Birting kennitalna í dómasafni á vefsíðu

Persónuvernd fjallaði um birtingu kennitalna í rafrænu dómasafni á vefsíðu. Var niðurstaðan sú að umrædd birting kennitalna á vefsíðunni ætti sér ekki lagaheimild. Þá var ekki fallist á ósk um að Persónuvernd veitti heimild til hennar. Hins vegar var tilmælum beint til ábyrgðaraðila um að beita tæknilegum ráðstöfunum og koma í veg fyrir að í dómasafninu yrði unnt að leita uppi og samtengja upplýsingar um einstaka menn á grundvelli kennitalna þeirra.

Efni:
Birting kennitalna í dómum á vefsíðum
Afgreiðsla leyfisumsóknar og leiðsögn


I.
Upphaf máls og bréfaskipti

1.
Þann 15. september barst Persónuvernd ábending A um birtingu dóma á vefsíðunni www.fonsjuris.is. Í ábendingunni sagði:

„www.fonsjuris.is er síða með öllum Hæstaréttardómum frá 1920. Hún er nú opin tímabundið öllum sem skrá sig og afar gott framtak. Hins vegar stuðar mig að ég get leitað eftir dómum með kennitölu aðila. Sem dæmi fann ég 15 ára dóm um staðfestingu gæsluvarðhalds yfir manni sem aldrei hefur brotið af sér síðan. Er þetta í lagi?“


Með bréfi, dags. 14. nóvember 2011, tilkynnti Persónuvernd Fons Juris ehf. um þessa ábendingu og óskaði skýringa. Í svarbréfi Fons Juris ehf. segir m.a.:

„Fons Juris ehf. hefur frá 15. september 2011 rekið rafrænt dómasafn hæstaréttardóma á vefsvæðinu www.fonsjuris.is í vefkerfinu Fons Juris. Dómasafnið inniheldur dóma Hæstaréttar frá stofnun réttarins árið 1920 til dagsins í dag. Dómar frá árunum 1920 til 1998 voru myndlesnir upp úr útgefnum dómabindum Hæstaréttar, en dómar frá og með árinu 1999 voru fengnir rafrænt frá Hæstarétti. Í vefkerfinu er mögulegt að leita eftir málsnúmeri dóms, blaðsíðutali og árgangi dómabindis, uppkvaðningardegi dóms, atriðisorðum dóms, lagatilvísunum í dómi sem og í meginmáli dóms. Dómar eru ekki persónugreindir með kennitölu í gagnagrunni. Því er ekki hægt að framkvæma flokkun eftir þeim í kerfi Fons Juris, þó að kennitölur kunni að koma fram í meginmáli dóms.

Vakin er athygli á því að leitarmöguleikum í öðrum vefkerfum á þessu sviði, s.s. í rafrænum dómasöfnum Hæstaréttar (www.haestirettur.is), héraðsdómstólanna (www.domstolar.is) og Creditinfo (www.creditinfo.is) svipar mjög til leitarmöguleikanna í vefkerfinu Fons Juris. Í öllum vefkerfum er t.a.m. mögulegt að leita í meginmáli dóms. Af því leiðir að mögulegt kann að vera að fá leitarniðurstöðu eftir kennitölu komi kennitalan á annað borð fram í tilteknum dómi.“


Með bréfi, dags. 10. janúar 2012, óskaði Persónuvernd frekari skýringa frá Fons Juris ehf. m.a. um það á hvaða heimild í 8. og 9. gr. laga nr. 77/2000 félagið teldi vinnsluna byggja. Þá var spurt um tilganginn.

Með tölvubréfi, dags. 24. janúar 2012, óskuðu forsvarsmenn Fons Juris ehf. eftir fundi með fulltrúum Persónuverndar. Hann var haldinn þann 31. janúar 2012. Fram kom að tilgangurinn sé að auðvelda starfandi lögfræðingum og laganemum aðgengi að lögfræðilegu efni en frekari upplýsingum muni verða bætt við gagnabankann síðar t.d. frá öðrum opinberum aðilum sem og höfundarvörðu efni. Bent var á að allar upplýsingar sem birtar væru í vefkerfinu væru orðrétt fengnar frá vefsíðum dómstóla hérlendis. Aðrir einkaaðilar á markaðnum veittu sambærilega þjónustu. Ómögulegt væri að hreinsa allar kennitölur, sem finna mætti í meginmáli dómanna, úr vefkerfinu. Þá veitti félagið bréflegt svar, dags. 23. mars 2012. Þar segir m.a.:

„Fons Juris ehf. er nýtt og framsækið nýsköpunarfyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Miðlunarkerfið Fons Juris (www.fonsjuris.is) er fyrsta kerfislausn félagsins. Miðlunarkerfið er leitanlegur gagnagrunnur heimilda á sviði lögfræði, en meginmarkmið kerfisins er að einfalda störf þeirra sem fást við lögfræðileg viðfangsefni. [...]

