Bréf Persónuverndar vegna aðgangs að samanburðarmati sálfræðings

Aðgangur að niðurstöðum samanburðarmats sálfræðings á umsækjendum um starf þyrluflugmanns

Persónuvernd vísar til bréfs yðar, dags. 25. febrúar 2009, varðandi mál þyrluflugmanns sem sótti um starf hjá Landhelgisgæslunni en fékk ekki. Eins og fram kemur í bréfinu höfðaði hann mál af því tilefni og óskar eftir því að í dómi verði lögð fram gögn um samanburðarmat sálfræðings á umsækjendum um starfið, bæði um hann sjálfan, sem og aðra umsækendur. Um þetta segir í bréfinu:

„Landhelgisgæslan óskar eftir áliti Persónuverndar um hvort rétt sé að Landhelgisgæslan veiti [...] þyrluflugmanni upplýsingar úr samanburðarmati sálfræðings um hann sjálfan þrátt fyrir að [...] sálfræðingur sé því mótfallinn. Landhelgisgæslan hefur bent [...] á þann möguleika að leita beint til sálfræðingsins og telur það vera réttu leiðina. Landhelgisgæslan spyr jafnframt hvort Landhelgisgæslunni sé heimilt að afhenda samanburðarmatið varðandi aðra umsækjendur og hversu langt má ganga í þeim efnum."

Persónuvernd hefur það hlutverk að framfylgja lögum nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. þeirra laga takmarka þau ekki þann rétt til aðgangs að gögnum sem mælt er fyrir um í stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Í því felst að lögum nr. 77/2000 er ekki ætlað að hafa áhrif á rétt manna til aðgangs að gögnum samkvæmt 15. gr. laga nr. 37/1993 í stjórnsýslumáli sem þeir hafa átt aðild að.

Ákvörðun stjórnvalds um ráðningu í starf telst vera stjórnvaldsákvörðun eins og fram kemur í athugasemdum við 1. gr. í greinargerð með því frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum. Hér reynir því á það álitaefni hvort umræddur þyrluflugmaður eigi rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt 15. gr. þeirra laga. Stjórn Persónuverndar fjallaði um mál þetta í ljósi þess ákvæðis á fundi sínum hinn 24. mars 2009. Taldi hún það ekki falla undir starfssvið stofnunarinnar að fjalla um hvort umræddur réttur samkvæmt stjórnsýslulögum væri til staðar heldur Landhelgisgæslu Íslands.

Ákveði Landhelgisgæslan að verða ekki við beiðni um aðgang að gögnum má kæra þá ákvörðun hennar til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga um að synjun eða takmörkun á aðgangi málsaðila að gögnum máls verði kærð til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. og 1. mgr. 2. gr. laga nr. 52/2006 um Landhelgisgæslu Íslands þess efnis að dómsmálaráðherra fari með yfirstjórn hennar.

Framangreint felur í sér að telji stjórnvald að einstaklingur eigi ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga ber því að tilkynna honum um það og rökstyðja afstöðu sína þar að lútandi, sbr. 1. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga, sbr. V. kafla sömu laga. Fær hann þá 14 daga frest til að kæra synjun eða takmörkun til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga.

Þegar reynir á rétt samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga til aðgangs að gögnum telur Persónuvernd, í ljósi framangreinds ákvæðis 2. mgr. 44. gr. laga nr. 77/2000, að ákvæði þeirra laga um rétt hins skráða til vitneskju um vinnslu persónuupplýsinga um sig sjálfan, sbr. 18. og 19. gr., víki fyrir ákvæðum 15. gr. stjórnsýslulaga.

Af því leiðir jafnframt að það fellur ekki í hlut Persónuverndar að fjalla um slík mál. Telur Persónuvernd því, eins og á stendur, ekki tilefni til umfjöllunar um það hvort veita eigi framangreindum þyrluflugmanni umræddan aðgang að gögnum um niðurstöður sálfræðimats á honum sjálfum.

Hvað varðar aðgang að gögnum um niðurstöður mats á öðrum umsækjendum telur Persónuvernd að líta verði til þess að mál varðandi ráðningu í það starf, sem hér um ræðir, er til meðferðar fyrir dómi. Það fellur í hlut dómara að úrskurða um það hvort tiltekið skjal skuli lagt fram við meðferð dómsmáls, sbr. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Telur Persónuvernd því, eins og á stendur, það ekki falla undir stofnunina heldur viðkomandi dómara að fjalla um hvort framangreindum þyrluflugmanni eða lögmanni hans skuli afhent skjöl um niðurstöður umrædds sálfræðimats.




Var efnið hjálplegt? Nei