SMS Markaðsrannsókn

SMS skilaboð falla undir hugtakið ,,tölvupóstur", sbr. 40. lið í formálsorðum tilskipunar nr. 2002/58/EB um vinnslu persónuupplýsinga og um verndun einkalífs á sviði rafrænna fjarskipta. Ef SMS skilaboð eru notuð í beinni markaðssókn, þ.e. beinni sókn að einstaklingi í því skyni að selja honum vöru eða þjónustu, teljast þau til markpósts.

Um vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við markaðsstarfsemi gilda almenn ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, auk þess sem 28. gr. laganna tekur sérstaklega til slíkrar vinnslu.

Í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 77/2000 um er kveðið á um hvenær má vinna með almennar persónuupplýsingar, s.s. símanúmer. Verður einhverju þeirra skilyrða sem þar er kveðið á um ávallt að vera fullnægt. Eftir atvikum getur heimild til vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við markaðsstarfsemi getur verið heimil ef hinn skráði veitir ótvírætt samþykki sitt til vinnslunnar, sbr. 1. tl. 1. mgr. 8. gr. Samþykki getur talist ótvírætt þótt það sé ekki veitt berum orðum heldur í verki. Líta má svo á að ef hringt er í auglýst gjaldsímanúmer og þar með tekið þátt í auglýstum leik eða happadrætti sé veitt samþykki fyrir notkun viðkomandi símanúmers vegna leiksins, þótt hæpið sé að líta svo á að með því sé veitt samþykki fyrir notkun símanúmersins við markaðssetningu síðar meir, ef ekki er tekið fram að það sé ætlunin.

Vinnsla persónuupplýsinga verður ávallt að fullnægja ákvæðum 7. gr. laga nr. 77/2000, en þar er kveðið á um hvernig vinna skal með persónuupplýsingar. Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. skal þess gætt að persónuupplýsingar séu fengnar í yfirlýstum tilgangi og ekki unnar frekar í öðrum og ósamrýmanlegum tilgangi. Telja verður að þegar símanúmers er aflað með þátttöku í leik eða happdrætti sé tilgangurinn með því að nota það vegna umrædds leiks eða happdrættis, nema annað hafi sérstaklega verið tekið fram. Notkun símanúmersins síðar verður hins vegar að telja annan og ósamrýmanlegan tilgang, en túlka verður þröngt það svigrúm, sem 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. felur í sér, til að nota persónuupplýsingar í öðrum tilgangi en þeim sem upphaflega var ákveðinn.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. skal þess gætt að vinnsla persónuupplýsinga sé sanngjörn. Felur þetta skilyrði í sér að vinnsla verður að fullnægja ákveðnum lágmarkskröfum um gagnsæi og fyrirsjáanleika. Ekki verður gert ráð fyrir að einstaklingur eigi að geta séð það fyrir, að nota eigi símanúmer, sem aflað er með framangreindum hætti, við markaðssetningu fyrir aðra, sé það ekki tekið fram. Í þessu sambandi verður að nefna 1. mgr. 20. gr. Þar segir meðal annars að þegar safnað sé persónuupplýsingum hjá hinum skráða skuli fræða hann um hver sé ábyrgðaraðili, hvert sé markmið söfnunarinnar og hverjum upplýsingarnar verði afhentar.

Í 1. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000 er að finna almennt ákvæði um andmælarétt við vinnslu persónuupplýsinga. Samkvæmt því er hinum skráða heimilt að andmæla vinnslu upplýsinga um sjálfan sig ef hann hefur til þess lögmætar og knýjandi ástæður vegna sérstakra aðstæðna sinna nema kveðið sé á um annað í öðrum lögum. Eigi andmælin rétt á sér er ábyrgðaraðila óheimil frekari vinnsla umræddra upplýsinga.

Í 2. - 7. mgr. 28. gr. er síðan að finna sérákvæði varðandi vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við markaðssetningu. Máli skiptir hvort viðkomandi sé annað hvort á bannskrá Hagstofunnar skv. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 77/2000, eða með bannmerki í símaskrá, sbr. 5. mgr. 46. gr. laga nr. 81/2003 um fjarskipti. Eftirlit með framkvæmd fjarskiptalaga er í höndum Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. 2. mgr. 2. gr. fjarskiptalaga, og á það því ekki undir Persónuvernd að taka afstöðu til þess hvort brotið hafi verið gegn ákvæðum þeirra laga. Persónuvernd annast hins vegar eftirlit með framkvæmd laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. mgr. 37. gr. þeirra laga og álitaefni um bannskrá Hagstofunnar skv. 2. mgr. 28. gr. laganna eiga því undir stofnunina.

