Samkeyrsla þinglýsingaskrár og þjóðskrár

Persónuvernd hefur svarað fyrirspurn fjölmiðils varðandi samkeyrslu þinglýsingaskrár og þjóðskrár með það fyrir augum að fá upplýsingar um jarðir í eigu útlendinga hér á landi. Í svari Persónuverndar kemur fram að samkeyrsla á vegum Þjóðskrár Íslands (sem er stjórnvald) verði að eiga sér stoð í lögum en að vinnsla fjölmiðils í þágu fréttamennsku þurfi þess ekki.

Efni: Samkeyrsla þinglýsingaskrár og þjóðskrár


I.
Bréfaskipti
Persónuvernd vísar til bréfs Fréttablaðsins, dags. 11. nóvember 2011, varðandi fyrirhugaða samkeyrslu þinglýsingaskrár og þjóðskrár með það fyrir augum að fá upplýsingar um jarðir í eigu útlendinga hér á landi. Í bréfinu segir:

„Fréttablaðið hefur í samráði við nemendur í fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands safnað saman gögnum um jarðahald á Íslandi. Í samræðum við starfsmenn þjóðskrár kom fram að hægt væri að fá upplýsingar um jarðir í eigu útlendinga hér á landi. Til þess þyrfti hins vegar að samkeyra þinglýsingaskrá og þjóðskrá og til þess þyrfti leyfi Persónuverndar. Hér með er óskað eftir leyfi til þess.

Markmiðið með upplýsingaöfluninni er að kortleggja hverjir séu stærstu landeigendur á Íslandi og um leið kortleggja að hve miklu leyti eignarhaldið er erlent. Ætlunin er að fjalla um málið í greinaflokki í Fréttablaðinu.“


Með bréfi til Fréttablaðsins, dags. 15. desember 2011, óskaði Persónuvernd þess að það upplýsti hvernig samkeyrslunni yrði háttað, þ. á m. hver myndi hafa hana með höndum, og hvort niðurstöður hennar yrðu persónugreinanlegar eða einungis tölfræðilegar. Fréttablaðið svaraði með bréfi, dags. 10. janúar 2012. Þar segir:

„Ætlunin er að svara því til hve margar jarðir á landinu eru í eigu útlendinga. Til þess þarf að samkeyra þinglýsingaskrá og þjóðskrá svo hægt sé að fá upplýsingar um jarðir í eigu útlendinga og til þess þarf leyfi Persónuverndar. Best væri að slíkar upplýsingar væru greinanlegar eftir nafni, en ef ekki fæst leyfi til slíks þá eftir þjóðerni. Fáist ekki heldur leyfi fyrir slíku þá er óskað eftir leyfi til samkeyrslu skránna svo hægt sé að finna út hve margar jarðir eru í eigu útlendinga, án persónugreinandi upplýsinga.

Best væri s.s. að fá persónugreinandi upplýsingar, en ef ekki fæst leyfi fyrir slíku þá yrði notast við tölfræðilegar upplýsingar.

Upplýsingarnar verða notaðar í greinaflokknum þar sem reynt verður að varpa ljósi á eignarhald jarða á Íslandi. Eini tilgangurinn með beiðninni er að svara þeirri spurningu. Blaðamaðurinn A vinnur að greinaflokknum og myndi fara með upplýsingarnar. Fleiri þurfa ekki að sjá þær sé þess óskað.“


II.
Svar Persónuverndar

1.
Gildissvið laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. þeirra laga, og þar með valdsvið Persónuverndar, sbr. 1. og 2. mgr. 37. gr. laganna, nær til sérhverrar rafrænnar vinnslu persónuupplýsinga, sem og handvirkrar vinnslu slíkra upplýsinga sem eru eða eiga að verða hluti af skrá. Persónuupplýsingar eru sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings, látins eða lifandi, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna; og vinnsla er sérhver aðgerð eða röð aðgerða þar sem unnið er með persónuupplýsingar, hvort heldur sem vinnslan er handvirk eða rafræn, sbr. 2. tölul. 2. gr. Í athugasemdum við 2. tölul. 2. gr. í því frumvarpi, sem varð að lögum nr. 77/2000, kemur fram að hver sú aðferð, sem nota má til að gera upplýsingar tiltækar, telst til vinnslu. Af þessu öllu er ljóst að mál þetta lýtur að vinnslu persónuupplýsinga sem fellur undir valdsvið Persónuverndar.

2.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 77/2000 er vinnsla, sem eingöngu fer fram í þágu fréttamennsku, undanþegin ýmsum ákvæðum laganna. Nánar tiltekið segir í 2. málsl. 5. gr.:

„Þegar persónuupplýsingar eru einvörðungu unnar í þágu fréttamennsku eða bókmenntalegrar eða listrænnar starfsemi gilda aðeins ákvæði 4. gr., 1. og 4. tölul. 7. gr., 11.–13. gr. og 24., 28., 42. og 43. gr. laganna.“


Vinnsla Fréttablaðsins á persónuupplýsingum vegna athugunar á því í hvaða mæli eignarhald á íslensku landi sé erlent fellur undir framangreinda þrengingu á gildissviði laga nr. 77/2000. Á meðal þeirra ákvæða, sem ekki gilda um slíka vinnslu, eru þau sem lúta að leyfisskyldu og tilkynningarskyldu, sbr. 31.–33. gr. laga nr. 77/2000. Fréttablaðið þarf því hvorki leyfi frá Persónuvernd né að senda tilkynningu á þar til gerðu formi, sbr. 2. mgr. 32. gr.

