Upplýsingar til Bandaríkjanna um dæmda hryðjuverkamenn

1.
Persónuvernd vísar til fyrri samskipta við innanríkisráðuneytið um samningaviðræður við Bandaríkin um vegabréfsáritanafrelsi milli Íslands og Bandaríkjanna. Persónuvernd hefur þegar veitt almennar umsagnir, dags. 7. febrúar og 2. apríl 2012, og m.a. bent á að vinnslan yrði að samrýmast einhverri af kröfum 1. mgr. 8. og 1. mgr. 9. gr. Þá yrði flutningur upplýsinganna að uppfylla viðbótaskilyrði 30. gr. laga nr. 77/2000.

2.
Með tölvubréfi, dags. 30. apríl 2012, var Persónuvernd sent minnisblað ráðuneytisins varðandi framangreint. Þar kemur í fyrsta lagi fram að héðan yrðu einungis fluttar persónuupplýsingar um einstaklinga sem dæmdir hafi verið fyrir hryðjuverkabrot. Slík afmörkun hefur ekki komið fram áður.

Í minnisblaðinu kemur einnig fram að ráðuneytið telji að vinnslan geti samrýmst 5. tölul. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 (sé nauðsynleg vegna verks sem unnið er í þágu almannahagsmuna) og 2. tölul. 1. mgr. 9. gr. laganna (sérstök heimild standi til hennar samkvæmt öðrum lögum). Í þeim efnum vísar ráðuneytið til 1.mgr. 5.gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og 4. tl. 2. gr. reglugerðar nr. 322/2001 um meðferð persónuupplýsinga hjá lögreglu.

Þá segir að ráðuneytið telji flutning hinna viðkvæmu persónuupplýsinga til Bandaríkjanna geta stuðst við 7. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 77/2000, um flutning sem sé nauðsynlegur vegna brýnna almannahagsmuna.

3.
Með vísan til framangreinds er það skilningur Persónuvernd að einungis verði miðlað upplýsingum um einstaklinga sem hafi verið dæmdir fyrir hryðjuverkabrot, sbr. ákvæði 100. gr. a-c í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.

Sé það niðurstaða innanríkisráðuneytis að flutningur slíkra persónuupplýsinga til Bandarískra yfirvalda sé nauðsynlegur vegna brýnna almannahagsmuna, í skilningi 7. tölul. 1. mgr. 30. gr. laga nr. 77/2000, og hann sé heimill með hliðsjón af Rammaákvörðun nr. 2008/977/JHA, þá gerir Persónuvernd ekki frekari athugasemdir.

Hins vegar er minnt á að hún er úrskurðaraðili í ágreiningsmálum sem upp kunna að koma um vinnslu persónuupplýsinga og tekur þar af leiðandi ekki tekið bindandi afstöðu til lögmætisins að svo stöddu, enda kynni hún þá að verða vanhæf síðar, s.s. við afgreiðslu kvörtunar einstaklings yfir vinnslunni.

 



Var efnið hjálplegt? Nei