Í miðlunarkerfinu býðst nú endurgjaldslaus rafrænn aðgangur að öllum dómum Hæstaréttar Íslands, allt frá stofnun réttarins árið 1920 til dagsins í dag. [...]. Í miðlunarkerfinu er mögulegt að leita eftir málsnúmeri dóms, blaðsíðutali og árgangi dómabindis, uppkvaðningardegi dóms, atriðisorðum dóms, lagatilvísunum í dómi sem og í meginmáli dóms. [...]Í þessu sambandi ber að taka fram að leitarmöguleikunum í miðlunarkerfinu Fons Juris svipar mjög til þeirra leitarmöguleika sem finnast nú þegar í öðrum vefkerfum á þessu sviði s.s. í rafrænum dómasöfnum Hæstaréttar, héraðsdómstólanna og Creditinfo. Í öllum vefkerfunum er t.a.m. mögulegt að leita í meginmáli dóms. Af því leiðir að mögulegt kann að vera að fá leitarniðurstöðu eftir kennitölu komi kennitalan á annað borð fram í tilteknum dómi.

Ljóst má vera að gagnagrunnur á borð við þann, sem lýst er hér að ofan, myndi auðvelda og bæta stórkostlega aðgengi að hinum undirliggjandi heimildum og þannig jafnframt einfalda til muna störf þeirra sem fást við lögfræðileg viðfangsefni [...]. Á næstunni er stefnt að því að við Fons Juris bætist lögfræðilegar heimildar á borð við álit umboðsmanns Alþingis sem og aðrar heimildir á sviði stjórnsýsluréttar, s.s. stjórnvaldsákvaraðanir og stjórnvaldsúrskurður ráðuneyta, ríkisstofnana og sjálfstæðra stjórnsýslu- og úrskurðarnefnda. [...].

Hafa ber í huga að þær heimildir, sem ætlunin er að birta í miðlunarkerfinu, eru nú þegar birtar, hvort sem er á vefsvæðum dómstólanna, vefsvæðum einstakra stjórnvalda, vefsvæði Alþingis eða vefsvæðum tímarita, í útgefnum dómasöfnum, lagasöfnum, skýrslum stjórnvalda, tímaritum, fræðiritum o.s.frv. Er ætlunin að birta þessar heimildir með nákvæmlega sama hætti í miðlunarkerfinu Fons Juris. Þá eru leitarmöguleikarnir í miðlunarkerfinu svipaðir, ef ekki þeir sömu, og finnast nú þegar í öðrum miðlunarkerfum á þessu sviði.

Þegar mat er lagt á grundvöll heimildar til vinnslu umræddra upplýsinga er mikilvægt að hafa í huga að sumar lögfræðilegu heimildirnar kunna að hafa að geyma almennar persónuupplýsingar, en aðrar kunna að hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsinga í skilningi laga nr. 77/2000. Þá kann að vera að enn aðrar heimildir hafi ekki að geyma nokkrar persónuupplýsinga í skilningi laganna. Að mati Fons Juris ehf. er þannig ekki hægt að fella allar heimildirnar, sem ætlunin er að birta í miðlunarkerfinu, í einn og sama flokkinn. Í ljósi þessa telur Fons Juris ehf. vinnslu almennra persónuupplýsinga [...] byggjast á 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000, en vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga [...] byggjast á 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna. Undirstrika ber að megintilgangur miðlunarkerfisins Fons Juris er að einfalda og auka öryggi í störfum lögfræðinga og laganema. Þar að auki gegnir miðlunarkerfið einnig ákveðnu varðveisluhlutverki, þar sem ætlunin er að geyma, vernda og varðveita lögfræðilegar heimildir á einum stað. Má því segja að miðlunarkerfið sé fyrst og fremst sett á laggirnar með almannahagsmuni í huga. Eðli málsins samkvæmt er vinnsla þeirra persónuupplýsinga, sem kunna að felast í upplýsingunum í miðlunarkerfinu, forsenda þess að ætlunarverkið takist. Þá tekur Fons Juris ehf. fram að líklegt þykir að viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000 felist að mestu leyti, eða jafnvel nær eingöngu, í þeim úrlausnum dómstóla, sem ætlunin er að birta í miðlunarkerfinu. Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla skulu dómar Hæstaréttar gefnir út, sbr. og 27. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Sá háttur hefur verið hafður á útgáfunni að dómar héraðsdóma eru birtir samhliða og í kjölfar dóma Hæstaréttar. Þá hefur umræddu ákvæði um úgáfu dóma Hæstaréttar undanfarin ár verið fylgt eftir í framkvæmd með birtingu dómanna á vefsíðu réttarins. Í lögum er sérstalega gert ráð fyrir því að borgarar geti endurbirt dóma, sbr. 9. gr. höfundalaga nr. 73/1972. Af þessu leiðir að Hæstarétti ber að gera þær upplýsingar sem felast í hæstaréttardómum opinberar og er borgunum heimilt að endurbirta þær. Jafnframt er ljóst að upplýsingar hafa verið gerðar og verið aðgengilegar almenningi, sbr. 2. mgr. 31. gr. laga nr. 77/2000, gegn gjaldi eða ókeypis, hjá Creditinfo og fyrrennara þess frá árinu 1995 og hjá Hæstarétti frá árinu 1999. Á grundvelli þessa telur Fons Juris að heimild standi til vinnslu umræddra upplýsinga samkvæmt öðrum lögum en lögum nr. 77/2000.

