Aðild Öldrunarheimila Akureyrar að sameiginlegu sjúkraskrárkerfi fyrir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi

Sjúkrahúsið á Akureyri, f.h. heilbrigðisstofnana á Norðurlandi, tilkynnti Persónuvernd um að Öldrunarheimili Akureyrar hefðu óskað eftir því að rafrænt sjúkraskrárkerfi þeirra yrði hluti af sameiginlegu sjúkraskrárkerfi fyrir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi. Persónuvernd gerði ekki, eins og á stóð, athugasemdir við slíkt, þ.e. að Öldrunarheimili Akureyrar gengu inn í umræddan samning og gerðust þar með aðilar að sameiginlegu sjúkraskrárkerfi heilbrigðisstofnana á Norðurlandi.

 

Reykjavík,  24. júní 2014

 

 

 


Efni: Aðild Öldrunarheimila Akureyrar að sameiginlegu sjúkraskrárkerfi fyrir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi

 

 

 

Persónuvernd vísar til bréfs Sjúkrahússins á Akureyri sem sent er fyrir hönd heilbrigðisstofnana á Norðurlandi, dags. 20. mars 2014, varðandi sameiginlegt sjúkraskrárkerfi fyrir slíkar stofnanir í þeim landshluta. Hinn 19. október 2010 tók stjórn Persónuverndar ákvörðun þess efnis að ekki væru gerðar athugasemdir við öryggi í framangreindu kerfi (mál nr. 2010/707). Samkvæmt bréfinu er nú ráðgert að færa skráningu á vegum Öldrunarheimila Akureyrar inn í kerfið. Nánar tiltekið segir:

 

 

„Öldrunarheimili Akureyrar hafa ákveðið að innleiða hjá sér rafrænt sjúkraskrárkerfi (Sögu). Þau hafa óskað eftir því að gagnagrunnurinn verði sameiginlegur með þeim gagnagrunni sem Sagan er í, í Heilbrigðisumdæmi Norðurlands. Því hefur verið óskað eftir aðkomu að því, sbr. samning um sameiginlegt rafrænt sjúkraskrárkerfi fyrir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi og afritun sjúkraskrárgagna, 4. gr. Í kjölfar þessa hefur verið gert uppkast að viðauka við samninginn þar sem kemur til viðbót vegna Öldrunarheimila Akureyrar og því munu við undirritun þessa viðauka, Öldrunarheimilin ganga inn í samninginn á sama hátt og aðrar heilbrigðisstofnanir gerðu á sínum tíma þegar samningurinn var gerður. Munu sömu öryggiskröfur um meðferð gagna og eftirlit gilda fyrir Öldrunarheimili Akureyrar sem aðrar heilbrigðisstofnanir samkvæmt skilmálum samningsins.“

 

 

Hjálagt með framangreindu bréfi er afrit af samningi um sameiginlegt sjúkraskrárkerfi heilbrigðisstofnana á Norðurlandi, dags. 2. febrúar 2012, sem gerður var í kjölfar fyrrgreindrar ákvörðunar Persónuverndar. Þá er meðal annars hjálagt afrit af drögum að nýjum viðauka 2 við samninginn um viðbót vegna Öldrunarheimila Akureyrar, þess efnis að þau verði fullgildur aðili að samningnum með öllum réttindum og skyldum sem því fylgja.

 

 

Stjórn Persónuverndar fjallaði um umrætt bréf á fundi sínum í dag. Í ljósi 2. mgr. 20. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár var ákveðið að gera ekki, eins og á stendur, athugasemdir við að Öldrunarheimili Akureyrar gangi inn í umræddan samning og gerist þar með aðili að sameiginlegu sjúkraskrárkerfi heilbrigðisstofnana á Norðurlandi, enda verði í einu og öllu farið að þeim reglum sem um meðferð persónuupplýsinga í kerfinu gilda, sbr. meðal annars þau gögn um upplýsingaöryggi sem Persónuvernd bárust frá Heilsugæslunni á Akureyri fyrir hönd heilbrigðisstofnana á Norðurlandi 7. og 8. desember 2010.

 

Jafnframt skal tekið fram, í ljósi þess sem segir í umræddri ákvörðun um gildistíma hennar, að hún skal teljast vera í gildi að því gefnu að ekki gefist tilefni til endurskoðunar hennar, s.s. í ljósi nýrra upplýsinga varðandi öryggi persónuupplýsinga í framangreindu sjúkraskrárkerfi.Var efnið hjálplegt? Nei