Kennitala - tónleikamiðar

Persónuvernd vísar til kvörtunar yðar sem stofnuninni barst 8. október sl., þar sem kvartað er yfir því að þér hafið þurft að gefa upp kennitölu við kaup á miða á tónleika í A þrátt fyrir að um hafi verið að ræða staðgreiðsluviðskipti.


Persónuvernd óskaði í framhaldinu eftir skýringum af hálfu fulltrúa A, sbr. bréf dags. 5. nóvember sl. Þann 25. nóvember sl. barst svarbréf frá forstöðumanni A þar sem kemur m.a. fram að fyrirtækið B hafi hannað miðasölukerfi það sem A notast við. Kerfið miðast að nokkru við það að kaupandi gefi upp kennitölu. Einnig kemur fram að enginn sé þvingaður til að gefa upp kennitölu en gjarnan útskýrt að betri þjónustu megi vænta sé það gert. Að auki er tekið fram í bréfinu að í umrætt sinn hafi yður verið tjáð að þér gætuð alltaf keypt staðgreidda miða án þess að gefa upp kennitölu.


Yður var sent ofangreint svarbréf forstöðumanns A og í framhaldinu óskuðuð þér eftir úrskurði Persónuverndar um það hvort ákvæði 10. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga hafi verið uppfyllt í umrætt sinn, sbr. bréf dags. 17. desember sl. Í samtali starfsmanns Persónuverndar við yður þann 17. desember sl. kom einng fram að þegar kaupin fóru fram hafið þér ekki spurt sérstaklega að því hvort það væri með öllu ómögulegt að kaupa staðgreidda tónleikamiða án þess að gefa upp kennitölu heldur látið til leiðast að gefa hana upp. Í máli yðar kom þó fram að þér hafið ekki kannast við að yður hafi verið tjáð að alltaf væri hægt að kaupa staðgreidda miða án þess að gefa upp kennitölu.


Af þessu tilefni óskaði Persónuvernd nánari skýringa af hálfu forstöðumanns A, sbr. bréf dags. 5. janúar sl. Einkum var óskað staðfestingar þess efnis að alltaf væri hægt að staðgreiða tónleikamiða án þess að gefa upp kennitölu. Einnig var óskað upplýsinga um það hvort, og þá hvaða, breytingar hafi verið gerðar á miðasölukerfinu síðan ofangreind bréfaskipti hafi átt sér stað.


Nú hefur borist svar frá forstöðumanni A, sbr. tölvupóstur dags. 9. febrúar sl. Þar er að finna nánari upplýsingar varðandi ofangreind atriði. Þar segir m.a.:

Þar sem brýnt hefur verið fyrir starfsfólki [A] að leggja sig fram um að veita viðskiptavinum sem besta þjónustu hefur sú vinnuregla skapast að viðskiptavinir hafa verið inntir eftir kennitölu og liggja margar ástæður að baki, sem oft hafa sýnt og sannað gildi sitt við ýmsar tilfallandi aðstæður, t.d. ef viðkomandi gleymir eða glatar miðunum sínum, eða ef tónleikum er aflýst eða frestað, svo aðeins tvö dæmi séu tekin. Þeir örfáu sem ekki hafa kært sig um að gefa upp kennitölu hafa þó ætíð haft það valfrelsi að geta fest kaup á staðgreiddum aðgöngumiðum án þess að gefa upp kennitölu.

Um þær breytingar sem gerðar hafa verið á miðasölukerfinu segir síðan í bréfinu:

Þær breytingar sem nýlega hafa verið gerðar á miðasölukerfinu okkar eru þær m.a. að framvegis er mögulegt fyrir afgreiðslufólk að vinna út frá símanúmerum viðskiptavina í staðinn fyrir að styðjast við kennitölur viðkomandi. Miðasölukerfið hefur frá upphafi haft gögn til staðar sem studdust mest megnis við kennitölur til þess að auðkenna viðskiptavini, en það hefur einnig alltaf verið mögulegt að selja miða án þess að viðkomandi þurfi að gefa upp kennitölu. Það skal tekið fram að [A] hefur einnig selt miða á netinu og þegar fólk verslar þar, þá slær það inn kennitölu sem kerfið geymir. Viðskiptavinir gefa svo upp kennitölu eða sýna skilríki þegar þeir sækja netpantanir til [A]. Þetta er gert til að tryggja að þeir miðar sem verslaðir eru yfir netið fari ekki í rangar hendur þegar eigandi nær í miðana sína.

Fyrir liggur að ítrekað hefur komið fram í máli forstöðumanns A að hægt hafi verið að staðgreiða tónleikamiða án þess að gefa upp kennitölu í umrætt sinn og að þér hafið verið tilkynnt um slíkt þegar staðgreiðsluviðskiptin áttu sér stað. Á móti kemur að í gögnum málsins kemur fram að þér kannist ekki við að hafa fengið slíkar upplýsingar.


Af ofangreindu er ljóst að aðilum málsins ber ekki saman um málsatvik, þ.e. hvort upplýst hafi verið að hægt hafi verið að greiða tónleikamiða í umrætt sinn án þess að gefa upp kennitölu. Það liggur hins vegar fyrir að þér keyptuð tónleikamiða hjá A og gáfuð upp kennitölu við þau viðskipti. Í máli þessu stangast fullyrðingar aðila á. Við slíkar aðstæður getur Persónuvernd ekki leyst úr málinu með þeim úrræðum sem henni eru búin að lögum. Þegar af þessari ástæðu getur Persónuvernd ekki tekið afstöðu til þess hvort staðgreiðsluviðskipti yðar við A hafi farið í bága við 10. gr. laga nr. 77/2000 í umrætt sinn.



Var efnið hjálplegt? Nei