Umsagnir

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum ofl.

Mál nr. 2022111914

22.11.2022


Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum ofl.

 

1.

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 16. nóvember 2022 um umsögn um tillögu til þingsályktunar um rannsókn á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum o.fl. (þskj. 30, 30. mál á 153. löggjafarþingi).

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að forsætisráðherra verði falið að skipa nefnd til að rannsaka starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum á árunum 1942-1943.

Fram kemur í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni að nauðsynlegt sé að starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum verði sérstaklega rannsökuð og að jafnframt verði rannsakað hvernig staðið hafi verið að aðgerðum yfirvalda til að sporna við því sem yfirvöld töldu óæskilegan umgang íslenskra kvenna við erlenda hermenn. Verði í því skyni sérstaklega rannsakaðar skýrslur yfirmanns ungmennaeftirlits lögreglunnar, setning laga nr. 62/1942 og úrskurðir ungmennadómstólsins svokallaða sem fjallaði um meint brot á framangreindum lögum. Þá kemur fram í greinargerð að gert sé ráð fyrir að ráðherra meti hvort vistheimilisnefnd verði falin bæði rannsóknarefnin eða hvort betur fari að sérstök nefnd verði skipuð til að rannsaka aðgerðir yfirvalda aðrar en starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum.

2.

Með lögum nr. 26/2007 var komið á fót nefnd til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila, en lögin féllu úr gildi í janúar 2021. Lög nr. 26/2007 voru sett í gildistíð eldri laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og teldust ekki fullnægja kröfum til sérstakrar lagaheimildar eins og þær birtast í núverandi persónuverndarlöggjöf. Að mati Persónuverndar verður fyrirliggjandi þingsályktunartillaga ekki heldur talin uppfylla kröfur núverandi persónuverndarlöggjafar til sérstakrar lagaheimildar, en þar eru áskilin sértæk ákvæði um vernd persónuupplýsinga eftir því sem nauðsyn ber til, sbr. m.a. g-lið 2. mgr. 9. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.

Að mati Persónuverndar er þörf á sérstakri lagaumgjörð um störf nefndar sem skipuð verði til að rannsaka starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum o.fl. Telja verður að sú leið sé best til þess fallin að tryggja að fullnægjandi heimild, samkvæmt lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og reglugerð (ESB) 2016/679, sé til staðar. Var það jafnframt niðurstaðan við veitingu heimildar Reykjavíkurborgar til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vöggustofu, sbr. lög nr. 45/2022.

Ljóst er að fyrirhuguð rannsókn myndi fela í sér umfangsmikla vinnslu persónuupplýsinga, oft viðkvæmra persónuupplýsinga, og í einhverjum tilvikum upplýsinga um aðila sem standa höllum fæti. Í 2. gr. auglýsingar nr. 828/2019 um vinnsluaðgerðir sem ávallt krefjast mats á áhrifum á persónuvernd segir að í flestum tilfellum, þar sem framkvæma eigi matið, sé um að ræða vinnslu persónuupplýsinga sem lúti að tveimur eða fleiri flokkum sem tilgreindir eru í ákvæðinu. Að mati Persónuverndar getur fyrirhuguð vinnsla lotið að þremur flokkum 2. gr., þ.e. 4., 5. og 7. flokki. Þá ber einnig að líta til 10. tölul. 3. gr. auglýsingarinnar þar sem fjallað er um skyldu til að gera mat á áhrifum á persónuvernd áður en unnið er með viðkvæmar persónuupplýsingar í rannsóknarskyni án samþykkis hins skráða. Með vísan til framangreinds telur Persónuvernd skylt að framkvæma mat á áhrifum á persónuvernd áður en vinnsla hefst eða þegar umfang gagnasöfnunar og aðferðir við vinnslu liggi fyrir.

Þá skal einnig tekið fram að rannsókn eins og fjallað er um í þingsályktunartillögunni er líkleg til að komast í opinbera umræðu. Á það einkum við um skýrslu um rannsóknarniðurstöður, en ljóst er að hún gæti með einhverjum hætti snert tiltekna einstaklinga, t.d. ef einstaklingar yrðu bornir einhverjum sökum eða ef álitið yrði að einstaklingar hefðu verið beittir misrétti. Tekið er tillit til þessa í lögum um rannsóknarnefndir, nr. 68/2011, en þau lög taka til rannsóknarnefnda sem Alþingi skipar. Meðal þess sem sérstaklega er tekið af skarið um í lögunum eru álitaefni í tengslum við birtingu upplýsinga sem rannsóknarnefnd fær í hendur, svo og það hvenær gögn frá nefndinni skuli afhent Þjóðskjalasafni Íslands, sbr. 11. gr. og 4. mgr. 13. gr. laganna, sbr. og 39. gr. laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Þá má nefna þá meðalhófsreglu 4. mgr. 6. gr. laga nr. 68/2011 að rannsóknarefnd skuli beita heimildum sínum til öflunar gagna og upplýsinga í þágu lögmætra markmiða sem tengjast rannsókn nefndarinnar og gæta þess að ganga ekki lengra en nauðsyn krefur.

Að mati Persónuverndar er nauðsynlegt að tekin verði afstaða til framangreindra atriða og þau komi fram í þeirri lagaheimild sem forsætisráðherra verði veitt til að skipa nefnd til að kanna starfsemi vinnuhælisins á Kleppjárnsreykjum o.fl. Telur Persónuvernd að vafi geti að öðrum kosti leikið á því hvort fullnægt sé þeim kröfum sem gera verður til lagaheimildar til vinnslu persónuupplýsinga.

__________________

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni þingsályktunartillögunnar að svo stöddu.

Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Vigdís Eva Líndal                                Edda Þuríður HauksdóttirVar efnið hjálplegt? Nei