Upplýsingar um starfsheiti

Persónuvernd vísar til erindis yðar, dags. 1. september sl., varðandi afhendingu A á upplýsingum um þá einstaklinga sem lokið hafa verðbréfaviðskiptaprófi. Nánar tiltekið er þess óskað að stofnunin staðfesti að ekkert sé því til fyrirstöðu af afhenda fyrirtækinu B upplýsingar um það hvenær réttindanna var aflað, en listi yfir þessa einstaklinga er nú þegar aðgengilegur á heimasíðu A.


Afhending umræddra persónuupplýsinga er heimil ef eitthvert skilyrða 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 er uppfyllt. Af 4. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga leiðir að það er ábyrgðaraðili persónuupplýsinganna, í þessu tilviki A, sem verður að meta það hvort afhendingin sé heimil. Ef ágreiningur verður síðar um afhendinguna getur það mat sætt endurskoðun Persónuverndar skv. 2. mgr. 37. gr. laganna. Stofnunin getur því ekki tekið efnislega afstöðu til þess hvort vinnslan sé heimil, en þykir rétt að veita yður leiðbeiningar um þau ákvæði laganna sem á reynir, sbr. 5. tölul. 3. mgr. 37. gr. laganna.


Upplýsingar um leyfisveitingar, lögbundin starfsheiti og menntun eru í eðli sínu almennar lýðskrárupplýsingar. Í máli nr. 2003/103 komst stjórn Persónuverndar að þeirri niðurstöðu að slíkar upplýsingar mætti, með stoð í 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, birta í æviskrárritum án samþykkis hinna skráðu, nema fram kæmu rökstudd andmæli þeirra sem réttmætt væri að taka til, sbr. 1. mgr. 28. gr. laganna. Hins vegar taldi Persónuvernd að upplýsingar um einkunnir mætti ekki birta án samþykkis, enda vægju þá hagsmunir hinna skráðu þyngra en hagsmunir þeirra sem vildu birta upplýsingarnar. Með þesssari niðurstöðu var staðfest að birting skráar, í þessu tilviki æviskrárrits, þar sem fram koma upplýsingar um menntun fólks, útgefin leyfi o.þ.h. geti verið heimil með stoð í framangreindu ákvæði laga nr. 77/2000. Af því leiðir hins vegar ekki að birting slíkrar skráar sé ávallt heimil. Það fer eftir tilganginum með birtingunni hverju sinni. Af ákvæðum 7. gr. laganna leiðir m.a. að vinnsla persónuupplýsinga skal vera sanngjörn, málefnaleg og lögmæt, að upplýsinganna skal aflað í skýrum, yfirlýstum og málefnalegum tilgangi og að þær skulu ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi.


Það skal áréttað að með framangreindu hefur engin efnisleg afstaða verið tekin til ágreinings sem upp kann að koma um þá vinnslu persónuupplýsinga sem hér um ræðir. Verði frekari leiðsagnar óskað verður fúslega orðið við því.



Var efnið hjálplegt? Nei