Ítarlegar athugasemdir gerðar við vinnslu grunnskóla á persónuupplýsingum í Mentor

Gerðar eru ítarlegar athugasemdir við nokkur atriði í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram fyrir hönd grunnskólanna vegna eftirfylgni með áliti Persónuverndar frá september 2015, um vinnslu grunnskóla á persónuupplýsingum í Mentor. Verði ekki orðið við athugasemdum Persónuverndar verður tekið til skoðunar að stöðva alla frekari skráningu persónuupplýsinga í vefkerfið Mentor hjá skólunum.

Persónuvernd hefur krafið fimm grunnskóla, sem álit stofnunarinnar í svokölluðu Mentor-máli frá 22. september 2015 tók til, um að ljúka þeim úrbótum sem tilgreindar voru í álitinu eigi síðar en 15. ágúst 2018. Verði ekki orðið við því mun Persónuvernd taka til skoðunar að stöðva alla frekari skráningu persónuupplýsinga í vefkerfið Mentor hjá skólunum fimm. Þetta er meðal þess sem fram kemur í bréfi sem skólunum var sent þann 4. júní síðastliðinn.

Í fyrrnefndu áliti Persónuverndar frá 2015, þar sem fjallað var um vinnslu persónuupplýsinga í Mentor hjá fimm grunnskólum sem valdir voru af handahófi, voru fyrirmæli í fimm liðum lögð fyrir skólanna með það fyrir augum að tryggja öryggi persónuupplýsinga sem skráðar væru í Mentor. Var þeim tilmælum meðal annars beint til skólanna að skrá ekki viðkvæmar persónuupplýsingar í Mentor nema útbúið yrði sérstakt umhverfi fyrir slíka skráningu sem fullnægði kröfum Persónuverndar. Auk þess var lagt fyrir skólana að senda Persónuvernd lýsingu á því hvernig eftirliti yrði háttað framvegis svo skráningar í Mentor samrýmdust persónuverndarlögum. Tæplega þrjú ár eru nú liðin frá því að álitið var birt.  

Í fyrrgreindum bréfum var farið yfir feril málsins og framlögð gögn af hálfu skólanna með hliðsjón af tilmælum Persónuverndar. Þá var tiltekið sérstaklega hvaða fyrirmælum hefði þegar verið farið að, og hvaða fyrirmæli hefðu enn ekki verið uppfyllt með fullnægjandi hætti.

Gerðar eru ítarlegar athugasemdir við nokkur atriði í þeim gögnum sem lögð hafa verið fram fyrir hönd grunnskólanna í málinu. Er það niðurstaða Persónuverndar að skólarnir hafi ekki enn orðið við fyrirmælum Persónuverndar. Sem fyrr segir er skólunum veittur frestur til 15. ágúst næstkomandi til að ljúka nauðsynlegum úrbótum. Berist engin gögn innan frestsins, eða ef framlögð gögn eru ófullnægjandi, mun Persónuvernd taka til skoðunar að stöðva frekari skráningu persónuupplýsinga í Mentor hjá skólunum fimm þar til fyrirmæli Persónuverndar verða uppfyllt að fullu.

Tvenns konar bréf voru send grunnskólunum fimm, annars vegar til grunnskóla í Reykjavík og hins vegar til grunnskóla utan Reykjavíkur, en svör þeirra í málinu voru að mestu leyti samræmd. Hér má nálgast afrit af bréfi sem sent var grunnskólum í Reykjavík, og hér má nálgast afrit af bréfi sem sent var grunnskólum utan ReykjavíkurVar efnið hjálplegt? Nei