Í 2. mgr. 28. gr. felst að þeim aðilum sem starfa í beinni markaðssókn og þeim sem nota skrá með nöfnum, heimilisföngum, netföngum, símanúmerum og þess háttar, eða miðla þeim til þriðja aðila í tengslum við slíka starfsemi er óheimilt að senda markpóst, þ. á m. SMS skilaboð, eða hringja í þá einstaklinga sem eru á bannskrá, nema Persónuvernd hafi veitt þeim sérstaka undanþágu.
Í 4. mgr. 28. gr. laga um nr. 77/2000 segir að nafn ábyrgðaraðila skuli koma fram á áberandi stað á útsendum markpósti og hvert þeir sem andmæla því að fá slíkan markpóst og marksímtöl geti snúið sér. Viðtakandi markpósts á rétt á að fá vitneskju um hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingu eða útsendingu til grundvallar.

Ákvæði sem snúa að óumbeðnum fjarskiptum er að finna víðar í löggjöf.

Af 46. gr. fjarskiptalaga nr. 81/2003 leiðir að notkun tölvupósts, þ.m.t. SMS skilaboða, fyrir beina markaðssetningu er óheimil nema áskrifandi hafi veitt samþykki sitt fyrirfram. Þó er heimilt að nota tölvupóstfang við sölu á vörum eða þjónustu fyrir beina markaðssetningu á eigin vörum eða þjónustu, ef viðskiptavinum er gefinn kostur á að andmæla slíkri notkun þeim að kostnaðarlausu þegar skráning á sér stað og sömuleiðis í hvert sinn sem skilaboð eru send, hafi viðskiptavinurinn ekki þegar í upphafi hafnað slíkri notkun. Óumbeðin fjarskipti í formi beinnar markaðssetningar eru að öðru leyti óheimil til þeirra áskrifenda sem óska ekki eftir að taka á móti þeim. Ennfremur er óheimilt að senda tölvupóst sem þátt í beinni markaðssetningu ef nafn og heimilisfang þess sem að markaðssetningunni stendur kemur ekki skýrt fram.

Einnig skal bent á ákvæði 14. gr. laga nr. 46/2000 um húsgöngu og fjarsölu. Þar segir að hafi neytandi ekki tilkynnt sig til skrár Hagstofu Íslands, eða áskrifandi fjarskiptaþjónustu óskað eftir sérmerkingu í símaskrá og seljandi sendir honum í beinni markaðssókn tölvupóst, ber að gefa neytanda kost á því að veita samþykki sitt fyrir áframhaldandi notkun á þeirri fjarskiptaaðferð. Samþykki neytandi ekki sérstaklega áframhaldandi sendingar með tölvupósti eru þær framvegis óheimilar. Eftirlit með viðskiptaháttum samkvæmt l. nr. 46/2000 er í höndum Samkeppnisstofnunar.

Fjársafnanir teljast ekki til beinnar markaðssóknar, þar sem ekki er verið að bjóða til sölu vöru eða þjónustu. SMS skilaboð sem eingöngu fela í sér tilboð um þátttöku í happadrætti teljast því ekki til markpósts, en engu að síðar gilda ákvæði laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga um þá vinnslu persónuupplýsinga sem fram fer í tengslum við slíkt happdrætti. Ákvæði 1. og 2. töl. 1. mgr. 7. gr., 1. töl. 1. mgr. 8. gr., 20. gr. og 1. mgr. 28. gr. laganna gilda því um slíka vinnslu með sama hætti og rakið hefur verið hér að framan.

Í framangreindum lagabálkum er að finna ákvæði um viðurlög, sbr. 42. gr. l. nr. 77/2000, 74. gr. l. nr. 81/2003 og 19. gr. l. nr. 46/2000 og ef upp kemur ágreiningurum framkvæmd þeirra getið þér snúið yður til viðeigandi stofnunar.



Var efnið hjálplegt? Nei