Flöggun á Hjartagátt LSH

Persónuvernd hefur svarað erindi LSH um heimild þess til að skrá upplýsingar um sjúklinga sem sýnt hafa af sér ofbeldishneigð gagnvart starfsfólki og/eða sjúklingum á Hjartagátt. Persónuvernd gerði ekki athugasemdir við fyrirhugaða vinnslu spítalans.

Efni: Flöggun einstaklinga á Hjartagátt LSH

1.
Bréfaskipti
Persónuvernd vísar til fyrri samskipta, nú síðast bréfs LSH, dags. 9. maí 2012, varðandi flöggun viðsjárverðra einstaklinga sem leita til Hjartagáttar á LSH.

Í bréfi LSH, dags. 30. janúar 2012, kemur m.a. fram að stjórnendur Hjartagáttar á Landspítala við Hringbraut telji þörf á koma upp skráningu og flöggun einstaklinga, sem hafa sýnt af sér ofbeldishneigð gagnvart starfsfólki og/eða sjúklingum, með svipuðum hætti og gert hafi verið á bráðamóttöku í Fossvogi. Til þess standi heimild Persónuverndar, dags. 2. janúar 2003.

Með fylgdi bréf frá yfirlækni og deildarstjóra Hjartagáttar með nánari lýsingu á því hvernig standa mætti að vinnslunni. Þar segir m.a.:

„Hjartagátt sækir um að fá aðild að skráningarkerfi Bráðamóttöku LSH þar sem skráðir eru með svokallaðri „flöggun“ þeir einstaklingar sem hafa við komu sýnt af sér ofbeldishneigð gagnvart starfsfólki og eftir atvikum öðrum sjúklingum sem til deildarinnar leita. Tilgangur þessa er að koma í veg fyrir ofbeldisverk á Hjartagátt, til verndar öðrum sjúklingum og starfsfólki deildarinnar. [...] Hjartagátt skuldbindur sig til að fylgja sama verklagi og gildir á Bráðamóttöku í Fossvogi og viðhafa sömu verklagsreglur og vinnuleiðbeiningar þar að lútandi. Ofbeldisatvik verða skráð í sjúkraskrá sjúklings og í rafrænt atvikaskráningakerfi sjúklinga og atvikið verður tekið upp hjá matsnefnd, skipaðri af framkvæmdastjóra lyflækningasviðs, sem metur hvort tilefni er til að vara við eða „flagga“ einstaklingum sem hættulegum eða viðsjárverðum.[...]
Hjartagátt opnaði sem bráðaþjónusta fyrir einstaklinga með einkenni frá hjarta 13. apríl 2010, en eftir samruna bráðadeilda LSH í Fossvogi varð hjartabráðaþjónustan (Hjartagáttin) eftir á Hringbraut. Hún er opin frá 08.00 á mánudagsmorgnum til kl. 20.00 á föstudögum, allan sólarhringinn og tekur á þeim tíma við öllum einstaklingum með bráðaeinkenni frá hjarta[...] færra starfsfólk vinnur á Hjartagáttinni þar sem starfsemi hennar er sérhæfð, en þangað geta samt (og hafa) leitað viðsjárverðir einstaklingar jafnvel í annarlegu ástandi. Starfsfólk og sjúklingar á Hjartagátt eru berskjaldaðir gagnvart ofbeldi og árásarhneigð af hálfu þeirra sem til deildarinnar leita, þar er færra starfsfólk á vakt og ekki er um fasta aðkomu lögreglumanna að ræða.“


Með bréfi dags. 24. apríl 2012 spurði Persónuvernd LSH hvort hann myndi haga verklagi á Hjartagátt við flöggun í samræmi við skilmála áðurnefnds leyfis frá 2. janúar 2003, þ.e. að framangreindar upplýsingar yrðu eingöngu skráðar í umræddan gagnagrunn, en ekki sjúkraskrá viðkomandi einstaklings. Þá óskaði Persónuvernd eftir nánari upplýsingum um hvernig aðgangstakmörkunum að umræddum upplýsingum yrði háttað.

