Svar við erindi í tengslum við gagnaöflun og samkeyrslur vegna bólusetninga barna við COVID-19

Landlæknisembættið
b.t. Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis
Katrínartúni 2
105 REYKJAVÍK

Reykjavík, 5. janúar 2022
Tilvísun: 2021122443/ÞS


Efni: Svar við erindi í tengslum við gagnaöflun og samkeyrslur vegna bólusetninga barna við COVID-19

1.

Erindi sóttvarnalæknis

Persónuvernd vísar til erindis sóttvarnalæknis, dags. 22. desember 2021, þar sem óskað er eftir afstöðu stofnunarinnar til þess hvort nauðsynlegt sé að sækja um leyfi fyrir vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við boð í bólusetningar barna á aldrinum 5–11 ára, en tekið er fram að skipulagning og framkvæmd bólusetninganna muni krefjast öflunar persónuupplýsinga og samkeyrslu þeirra.

Nánar segir að við undirbúning bólusetninga umrædds hóps sé haft samstarf við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heilsugæslur og aðrar heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni og Miðstöð rafrænna heilbrigðislausna (MRH) hjá Landlæknisembættinu. Mikil áhersla sé lögð á að tryggja að í hverju tilviki liggi samþykki forsjáraðila fyrir. Það hverjir þurfi að veita slíkt samþykki fari eftir hjúskaparstöðu foreldra og samningum þeirra um forsjá og búsetu barns. Leitað hafi verið ráðgjafar umboðsmanns barna og dómsmálaráðuneytisins um túlkun á barnalögum nr. 76/2003 til að tryggja að samþykki allra hlutaðeigandi liggi fyrir eftir því sem við eigi.

Í framhaldi af þessu er lýst vinnuferli sem ráðgert er að viðhafa við öflun samþykkis. Því er lýst að skilaboð verði send á þá sem fara með forsjá barna og að í þeim verði að finna einkvæman hlekk á vefsíðu fyrir hvert barn. Þegar forsjáraðili smelli á hlekkinn opnist vefsíða þar sem hann samþykki bólusetningu barnsins og geti skráð kennitölur þeirra einstaklinga sem hann samþykki að fylgi barninu í bólusetningu. Á síðunni verði einnig unnt að afþakka bólusetningu og skráist höfnun í bólusetningagrunn sóttvarnalæknis. Vefsíðan verði með hlekkjum á upplýsingasíðu um bólusetningar barna við COVID-19, en unnið sé að því að útbúa upplýsingatexta á 16 tungumálum.

Einnig segir að eftir veitingu samþykkis fái forsjáraðili hlekk á strikamerki sem notað sé til að flýta fyrir afgreiðslu á bólusetningarstað, en hlekkurinn sé sendur inn á vefsvæðið heilsuveru, í tölvupósti eða með SMS-skilaboðum. Upplýsingar um veitingu samþykkis fari jafnframt inn í COVID-19-bólusetningakerfið ásamt upplýsingum um hver megi megi fylgja barni í bólusetningu. Þar verði skráðir bólusetningahópar fyrir hverja heilsugæslustöð landsins og börnunum raðað í þá hópa út frá því hvaða skóla þau ganga í og hvaða heilsugæslustöð þjónusti viðkomandi skóla. Það sé á ábyrgð forsjáraðila að áframsenda strikamerkið á þá sem hann hefur tilgreint að fylgja muni barni sínu í bólusetningu ætli hlutaðeigandi sér ekki að gera það sjálfur.