Þjóðskrá Íslands heldur utan um báðar þær skrár sem ráðgert er að samkeyra. Nánar tiltekið ber hún ábyrgð á færslu þjóðskrár, sbr. lög nr. 54/1962 um þjóðskrá og almannaskrárningu, auk þess sem hún færir skrá yfir þinglýstar fasteignir, sbr. 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í þinglýsingalögum nr. 39/1978. Það fellur ekki undir lögbundið hlutverk Þjóðskrár að viðhafa vinnslu sem fellur undir 5. gr. laga nr. 77/2000.

Í því felst m.a. að vinnsla á vegum Þjóðskrár, sem fram fer til að verða við beiðni fjölmiðils um upplýsingar, þarf að samrýmast einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000 eins og vinnsla persónuupplýsinga almennt. Ef um er að ræða vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga þarf einnig að vera fullnægt einhverju af viðbótarskilyrðum 9. gr., auk þess sem Þjóðskrá þarf þá leyfi Persónuverndar til samkeyrslu upplýsinga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 4. gr. reglna nr. 712/2008 um tilkynningarskylda og leyfisskylda vinnslu persónuupplýsinga, sbr. 33. gr. laga nr. 77/2000. Frá því eru þó vissar undantekningar, þ. á m. þegar byggt er á samþykki hinna skráðu, sbr. 2. mgr. 4. gr. fyrrnefndra reglna, en þær gætu ekki átt hér við.

Hér reynir á hvort upplýsingar um ríkisfang teljist viðkvæmar, þ.e. samkvæmt a-lið 8. tölul. 2. gr. laga nr. 77/2000 þar sem fram kemur að upplýsingar um m.a. uppruna séu viðkvæmar. Orðið „uppruni“ er notað sem þýðing á hugtakinu „ethnic origin“ í enskum texta persónuverndartilskipunarinnar nr. 95/46/EB sem liggur lögum nr. 77/2000 til grundvallar. Ekki verður talið að upplýsingar um ríkisborgararétt einar og sér falli undir það hugtak. Vinnsla á vegum Þjóðskrár þarf því hvorki að byggjast á leyfi frá Persónuvernd né heimild í 9. gr. laga nr. 77/2000. Hins vegar verður einhverri af kröfum 8. gr. laga nr. 77/2000 að vera fullnægt. Af þeim á hér við ákvæði 7. tölul. 1. mgr. 8. gr. þess efnis að heimilt sé að vinna með persónuupplýsingar sé það nauðsynlegt til að gæta lögmætra hagsmuna nema grundvallarréttindi og frelsi hins skráða vegi þyngra.

Persónuvernd telur því að Þjóðskrá Íslands sé heimilt að vinna með persónuupplýsingar eins og nauðsynlegt er til að Fréttablaðið fái í hendur gögn sem nýtast til athugunar á eignarhaldi á landi. Gæta verður þess að gögnin samrýmist 1. og 4. tölul. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000 sem, eins og fyrr greinir, gilda um vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í þágu fréttamennsku, sbr. 2. málsl. 5. gr. laganna. Nánar tiltekið er í umræddum ákvæðum 1. mgr. 7. gr. mælt fyrir um (a) að þess skuli gætt við vinnslu persónuupplýsinga að þær séu unnar með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga og (b) að slíkar upplýsingar skuli vera áreiðanlegar eða uppfærðar eftir þörfum; upplýsingar sem séu óáreiðanlegar eða ófullkomnar miðað við tilgang vinnslu þeirra skuli afmá eða leiðrétta.

Þjóðskrá ber ábyrgð á því að afhentar upplýsingar samrýmist framangreindum ákvæðum, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 77/2000. Við ákvörðun um afhendingu upplýsinga er eðlilegt að tekin sé afstaða til þeirra tillagna Fréttablaðsins að umfangi gagna og auðkenningu upplýsinga sem það rekur í bréfi sínu til Persónuverndar, dags. 10. janúar 2012.

Bent skal á að í framangreindu felst ekki að á Þjóðskrá hvíli skylda til afhendingar, enda er Persónuvernd ekki bær til að mæla fyrir um slíka skyldu. Þá skal bent á að ef Þjóðskrá ákveður að verða við ósk um afhendingu upplýsinga ber henni að senda Persónuvernd tilkynningu þar að lútandi þar sem vinnsluferlinu, þ. á m. samkeyrslu skráa, er lýst, sbr. 31. og 32. gr. laga nr. 77/2000, sbr. nánari ákvæði í reglum nr. 712/2008. Tilkynning skal færð á þar til gert eyðublað sem finna má á heimasíðu Persónuverndar og senda beint þaðan (www.personuvernd.is, undir hnappinum „Tilkynningar“).

Að lokum er beðist velvirðingar á þeirri töf sem orðið hefur á afgreiðslu málsins, en hún stafar af miklum önnum Persónuverndar.



Var efnið hjálplegt? Nei