Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um landamæri

Mál nr. 2022101667

25.10.2022

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um landamæri

 

1.

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 11 október 2022 um umsögn um frumvarp til laga um landamæri (þskj. 213, 212. mál á 153. löggjafarþingi).

Persónuvernd hefur áður veitt umsagnir um drög að frumvarpi til laga um landamæri, fyrst að beiðni dómsmálaráðuneytisins með umsögn dags. 14. maí 2021 og síðar í samráðsgátt stjórnvalda, dags. 12. janúar 2022. Sú síðarnefnda fylgir hér hjálögð.

2.

Í kafla 2 í umsögn Persónuverndar, dags. 12. janúar 2022, áréttaði stofnunin að fyrirhugaðar breytingar á eftirliti innan Schengen-samstarfsins með innleiðingu Evrópureglugerða þar um, sem lagðar voru til í i-lið 23. gr. draganna (k-liður 23. gr. í núverandi frumvarpi), væru til þess fallnar að valda kostnaðarauka hjá stofnuninni. Í umsögninni er ítarlega rökstutt í hverju sá kostnaðarauki felist. Meðal annars segir í umsögninni að verði frumvarpið að lögum sé ljóst að það kalli á aukningu hjá stofnuninni sem nemi 1-2 stöðugildum. Auk þess muni falla til töluverður beinn kostnaður vegna úttekta og eftirlits ásamt kostnaði við auknar utanlandsferðir starfsmanna til að sækja lágmarksfjölda funda eftirlitsstofnana aðildarríkja.

Í 5. kafla greinargerðar með frumvarpi því sem nú er veitt umsögn um er fjallað um mat á áhrifum af frumvarpinu. Í því kemur fram að áhrif frumvarpsins á Persónuvernd feli í sér kostnað við úttektir á komu- og brottfarakerfinu og ferðaupplýsinga- og ferðaheimildakerfinu á þriggja ára fresti. Þá segir að ekki sé gert ráð fyrir því að eftirlitshlutverk Persónuverndar muni breytast í verulegum atriðum og því sé gert ráð fyrir að kostnaður, ef einhver verði, rúmist innan ramma málaflokksins. Í áætlun kostnaðaráhrifa innleiðinga Schengen-upplýsingakerfa og tengdum kostnaði er gert ráð fyrir 6 milljónum króna til handa Persónuvernd, þ.e. 3 milljónum króna árið 2024 og aftur sömu upphæð árið 2027.

Að mati Persónuverndar er í núverandi frumvarpi og athugasemdum með því að miklu leyti litið framhjá þeim athugasemdum sem stofnunin gerði í 2. kafla umsagnar sinnar þann 12. janúar 2022. Persónuvernd bendir á að hér er um að ræða alþjóðlegar skuldbindingar vegna Schengen-samstarfsins sem Ísland hefur undirgengist að þjóðarrétti og verður að telja það brot á þeim skuldbindingum að fjármagna ekki að fullu þau verkefni sem hér um ræðir.

Persónuvernd áréttar umsögn sína frá 12. janúar 2022, varðandi innleiðingu nýrra Evrópureglugerða innan Schengen-samstarfsins.

__________________

Ekki eru að öðru leyti gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins að svo stöddu. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Þórður Sveinsson                Steinunn Birna Magnúsdóttir

 

Hjálagt:

Umsögn Persónuverndar um drög að frumvarpi um landamæri, lögð fram í samráðsgátt stjórnvalda, dags. 12. janúar 2022.



Var efnið hjálplegt? Nei