Að auki er sagt stefnt að því að bólusetningar fari fram í skólum barnanna. Forsjáraðilar fái upplýsingar um tímasetningu bólusetningar sendar frá skólahjúkrunarfræðingum hvers og eins skóla í gegnum vefina Mentor, Innu og Námfús þegar komi að bólusetningum í viðkomandi skóla. Forsjáraðili barns, eða einstaklingur sem hann hafi tilnefnt, fylgi barninu í bólusetninguna. Strikamerki verði skannað og gert ráð fyrir að þeir einir hafi strikamerki sem fylgja megi barninu. Sé strikamerki ekki meðferðis verði beðið um skilríki og þannig tryggt að viðkomandi sé á lista yfir einstaklinga með slíka heimild. Við staðfestingu bólusetningar skráist dag- og tímasetning hennar í bólusetningakerfið ásamt upplýsingum um starfsmann sem staðfesti bólusetninguna, bólusetningarstað, bóluefni og framleiðslulotu. Þær upplýsingar sendist sjálfkrafa í bólusetningagrunn sóttvarnalæknis en ekki upplýsingar um fylgdarmann. Bólusett verði í afmörkuðum rýmum í skólanum, en börnin fari síðan inn í skólastofur sínar og dvelji þar undir eftirliti hjúkrunarfræðinga í stundarfjórðung.

Jafnframt segir að eftir að bólusetning hafi verið staðfest fái forsjáraðili SMS-skilaboð með hlekk á síðu með upplýsingum um viðkomandi bóluefni og hugsanlegar aukaverkanir sem barnið gæti fundið fyrir og leiðbeiningar um hvernig bregðast skuli við þeim.

Í framhaldi af þessu er tekið fram að til að hægt verði að bjóða börnum bólusetningu sé nauðsynlegt að afla upplýsinga um forsjáraðila þeirra, svo sem nafn, kennitölu, símanúmer og netfang, auk upplýsinga um barnið sjálft, þ. á m. nafn, kennitölu og í hvaða skóla og bekk það gengur. Segir í því sambandi að aflað verði lögheimilisskráningar úr forsjárskrá Þjóðskrár, skráningar á heilsugæslustöð hjá Sjúkratryggingum Íslands, og skráningar hjá skólum á kennitölu barns, kennitölu forsjáraðila, símanúmeri og tölvupóstfangi forsjáraðila, tungumáli, skóla og bekk. Þá segir að heilsugæslustöðvar muni keyra upplýsingar um börn á leikskólaaldri, svo og börn sem kunni að verða bólusett fyrir áramót, inn í bólusetningakerfi sitt og þar með skrá þær í sjúkraskrá, auk þess sem upplýsingunum verði miðlað í bólusetningagrunn sóttvarnalæknis, líkt og vanalega sé gert við bólusetningar.

Því er einnig lýst að Landlæknisembættið muni samkeyra upplýsingar um kennitölur barna og lögheimili í þjóðskrá við skráningu leikskólabarna á heilsugæslustöðvar, skráningar í skóla fyrir allan hópinn til að finna börn án kennitölu, svo og forsjárskráningu frá Þjóðskrá fyrir allan hópinn, þ.e. kennitölu og lögheimili forsjáraðila. Jafnframt muni Landlæknisembættið samkeyra síðastnefndu upplýsingarnar við símanúmeraskrá og tölvupóstskrá úr Mentor-upplýsingakerfi grunnskóla.

Því er að auki lýst að öll miðlun upplýsinga í tengslum við skipulagningu bólusetninga barna muni fara um öruggar tengingar. Leitast verði við að halda miðlun innan upplýsingakerfisins Heklu heilbrigðisnets, en ef sækja þurfi upplýsingar til aðila sem ekki tengjast Netinu verði notast við öruggan skráarflutning með hugbúnaðinum Signet transfer. Þeir sem hafi bólusetningu með höndum fái aðgang að takmörkuðum upplýsingum í tölvukerfi sem þróað hafi verið til utanumhalds vegna COVID-19-bólusetninga og geti þar séð nafn barns, nafn foreldris og upplýsingar um þá sem veitt hafi verið heimild til að mæta með barnið. Þessar upplýsingar verði aðgengilegar við skönnun á strikamerki viðkomandi barns.