Svarbréf Landspítala, dags. 9. maí 2012, barst Persónuvernd þann 11. maí s.á. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Ósk Landspítala er að verklagi á Hjartagátt við flöggun hættulegra/viðsjárverðra einstaklinga verði hagað í samræmi við áðurnefnt leyfi, þ.e. að upplýsingar verði eingöngu skráðar í umræddan gagnagrunn, en ekki sjúkraskrá viðkomandi einstaklings. Þannig verði einn sameiginlegur gagnagrunnur nýttur til þessarar skráningar, bæði á bráðamóttöku í Fossvogi og Hjartagátt.

Jafnframt áformar LSH að ákvörðunum um skráningu í þennan gagnagrunn og aðgangsstýringu verði hagað með sama hætti á báðum móttökunum. Þannig taki deildarstjóri, yfirlæknir og gæðastjóri ákvörðun um skráningu í gagnagrunninn með sama hætti og á sér stað á bráðamóttöku í Fossvogi.

Aðgangsstýringu er þannig háttað að kennimynd gagnagrunnsins kemur upp undir flipanum starfsmaður í notendaviðmóti í Sögu, hjá þeim starfsmönnum sem hafa aðgang að grunninum. Einingin er þannig aðgangsstýrð og hafa 3 aðilar aðgang að núverandi grunni, deildarstjóri, yfirlæknir (sem er ábyrgðarmaður) og gæðastjóri á bráðamóttöku í Fossvogi. Eftir að skráning á Hjartagátt hefst er gert ráð fyrir að deildarstjóri, gæðastjóri og yfirlæknir á Hjartagátt og deildarstjóri, gæðastjóri og yfirlæknir á bráðamóttöku Fossvogi hafi aðgang að grunninum.

Ferlið við flöggun einstaklinga er eftirfarandi:
Deildarsjóri, gæðastjóri og yfirlæknir fjalla um atvik og farið er í gegnum áhættuþætti og forspárþætti frekara ofbeldis. Eftir umfjöllun taka þessir 3 aðilar ákvörðun um hvort að flöggun verði framkvæmd.
Ef ákveðið er að flagga einstaklingi hefur gæðastjóri það hlutverk að setja sjúklinginn inn í eininguna "flöggun" sem er sjálfstæður aðgangsstýrður gagnagrunnur.
Þegar sjúklingur er skráður inn í afgreiðslukerfi við komu, flettir afgreiðslukerfið upp í flöggunareiningunni. Sé viðkomandi sjúklingur með virka flöggun opnast gluggi með aðvörunartexta.
Flöggun fellur sjálfkrafa úr gildi eftir 4 ár.“


2.
Svar Persónuverndar
Persónuvernd hefur fjallað um erindi Landspítala-Háskólasjúkrahús um að sjúklingar sem hafa sýnt af sér ofbeldishneigð gagnvart starfsfólki og/eða sjúklingum á Hjartagátt verði flaggaðir með svipuðum hætti og gert er á bráðamóttöku í Fossvogi. Af hálfu LSH hefur komið fram að tilgangur þessa yrði bæði að vernda eigið starfsfólk og aðra sjúklinga fyrir þeim sem hafa sýnt ofbeldisfulla hegðun á Hjartagátt.

Öll vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga verður að styðjast við eitthvert þeirra skilyrða sem talin eru upp í 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því tilviki sem hér um ræðir koma helst til skoðunar skilyrði 5. og 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 4. og 8. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Slík vinnsla er heimil að uppfylltum skilyrðum þessara ákvæða. Hún er ekki leyfisskyld, sbr. ákvæði 4. gr. reglna nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, enda standi ekki til að neita mönnum um þjónustu heldur gera starfsfólki unnt að hafa varann á sér. Tekið skal fram að umræddar reglur höfðu ekki tekið gildi þegar leyfi Persónuverndar, fyrir flöggun viðsjárverðra einstaklinga á bráðamóttöku LSH, var gefið út þann 2. janúar 2003.

Samkvæmt framangreindu gerir Persónuvernd að svo stöddu ekki athugasemdir við umrædda vinnslu. Hún tekur þó fram að hún er úrskurðaraðili í ágreiningsmálum og berist henni kvörtun einstaklings í tengslum við flöggun á Hjartagátt, t.d. vegna öryggisbrests, mun hún eftir atvikum taka slíka kvörtun til efnislegrar og úrskurðar.



Var efnið hjálplegt? Nei