,,heimilis" námsmanns í þeim þrönga skilningi orðsins að hann geti hamlað öðrum aðgang að þeim. Hins vegar eru þetta svæði sem eru í svo nánum tengslum við heimili námsmanns að eðlilegt og sanngjarnt er að hann njóti þar nokkuð ríkrar verndar um einkalíf sitt.


Fyrir liggur að við umrædda vöktun eru notaðar eru sextán myndavélar. Verður að telja það vera mikinn fjölda véla á 80-100 manna heimavist, auk þess sem þær eru staðsettar á svæðum sem eru í nánum tengslum við heimili nemenda (sjá viðauka). Þá kom í ljós, í vettvangsheimsókn starfsmanna Persónuverndar, að á heimavistinni fer ekki einungis fram söfnun myndefnis heldur er á tölvuskjá fylgst með því sem fram fer á hinum vöktuðu svæðum.


Af hálfu skólayfirvalda hefur komið fram að umræddar eftirlitsmyndavélar voru settar upp til að verja nemendur heimavistarinnar gegn ágangi, innbrotum og skemmdarverkum einstaklinga sem ekkert erindi eiga inn á heimavistina. Ekki verður séð að sérstök þörf sé á því að koma eftirlitsmyndavélunum fyrir inni á heimavistinni sjálfri í því skyni. Þessu markmiði má ná með því að staðsetja eftirlitsmyndavélarnar í anddyrum og utandyra þannig að þær snúi að heimavistinni og nái á mynd þeim sem leita inngöngu á hana. Sú rafræna vöktun sem nú fer fram á heimavist [A] telst því vera í bága við 3. gr. reglna nr. 888/2003, sbr. og 1. mgr. 4. gr. og 1.-3. tölul. 7. gr. laga nr. 77/2000.


Með vísun til framangreinds hefur Persónuvernd ákveðið, á grundvelli 1. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, að leggja fyrir [A] að stöðva þá vöktun sem fram fer innan veggja heimavistar [A]. Þó er heimilt að viðhafa slíka vöktun í anddyrum heimavistarinnar og utandyra þannig að myndavélarnar snúi að heimavistinni, enda séu uppfyllt skilyrði laga nr. 77/2000, þ. á m. skilyrði 24. gr. laganna um glöggar viðvaranir. Frestur til þessa er veittur til 1. september 2005. Tekið er fram að verði ekki orðið við framangreindum fyrirmælum er Persónuvernd heimilt að leita liðsinnis lögreglu, sbr. 2. mgr. 40. gr. laga nr. 77/2000.


Í ljósi þess að sú vinnsla persónuupplýsinga sem fram fer á heimavist [A] fer í bága við ákvæði laga nr. 77/2000 og reglna nr. 888/2004 verður ekki tekin afstaða til öryggis hennar.



Ákvörðunarorð:

Rafræn vöktun er heimil á heimavist [A]. Það á þó ekki við um þá vöktun sem fram fer innan veggja heimavistarinnar og skal [A] stöðva hana fyrir 1. september 2005.

Viðauki:

Myndir




Var efnið hjálplegt? Nei