Tekið er fram að forsjáraðilar hafi fullt val um það hvort þeir opni hlekk og bregðist þannig við boði um bólusetningu barns síns. Bregðist þeir ekki við verði ekkert skráð um afstöðu viðkomandi og kunni þeir því að fá boð síðar. Mikilvægt sé talið að veita foreldrum kost á að hafna bólusetningu og skrá þá afstöðu til að koma í veg fyrir endurtekin boð í bólusetningu. Í því sambandi er vísað til 3. mgr. 3. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 þar sem meðal annars er mælt fyrir um skráningu sóttvarnalæknis á upplýsingum um bólusetningar. Segir að upplýsingum sé miðlað til hans líkt og almennt eigi við um bólusetningar, en að auki séu upplýsingar um bólusetningar aðgengilegar hinum skráðu, m.a. í viðmóti þeirra á vefnum heilsuveru.

2.

Svar Persónuverndar

Hvað það snertir að sækja þurfi um leyfi vegna þeirrar vinnslu persónuupplýsinga sem ráðgerð er í tengslum við bólusetningar barna við COVID-19 vísast til 4. gr. reglna nr. 811/2019 um leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og 3. mgr. 46. gr. almennu persónuverndarreglugerðarinnar (ESB) 2016/679. Í 1. tölul. 1. mgr. umrædds ákvæðis reglnanna er mælt fyrir um leyfisskyldu vegna samkeyrslna þar sem um ræðir viðkvæmar persónuupplýsingar. Skilgreiningu á slíkum upplýsingum er að finna í 3. tölul. 3. gr. laganna og upphafi 9. gr. reglugerðarinnar. Ljóst er að upplýsingar um bólusetningarstöðu falla þar undir, þ.e. á grundvelli þess að um ræði heilsufarsupplýsingar. Þá liggur fyrir að slíkar upplýsingar verða skráðar og þeim miðlað í bólusetningagrunn sóttvarnalæknis í samræmi við 3. mgr. 3. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Aftur á móti verður ekki séð að þær verði samkeyrðar við aðrar upplýsingar á þann hátt að leyfisskylda samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 811/2019 virkist, né heldur að unnið verði með upplýsingar á annan þann hátt að afla þurfi leyfis Persónuverndar.

Hins vegar áréttar Persónuvernd mikilvægi þess að við umrædda vinnslu verði að öllu leyti farið að lögum nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679, þ. á m. 1. mgr. 27. gr. laganna og 32. gr. reglugerðarinnar þar sem fjallað er um öryggisráðstafanir við vinnslu persónuupplýsinga. Þá minnir Persónuvernd á kröfu 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. laganna, sbr. og a-lið 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar, um að persónuupplýsingar skulu unnar með lögmætum, sanngjörnum og gagnsæjum hætti gagnvart hinum skráða.

Í þessu sambandi skal tekið fram, í tengslum við þá fyrirhuguðu framkvæmd að bólusetningar barna fari fram innan skólanna, að þar reynir á ríka einkalífshagsmuni barna. Þó svo að þessi framkvæmd ein og sér feli ekki í sér vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum nr. 90/2018 og reglugerð (ESB) 2016/679 er hún nátengd slíkri vinnslu, þ. á m. skráningu upplýsinga í tengslum við bólusetningarnar sem ljóst er að þagnarskylda ríkir um, sbr. 4. mgr. 3. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997. Þá reynir hér sérstaklega á grunnreglu 71. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Getur umrædd framkvæmd stuðlað að því að börn fái vitneskju um bólusetningarstöðu hvert annars án þess að vilji þeirra eða forsjáraðila standi til þess, svo sem ef heill bekkur er bólusettur í einu lagi á sama stað. Er sóttvarnalækni leiðbeint um að huga sérstaklega að þessu atriði.

Að öðru leyti skal tekið fram að nánari afstaða kann að verða tekin til umræddrar vinnslu persónuupplýsinga síðar, svo sem ef kvörtun berst fyrir hönd skráðs einstaklings.

F.h. Persónuverndar,

Vigdís Eva Líndal                       Þórður Sveinsson



Var efnið hjálplegt? Nei