Fallist Persónuvernd ekki á ofangreind sjónarmið er þess hér með farið á leit við stofnunina að hún veiti sérstaka heimild til vinnslunnar á grundvelli 3. mgr. 8. gr. og/eða 3. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000. Með vísun til alls framangreinds telur Fons Juris að brýnir almannahagsmunir eða hagsmunir einstaklinga, s.s. lögfræðinga og laganema, mæli með því að vinnslan fari fram í miðlunarkerfinu [...]. “


II.
Svar Persónuverndar

1.
Gildissvið o.fl.
Efnislegt gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga nær til vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna. Vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Af athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. er fylgdu frumvarpi því er varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu.

Samkvæmt framansögðu telst birting Fons Juris ehf. á kennitölum manna í dómum á vefsíðu sinni vera vinnsla persónuupplýsinga, sem fellur undir ákvæði laga nr. 77/2000 og verkefnasvið Persónuverndar.

2.
Afmörkun máls
Erindi A er ekki kvörtun frá aðila máls. Hins vegar ákvað Persónuvernd, sbr. 2. mgr. 37. gr., að taka það upp sem frumkvæðismál. Upphafleg ábending A varðar birtingu viðkvæmra persónuupplýsinga, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000. Svar þetta afmarkast þó ekki við slíkar upplýsingar. Þá er ekki gerður greinarmunur á því hvort um sé að ræða dóma Hæstaréttar eða héraðsdóma. Svarið afmarkast við birtingu á kennitölum manna í rafrænu dómasafni sem félagið veitir aðgang að á þeirri vefsíðu sem það heldur úti.

3.
Heimild til vinnslu,
ákvæði 1. mgr. 8. gr. og 1. mgr. 9. gr.
Öll vinnsla persónuupplýsinga verður að samrýmast einhverju af skilyrðum 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þá verður vinnsla viðkvæmra persónuupplýsinga, s.s. um það hvort maður hafi verið grunaður, kærður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, sbr. b-lið 8. tölul. 2. gr. sömu laga, að samrýmast einhverju af skilyrðum 1. mgr. 9. gr. laganna.

3.1.
Kveðið er á um heimildir til vinnslu almennra persónuupplýsinga í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000. Þurfa skilyrði hennar ávallt að vera uppfyllt. Í 5. tölul. er ákvæði um vinnslu sem sé nauðsynleg vegna verks sem unnið sé í þágu almannahagsmuna. Almennt verður að telja opinbera birtingu dóma þjóna almannahagsmunum í þessum skilningi og geta verið heimila, að lagaskilyrðum uppfylltum.

Eins og Fons Juris ehf. bendir réttilega á þarf hins vegar, þegar mat er lagt á grundvöll heimildar til vinnslu umræddra persónuupplýsinga, að hafa í huga að sumar þær heimildir sem ætlunin er að birta, á vef félagsins, hafa að geyma viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga nr. 77/2000. Þegar um slíkar persónuupplýsingar ræðir þarf ávallt að uppfylla eitthvert þeirra heimildarákvæða sem er að finna í 1. mgr. 9. gr. laganna. Að því er þau skilyrði varðar hefur Fons Juris ehf. vísað til  2. tölul. 1. mgr. 9. gr.

Ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. á við þegar sérstök heimild stendur til vinnslu persónuupplýsinga. Að því er varðar netbirtingu dóma  á vegum dómstóla þykir rétt að geta helstu lagaákvæða stuttlega. Um birtingu Hæstaréttar Íslands sjálfs á sínum dómum eru ákvæði í 11. gr. laga nr. 15/1998. Á grundvelli hennar hefur rétturinn sett reglur um útgáfu hæstaréttardóma. Þar eru ákvæði um nafnleynd í opinberum málum og jafnframt í einkamálum sem fjalla um viðkvæm persónuleg málefni. Í 1. gr. segir m.a. að dómar skuli gefnir út prentaðir og á netinu.

Í 16. og 17. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að áður en afhent séu endurrit úr dómabók o.þ.h. skuli afmá úr þeim atriði sem eðlilegt sé að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna. Hið sama eigi við ef dómar eða aðrar úrlausnir eru birtar opinberlega. Gert er ráð fyrir birtingu dóma á vefsíðum.

Um birtingu dóma í einkamálum er ákvæði í 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt ákvæðinu er dómara skylt, gegn greiðslu gjalds, að láta þeim, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, í té staðfest eftirrit af málsskjölum og úr þingbók eða dómabók. Áður skal þó, sé sérstök til, afmá úr þeim atriði sem eðlilegt er að leynt fari með tilliti til almanna- eða einkahagsmuna. Í 3. málsl. 3. mgr. 115. gr. sömu laga segir að endurrit af dómi eða úrskurði skuli að öðru jöfnu vera til reiðu við uppkvaðningu hans en samkvæmt venju munu slík endurrit þó í raun vera aðgengileg öðrum en aðilum máls. Í lögunum er ekki vikið að birtingu dóma á netinu

Sem handhafi framkvæmdarvalds úrskurðar Persónuvernd ekki um það hvort handhafar dómsvaldsins hafi farið að lögum við birtingu dóma á netinu.

3.2
Framangreindar heimildir um birtingu dóma af hálfu dómstóla eiga ekki við um aðra og hafa þar af leiðandi ekki að geyma heimild fyrir Fons Juris ehf. til þeirrar kennitölubirtingar sem mál þetta lýtur að. Af hálfu félagsins hefur hins vegar verið vísað til athugasemda sem fylgdu frumvarpi því er varð að höfundalögum nr. 73/1972, þ.e. athugasemda við 9. gr. frumvarpsins. Í 9. gr. segir að lög, reglugerðir, fyrirmæli stjórnvalda, dómar og önnur áþekk gögn, sem gerð eru af opinberri hálfu, njóti ekki verndar eftir lögunum. Í þeim athugasemdum sem félagið vísar til segir:

„Í 8. gr. laga nr. 13 frá 1905 er mælt, að ýmis gögn, sem þar eru talin, megi „hver gefa út sem vill“. Þessi regla er hér látin haldast um nokkurn hluta þeirra gagna, sem getið er í nefndri 8. gr., og þau gerð að öllu leyti óháð höfundarétti. Er þar um að tefla ákvarðanir eða niðurstöður löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds, sem annaðhvort ber að birta eða ekki skal halda leyndum fyrir almenningi. Þykir rétt, bæði vegna hins opinbera og almennings, að greitt sé fyrir kynningu slíkra gagna. Tilgreining 9. gr. á gögnum er ekki tæmandi. T. d. mundu ákvæði hennar einnig taka til þingsályktana.“


Við mat á því hvort hér sé um að ræða heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga þarf m.a. að líta til þess sem segir í athugasemdum við 9. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 77/2000 um þá kröfu sem gera verður til skýrleika lagaheimildar til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Framangreind ákvæði, og þær frumvarpsathugasemdir sem Fons Juris ehf. vísar til, uppfylla ekki þetta skilyrði og hafa ekki að geyma lagaheimild fyrir Fons Juris ehf. til slíkrar vinnslu.

Til frekari skýringar þykir mega nefna að umrædd lagaákvæði eru komin nokkuð til ára sinna og almennt verður, þegar metið er hvort lagaákvæði heimili tiltekna vinnslu persónuupplýsinga, að túlka þau í ljósi þeirrar upplýsingatækni sem til var þegar þau voru sett og löggjafinn gat haft í huga.
 
