Umsagnir

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd)

Mál nr. 2022101795

10.11.2022

 

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd)

 

1.

Persónuvernd vísar til beiðni allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis frá 28. október 2022 um umsögn um frumvarp til breytinga á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (alþjóðleg vernd), (þskj. 400, 382. mál á 153. löggjafarþingi). Persónuvernd hefur áður veitt umsögn um málið, dags. 31. maí 2022, þegar það var lagt fram á 152. löggjafarþingi (þskj. 837, 595. mál), en náði ekki fram að ganga.

2.

Í umsögn Persónuverndar, dags. 31. maí 2022, voru gerðar athugasemdir við 3. gr. frumvarpsins þar sem gert var ráð fyrir breytingu á 17. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 með þeim hætti að heilbrigðisyfirvöldum yrði bætt við þá tilteknu aðila sem væri heimil vinnsla persónuupplýsinga útlendinga að fullnægðum heimildarákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sem og að því marki sem mælt væri fyrir um heimildir til slíkrar vinnslu í útlendingalögum. Var það mat Persónuverndar að ákvæði 3. gr. frumvarpsins fullnægði ekki þeim kröfum sem gera yrði til lagaheimildar sem renna ætti stoðum undir vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Þá áréttaði Persónuvernd mikilvægi þess að slíkar upplýsingar væru skýrt tilgreindar í lagatexta en ekki aðeins í frumvarpsathugasemdum, svo og að orðalag lagaákvæðis afmarkaðist við þá tilteknu vinnslu sem talin væri nauðsynleg til að ná markmiðum þess. Jafnframt var áréttað mikilvægi þess að heimildir til vinnslu persónuupplýsinga séu skýrar, ótvíræðar og samrýmist meðalhófssjónarmiðum þannig að þær séu ekki umfram það sem nauðsynlegt er í þágu lögmæts og málefnalegs tilgangs með vinnslu.

Í 4. gr. þess frumvarps sem nú er veitt umsögn um kemur fram að á eftir 2. mgr. 17. laganna komi ný málsgrein þar sem segir að ef nauðsyn beri til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um brottvísun eða frávísun útlendings skv. 104. gr. sé lögreglu heimilt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um líkamlegt og andlegt heilbrigði einstaklingsins til að geta ferðast. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpinu segir að við framkvæmd ákvörðunar um frávísun eða brottvísun skv. 104. gr. laganna beri lögreglu að tryggja að ekki séu til staðar ástæður sem komi í veg fyrir flutning viðkomandi úr landi, t.d. á grundvelli heilbrigðisástæðna. Þannig geti í vissum tilvikum reynst nauðsynlegt að afla vottorða frá heilbrigðisyfirvöldum um að viðkomandi útlendingur sé nægilega hraustur til að geta ferðast. Jafnframt segir að með heilbrigðisyfirvöldum sé átt við alla þá aðila sem veita heilbrigðisþjónustu í samræmi við lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, þ.m.t. heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn hvort sem þeir starfa innan eða utan heilbrigðisstofnana.

Í samræmi við framangreint hefur að mati Persónuverndar verið brugðist við þeim athugasemdum sem stofnunin gerði í umsögn sinni, dags. 31. maí 2022. Verði frekari umsagnar óskað um einstök atriði verður hún fúslega veitt.

F.h. Persónuverndar,

Vigdís Eva Líndal                        Steinunn Birna Magnúsdóttir



Var efnið hjálplegt? Nei