4.
Svar við ósk Fons Juris ehf. um sérstakt leyfi,
samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000
Í bréfi Fons Juris ehf., dags. 23. mars 2012, er þess óskað að Persónuvernd veiti félaginu sérstaka heimild til að birta kennitölurnar verði niðurstaða hennar sú að vinnslan uppfylli ekki eitthvert af skilyrðum 1 mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

Mat á því hvort lagaskilyrði til leyfisveitingar séu uppfyllt ræðst almennt af atvikum hvers máls, þeim hagsmunum sem vegast á og því í hvaða tilgangi vinnslan fer fram. Fons Juris ehf. segir tilgang sinn vera þann að einfalda og auka öryggi í störfum lögfræðinga og laganema. Þar að auki gegni hún varðveisluhlutverki, þar sem ætlunin sé að geyma, vernda og varðveita lögfræðilegar heimildir á einum stað.
Ákvæði um forsendur leyfisveitingar eru í 34. gr. laga nr. 77/2000. Það er í fyrsta lagi forsenda leyfisveitingar að vinnsla sé innan þeirra marka sem greinir í II. kafla laganna. Í því felst m.a. að hún verður að samrýmast meginreglum 7. gr. og 10. gr. Í lokamálslið 2. mgr. 34. gr. segir að Persónuvernd skuli meta hvort þeir hagsmunir sem mæla með vinnslunni vegi þyngra en hagsmunir hins skráða af því að hún fari ekki fram. Hér er skírskotað til svonefndrar hagsmunamatsreglu (7. tölul. 1. mgr. 8. gr.) en í henni felst að vinnsla skuli vera nauðsynleg til að ábyrgðaraðili, eða þriðji maður eða aðilar sem upplýsingum er miðlað til, geti gætt lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða sem vernda ber samkvæmt lögum vegi þyngra. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laganna er það einnig skilyrði, sé um viðkvæmar persónuupplýsingar að ræða, að Persónuvernd telji brýna almannahagsmuni mæla með vinnslu.

Að mati Persónuverndar liggur ekki fyrir að framangreind skilyrði séu uppfyllt að því er varðar birtingu Fons Juris ehf. á kennitölum manna í dómum á vefsíðu sinni, þ.e. í þeim tilgangi sem félagið hefur lýst yfir að búi vinnslunni að baki. Við þetta mat hefur Persónuvernd m.a. litið til þess að samkvæmt 10. gr. laga nr. 77/2000 er notkun kennitölu m.a. háð því skilyrði að hún sé ábyrgðaraðila nauðsynleg til að tryggja örugga persónugreiningu. Einnig hefur hún litið til tilgangsreglu 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. og hlutfallsreglu 3. tölul. sömu greinar - en samkvæmt þeim þarf vinnsla persónuupplýsinga að vera í réttu hlutfalli við þann yfirlýsta tilgang sem að er stefnt og má ekki ganga lengra en þarf til þess.

Samkvæmt framanrituðu eru ekki lagaskilyrði til þess að Persónuvernd gefi félaginu sérstakt leyfi til umræddrar kennitöluvinnslu. Er því synjað umsókn félagsins þar að lútandi.

5.
Leiðsögn Persónuverndar
Með vísun til 5. tölul. 3. mgr. 37. gr. laga nr. 77/2000 er Fons Juris ehf. að lokum leiðbeint um að haga allri meðferð og birtingu persónuupplýsinga á vef sínum í samræmi við 7., 10. og 11. gr. laga nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Í því felst m.a. að gera skal ráðstafanir til að takmarka samkeyrslumöguleika viðkvæmra persónuupplýsinga og eyða kennitölum manna úr því safni sem verður aðgengilegt á síðunni eða beita tæknilegum ráðstöfunum til að koma í veg fyrir að þar verði unnt að leita uppi upplýsingar um einstaka menn á grundvelli kennitalna þeirra.

6.
Samandregin niðurstaða
Birting kennitalna í rafrænu dómasafni sem Fons Juris ehf. miðlar, á þeirri vefsíðu sem það heldur úti, styðst ekki við ákvæði 1. mgr. 9. gr. laga nr. 77/2000.

Synjað er umsókn félagsins um að Persónuvernd gefi því sérstakt leyfi til slíkrar birtingar.

Félaginu er leiðbeint um að beita tæknilegum ráðstöfunum til að tryggja lögmæti vinnslu, s.s. til koma í veg fyrir að í gagnasafninu verði unnt að leita uppi og samtengja upplýsingar um einstaka menn á grundvelli kennitalna þeirra.



Var efnið hjálplegt? Nei